Örlygur Hnefill
Örlygur Hnefill
Framleiðslufyrirtækið Castor media opnar í dag nýtt kvikmyndaver á Húsavík. Að baki verkefninu standa þeir Örlygur Hnefill og Ingimar Eydal, en þeir hafa lengi verið viðriðnir kvikmyndagerð.

Sveinn Valfells
sveinnv@mbl.is

Framleiðslufyrirtækið Castor media opnar í dag nýtt kvikmyndaver á Húsavík. Að baki verkefninu standa þeir Örlygur Hnefill og Ingimar Eydal, en þeir hafa lengi verið viðriðnir kvikmyndagerð. Hugmyndina að verinu segja þeir hafa kviknað í kjölfar gjalþrots sjónvarpsstöðvarinnar N4.

„Það hefur ávallt verið öflug fjölmiðlarflóra á Norðurlandi í gegnum tíðna. Bæði í gegnum útvarp og blaðamiðla og þar að auki var fyrsta sjónvarpsútsending á landinu hér á Akureyri árið 1934. Það hefur því ávallt verið mikill metnaður fyrir fjölmiðlun á svæðinu. Og þegar N4 fór í þrot fannst okkur vert að reyna að endurvekja þá starfsemi,“ segir Örlygur.

Hann segir mikinn skort vera á mannlífs- og menningarefni af landsbyggðinni, nú þegar N4 er ekki lengur starfandi.

„Við stefnum á að vera með okkar eigin framleiðslu í þeim anda, en hugmyndin gengur einnig út á að hér verði til aðstaða fyrir fólk á svæðinu til þess að búa til fjölbreytt efni. Þetta verður einskonar samfélagsstúdíó. Hjá mörgum fjölmiðlum hefur einnig hallað á viðmælendur utan höfuðborgarsvæðisins, en við vonumst til að það breytist til batnaðar og að myndverið nýtist í það,“ segir Örlygur og bætir við:

„Við finnum fyrir því að gróskan í skapandi greinum er einstök á Íslandi og því felast í þessu frábær tækifæri.“