Félag eldri borgara í Reykjavík (FEB) gagnrýnir harðlega áform borgaryfirvalda í Reykjavík um að fækka fulltrúum félagsins í öldungaráði Reykjavíkur úr þremur í einn.

Sveinn Valfells
sveinnv@mbl.is

Félag eldri borgara í Reykjavík (FEB) gagnrýnir harðlega áform borgaryfirvalda í Reykjavík um að fækka fulltrúum félagsins í öldungaráði Reykjavíkur úr þremur í einn. Öldungaráð starfar á grundvelli laga um málefni aldraðra, og er ætlað að tryggja samráð um þau málefni sem snúa að öldruðum.

Ráðið hefur hingað til verið skipað sjö fulltrúum, þ.e. þremur frá FEB auk annarra á vegum borgaryfirvalda. En verði ný tillaga samþykkt hljóta félögin Samtök aldraðra og Háskóli þriðja æviskeiðisins tvo fulltrúa af þremur í ráðinu en Félag eldri borgara mun skipa þann þriðja.

Ingibjörg H. Sverrisdóttir, fulltrúi FEB í öldungaráðinu, telur breytingarnar slæmar og dregur í efa að þær standist lög.

„Samstarfið við borgaryfirvöld hefur hingað til gengið vel, en nú upplifi ég í fyrsta sinn að Reykjavíkurborg reyni að ná fram sínu með offorsi. Lögin eru afar skýr en í þeim stendur að ráðið skuli skipað fulltrúum sem tilnefndir eru af félagi eldri borgara í sveitarfélaginu. Frumkvæði þessara breytinga liggur hins vegar hjá borginni og þær eru ekki gerðar í sátt. Með þessu er borgin að ráðskast með okkar sæti eftir eigin geðþótta,” segir hún.

Breytingarnar eru að hennar mati til þess fallnar að draga úr virkri baráttu fyrir málstað eldri borgara í Reykjavík.

Dapurt ósætti uppi

Sara Björg Sigurðardóttir, formaður öldungaráðsins, segir dapurlegt að ósætti skuli ríkja um breytinguna, en gefur lítið fyrir orð Ingibjargar um að breytingin komi til með að bitna á hagsmunabaráttu í þágu aldraðra.

„Við teljum mjög mikilvægt að fá ólíkar raddir að borðinu, þar á meðal frá FEB en líka frá fleiri aðilum. Það má ekki gleymast að FEB hefur enn einn fulltrúa í ráðinu af þremur.” segir Sara og heldur áfram:

„Okkur ber líka að hafa jafnræði og fjölbreytileika að leiðarljósi og túlkun ráðuneytisins um að þetta standist lög er mjög skýr. Við höfum mjög háleit markmið varðandi þjónustu fyrir aldraða, þar sem þetta er ört vaxandi hópur. En til þess að þau náist er nauðsynlegt að bjóða fleiri aðilum til samtals sem hafa þekkingu á ólíkum sviðum.” segir hún.