Er einhver heima? Þessi tvö ljón áttu eitt sinn heima í Hafnarfirði.
Er einhver heima? Þessi tvö ljón áttu eitt sinn heima í Hafnarfirði.
„Hugsunin á bak við þetta er aðallega að fræða fólk um þetta vegna þess að ég veit að margir á mínum aldri vita ekki einu sinni að þetta hafi verið til.“

Viktoría Benný B. Kjartansdóttir
viktoria@mbl.is

„Hugsunin á bak við þetta er aðallega að fræða fólk um þetta vegna þess að ég veit að margir á mínum aldri vita ekki einu sinni að þetta hafi verið til,“ segir Rán Sigurjónsdóttir, tvítugur nemandi í grafískri hönnun hjá Listaháskóla Íslands. Hún stefnir á að halda sýningu um Sædýrasafnið í Hafnarfirði í sumar, þ.e. 25. júlí til 5. ágúst, í Hafnarborg. Sýningin er gerð í samstarfi við skapandi sumarstörf hjá Hafnarfjarðarbæ.

Sædýrasafnið gamla var fyrst opnað árið 1969 við Hafnarfjarðarhöfn og var það opið allt fram til ársins 1987. Þar gátu gestir séð fjölbreytt úrval sjávardýra en einnig voru þar framandi dýr á borð við apa og ljón.

Rán leitar nú að fólki sem enn man eftir safninu og biður það um að segja sér frá upplifun sinni. Minningarnar verða svo teknar saman í bók sem sýnd verður gestum og gangandi á sýningunni.

Aðspurð segist hún hafa fengið hugmyndina að sýningunni þegar hún var eitt sinn í bíltúr með föður sínum um Hafnarfjörð. Spurði hún hann út í merkilega staðreynd um bæinn. „Ég var í raun búin að spyrja marga – hvað er merkilegast við Hafnarfjörð? Það hlýtur jú auðvitað að vera eitthvað,“ segir Rán í samtali við Morgunblaðið og bætir við að faðir sinn hafi fyrstur manna sagt henni frá safninu gamla.

„Ég var í sjokki að enginn lét mig fyrr vita af því,“ segir hún.