Ráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson vill einfalda regluverk.
Ráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson vill einfalda regluverk.
„Þetta hefur mikla einföldun í för með sér og stofnanirnar verða betur í stakk búnar en áður til að sinna hlutverkum sínum. Þetta er grunnurinn að því að við getum einfaldað regluverk sem við erum búin að vera að vinna að undanfarin tvö ár,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson.

Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is

„Þetta hefur mikla einföldun í för með sér og stofnanirnar verða betur í stakk búnar en áður til að sinna hlutverkum sínum. Þetta er grunnurinn að því að við getum einfaldað regluverk sem við erum búin að vera að vinna að undanfarin tvö ár,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í samtali við Morgunblaðið, spurður um áhrif þess að Alþingi lögfesti um helgina frumvörp um nýja Umhverfis- og orkustofnun og Náttúruverndarstofnun.

Umhverfis- og orkustofnun tekur við starfsemi Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar, en Náttúruverndarstofnun tekur við Vatnajökulsþjóðgarði og starfsemi náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar. Stofnanirnar taka til starfa 1. janúar 2025. Árlegur sparnaður vegna hagræðingar sem af þessu hlýst er áætlaður um 500 milljónir króna.

Alls fækkar stofnunum sem undir ráðuneytið heyra úr 13 í 9 með samþykkt fyrrgreindra frumvarpa, en auk framangreinds mun stofnun Vilhjálms Stefánssonar sameinast Háskólanum á Akureyri.

Segir Guðlaugur Þór að hin nýja Umhverfis- og orkustofnun muni fara með stjórnsýslu loftslags-, umhverfis- og orkumála og málefni auðlindanýtingar. Raforkueftirlit mun verða sjálfstæð eining undir stofnuninni. Tilgangur Umhverfis- og orkustofnunar verði að stuðla að því að markmið stjórnvalda um loftslagsmál gangi eftir, auk þess að leggja áherslu á sjálfbæra og ábyrga nýtingu auðlinda með náttúruvernd og að lágmarka umhverfisáhrif.

Þá muni Náttúruverndarstofnunin fara með stjórnsýslu, eftirlit og önnur verkefni á sviði náttúruverndar og sjálfbærrar þróunar og á sviði friðlýstra svæða, þ.m.t. Vatnajökulsþjóðgarðs og Snæfellsjökulsþjóðgarðs, vernd villtra fugla og spendýra og veiðistjórnunar. Þá mun hún sinna samhæfingu í skipulagi svæðisbundinnar stjórnunar og verndar og eftirliti á fyrrgreindum sviðum.

Fleiri þjóðgarðar í bígerð

Guðlaugur Þór segir að ekki verði skipuð sérstök stjórn yfir hinni nýju stofnun, heldur munu svæðisstjórnir fara með umsjón tiltekinna landfræðilega afmarkaðra svæða í umboði ráðherra. Lögð verði áhersla á að efla og viðhalda því skipulagi sem skilað hafi góðum árangri við stefnumótun um stjórnun og vernd innan þjóðgarðanna.

„Þetta þýðir líka að þeir þjóðgarðar sem stofnaðir verða í framtíðinni munu lúta stjórn heimamanna,“ segir hann, en verið sé að að skoða stofnun þjóðgarða á Langanesi, í Dölum, á Vestfjörðum og Þórsmörk. Þjóðgarðinum á Snæfellsnesi verður og stýrt af heimamönnum

Sameiningar stofnananna munu ganga í gildi um næstu áramót, en Guðlaugur Þór segir undirbúning þegar vera hafinn. Auglýst verði eftir nýjum forstjórum stofnananna fljótlega.