Dagbók Myndina tók bróðir höfundarins af honum við tjald þeirra í flóttamannabúðum Sameinuðu þjóðanna á Rafah.
Dagbók Myndina tók bróðir höfundarins af honum við tjald þeirra í flóttamannabúðum Sameinuðu þjóðanna á Rafah. — Ljósmynd/Ibrahim Abu Saif
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dagbók frá Gasa, eftir rithöfundinn og menningarmálaráðherra palestínsku heimastjórnarinnar Atef Abu Saif, kom nýverið út í þýðingu Bjarna Jónssonar.

Af bókum
Einar Falur Ingólfsson

Þegar fimmtán ára sonur höfundar þessarar hryllilegu og sláandi áhrifaríku dagbókar spyr föður sinn þar sem þeir eru á ferð um hálfsprengda Gasaborg hvað átt hafi verið við í umræðum í útvarpsþætti BBC sem hann hafði heyrt, að þjóðarmorð ætti sér stað á Gasa, hvað orðið þjóðarmorð eiginlega þýði, þá svarar faðirinn: „Allt þetta, sem er að gerast í kringum okkur“ (34). Og lesandinn skilur fullkomlega hvað hann á við því það er nákvæmlega það sem lýst er í frásögninni; dauði og eyðing hvert sem litið er og tekur engan endi í djöfullegum sprengjudyninum.

Atef Abu Saif er fimmtugur, doktor í stjórnmála- og félagsfræði frá háskóla í Flórens, og allþekktur rithöfundur í arabíska bókmenntaheiminum. Hann hefur skrifað skáldsögur, smásögur og leikrit, verk sem sum hafa verið þýdd á nokkur tungumál. Þá hefur hann líka skrifað bækur um stjórnmál og greinar í palestínsk tímarit og dagblöð. Hann er frá Gasa og þar hafa margar kynslóðir fjölskyldu hans búið en fyrir fimm árum flutti hann á Vesturbakkann og varð menningarmálaráðherra palestínsku heimastjórnarinnar. Dagbókin nær yfir 85 daga og hefst þann örlagaríka sjöunda október þegar skæruliðar Hamas frömdu skelfilegt hryðjuverk sem kostaði um 1.200 manns lífið og tóku þeir um 250 gísla að auki. Þann dag var Abu Saif í heimsókn á Gasa ásamt unglingnum syni sínum, að heimsækja föður og systkini en stórfjölskyldan var öll búsett þar og að auki átti Abu Saif þar íbúð. Feðgarnir voru í sjósundi þegar sprengjuregnið hófst, viðbrögð ísraelskra stjórnvalda við hryðjuverkunum, hefndaraðgerð í anda Gamla testamentisins, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn.

Abu Saif byrjar strax að halda dagbók um upplifanir sínar. Hann kýs fyrst í stað að reyna ekki að komast heim til sín á Vesturbakkann heldur vera hjá föður sínum og systkinum og hjálpa til í baráttunni við að halda lífi og aðstoða aðra. Brot úr dagbókinni birtust á þessum mánuðum í fjölmiðlum víða um lönd og gáfu einstaka innsýn í atburðarásina á sama tíma og blaðamenn voru unnvörpum drepnir, en þeir voru margir vinir höfundarins sem vann framan af skrásetningu sinni í miðstöð fréttamanna á Gasa. Af lýsingum hans að dæma virðist nokkuð augljóst að blá vesti blaðamanna með PRESS ritað á í bak og fyrir hafi einfaldlega gert þá að skotmörkum en ekki verndað eins og vera ber samkvæmt alþjóðlegum samningum siðaðra þjóða. Enda er fátt siðlegt í því sem á sér stað á Gasa þessa mánuðina. Við lesum um það hvernig sprengjurnar falla í íbúðahverfin og heilu fjölskyldunum er slátrað, líka sjúklingum á sjúkrahúsum og fólki sem leitar skjóls nákvæmlega þar sem ísraelsk stjórnvöld hafa sagt því að fara. Lýsingarnar á því þar sem slasaðra og látinna er leitað í rústunum eru ægilegar, og hvernig líkamspörtum er raðað á teppi og reynt að flytja til greftrunar þegar sprengjuregninu linnir. Á 39. degi sitja höfundurinn og bróðir hans og reyna að gera lista yfir ættingja og vini sem hafa verið drepnir og hætta þegar þeir eru komnir með 80 nöfn. Og þá eru ótalin þau sem hafa örkumlast, eins og frænkan unga sem missti báða fætur og annan handlegginn. Lýsingar Abus Saifs eru skiljanlega oft kaldranalegar en sannar eins og þegar hann hættir sér inn í eitt hverfið að leita ættingja: „Þetta er ekki hernaður heldur fjöldamorð. Eins og endirinn á stríðsmynd: Allt í rúst. Um það bil 50 byggingar, flestar þeirra tvær eða þrjár hæðir, höfðu verið sprengdar í loft upp. Hið eiginlega skotmark í hverfinu var aðeins auðn. Ég trúði ekki mínum eigin augum. Húsin höfðu fallið hvert á annað, rétt eins og þau hefðu sofnað á staðnum, misst jafnvægið og tekið næsta hús með sér í fallinu. Nú lágu þau öll í einni kös […] allt saman jafnað við jörðu“ (116).

Og eftir að vinur höfundarins hafði verið einn fjórtán manna sem voru myrtir í einni árásinni skrifar Abu Saif: „Það virðist hreinlega vera í eðli Ísraelshers að myrða eins marga og kostur er. Mannfallið skiptir engu máli, aðalatriði er að ekkert fáist þrifist á Gasasvæðinu. Við erum bara ótilgreind tala í þeirra augum – tíu eða tíu þúsund, það skiptir ekki máli. Umheimurinn segir ekki orð, ef frá eru taldar fáeinar mótmælagöngur í stórborgum. Og Ísraelsmenn láta öll slík mótmæli sem vind um eyru þjóta“ (73). Lýsingar höfundarins á ruddalegri og niðurlægjandi framkomu ísraelskra hermanna eru líka sláandi þegar segir af því þegar feðgarnir fá loks á 48. degi hernaðarins gegn Gasa að fara yfir öryggislínuna og áleiðis að egypsku landamærunum en þeir eygja von um að komast þá leið heim til sín á Vesturbakkann. Hermennirnir velja karla úr röðinni sem þeir handtaka en hin mega brölta áfram gegnum eðjusvað þar sem Abu Saif lætur soninn ýta ömmu sinni í hjólastól svo þau eigi betri möguleika á að fara í gegn. Hann skipar syninum að líta ekki til hliðar á göngunni: „„Ekki horfa,“ segi ég. „Ekki horfa.“ Beggja vegna vegarins eru haugar af rotnandi líkum Það er einsog þau séu að bráðna ofan í jörðina. Fnykurinn er óbærilegur. Handleggur stendur út um glugga á brunnum bíl, svona eins og eigandi hans sé að reyna að ná athygli vegfarenda. Afhöfðuð lík, höfuð á stangli“ (198). Ein þversögnin í þessum hryllingi öllum er hversu mikið atburðirnir og fullkomið virðingarleysið fyrir mannslífum minna á það sem gerðist í Þýskalandi fyrir áttatíu árum. Og það er í raun galið þegar þeir sem styðja þetta óverjandi framferði stjórnvalda í Ísrael segja gagnrýni á þau vera andúð á gyðingum. Enda mótmæla gyðingar víða um lönd þessum hryllingi líka.

Helsti veikleiki dagbókar Atefs Abus Saifs er vissulega sá að hann gagnrýnir ekki beint hryðjuverk Hamasliða í Ísrael og gíslatöku þeirra, sem ráðherra á Vesturbakkanum hefði það auðvitað verið mikilvægt. En hann kýs að skrifa út frá upplifunum sínum, sem einn af þeim óbreyttu á Gasa sem hefndaraðgerðirnar beinast að, og óreiðan er algjör og skilningsleysi fólksins sem reynir að bjarga sér og sínum, eins og við myndum öll gera, er það sem frásögnin hverfist um: „Það eru endalausar frásagnir af föngum og gíslum og vitnað til yfirlýsinga leiðtoga um allan heim. Allir virðast mjög ánægðir með að fólkið hafi verið leyst úr haldi en það talar enginn um þann hræðilega toll sem stríðið hefur tekið af saklausum borgurum á Gasa. Aldrei er minnst á þjáningar þeirra og þær ömurlegu aðstæður sem þeir búa við. Enginn minnist á þau 15.000 sem látin eru, 36.000 særða og milljón manns sem eru landflótta á svæðinu. Er veröldin sturluð? Er hún sjúk?“ (214) Það er von að hann spyrji.

Dagbók frá Gasa er gefin samtímis út í ellefu löndum og er frásögn þess eðlis að þessi lesandi kýs að gefa reynslusögunni engar fáfengilegar stjörnur, það er ekki við hæfi. En það er vel gert hjá forlaginu Angústúru að veita íslenskum lesendum aðgang að þessum mikilvæga vitnisburði færs og virts höfundar sem var staddur í þessum djöfullegu aðstæðum í 85 daga. Og þar eru hundruð þúsunda manna enn.

Höf.: Einar Falur Ingólfsson