Háhýsi Framkvæmdir ganga vel á Eirhöfða í Reykjavík en þar er unnið hörðum höndum að nýju og spennandi hverfi.
Háhýsi Framkvæmdir ganga vel á Eirhöfða í Reykjavík en þar er unnið hörðum höndum að nýju og spennandi hverfi. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Mynd af íbúðabyggð er nú farin að dragast upp í nýju hverfi á Ártúnshöfða í Reykjavík. Við götuna Eirhöfða er verktakafyrirtækið Arnarhvoll nú að reisa fyrir Umbru byggingarfélag fjögurra kjarna fjölbýlishús með samtals 96 íbúðum.

Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is

Mynd af íbúðabyggð er nú farin að dragast upp í nýju hverfi á Ártúnshöfða í Reykjavík. Við götuna Eirhöfða er verktakafyrirtækið Arnarhvoll nú að reisa fyrir Umbru byggingarfélag fjögurra kjarna fjölbýlishús með samtals 96 íbúðum. Búið er að steypa húsið upp og frágangur að utan er að hefjast.

„Hverfið verður glæsilegt og er nánast miðja höfuðborgarsvæðisins. Þarna eru spennandi möguleikar og mikið að gerast, en við gerum ráð fyrir að íbúðirnar fari í sölu á næstu mánuðum. Miðað er svo við afhendingu þeirra til kaupenda á fyrri hluta næsta árs,” segir María Rúnarsdóttir, einn eigenda Höfðakórs, í samtali við Morgunblaðið.

Áætlanir og skipulag Reykjavíkurborgar gera ráð fyrir allt að 20 þúsund íbúum í hverfinu nýja á Ártúnshöfða. Uppbygging er að komast af stað, en auk framkvæmda Umbra er nú verið að hefjast handa um byggingu á tveimur öðrum lóðum við Eirhöfða. Á þessum slóðum hefur til þessa verið iðnaður, verkstæði og ýmis starfsemi af grófari gerðinni sem nú þarf að víkja.

„Á lóðinni þar sem við byggjum er frábært útsýni yfir borgina og út á sundin. Þetta hverfi á eftir að verða mjög eftirsótt,” segir María um bygginguna á Eirhöfða, þar sem verða íbúðir 2-5 herbergja og einn stigagangurinn er sérstaklega ætlaður eldra fólki.