[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Barnabás Varga, sóknarmaður Ungverjalands, hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi í Stuttgart í Þýskalandi eftir að hann fékk þungt höfuðhögg í leik liðsins gegn Skotlandi

Barnabás Varga, sóknarmaður Ungverjalands, hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi í Stuttgart í Þýskalandi eftir að hann fékk þungt höfuðhögg í leik liðsins gegn Skotlandi í A-riðli Evrópumóts karla í fótbolta á sunnudagskvöld. Varga kinnbeinsbrotnaði þegar hann og Angus Gunn, markvörður Skotlands, skullu harkalega saman og þurfti að fá aðhlynningu í sjö mínútur á vellinum í Stuttgart.

Phil Foden yfirgaf enska landsliðið í knattspyrnu í Þýskalandi í gær og fór heim til Englands af persónulegum ástæðum. Ekki er ljóst hvort hann snúi aftur fyrir leik Englands í 16-liða úrslitum Evrópukeppninnar á sunnudaginn.

Daniele De Rossi, knattspyrnustjóri Roma á Ítalíu, hefur skrifað undir þriggja ára samning við uppeldisfélagið. De Rossi tók við stjórnartaumunum af José Mourinho til bráðabirgða í janúar síðastliðnum en Roma tilkynnti svo í apríl að hann hefði verið ráðinn til frambúðar og nú hefur verið gefið út að samningurinn sé til ársins 2027.

Kvennalið Vals í körfuknattleik hefur fengið til sín bandarískan leikstjórnanda fyrir næsta tímabil. Sú heitir JuToreyia Willis , er 24 ára gömul og lék með svissneska liðinu Pully síðasta vetur þar sem hún var valin besti varnarmaður svissnesku deildarinnar.

Hamar/Þór, sem er nýliði í úrvalsdeild kvenna í körfubolta næsta vetur, hefur fengið til sín breska framherjann Teresu Da Silva . Teresa er 23 ára gömul og kemur frá Tarleton State-háskóla í Bandaríkjunum.

Tveir síðustu leikirnir í tíundu umferð Bestu deildar kvenna fóru fram í gærkvöld en var ekki lokið þegar blaðið fór í prentun. FH komst snemma í 2:0 gegn Tindastóli í Kaplakrika þar sem Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir og Ída Marín Hermannsdóttir skoruðu sitt markið hvor. Þá komst Stjarnan snemma yfir gegn Víkingi í Fossvoginum, 1:0, með marki frá Huldu Hrund Arnarsdóttur. Úrslitin má sjá á íþróttavef mbl.is.

Þá var leikin heil umferð í 1. deild karla í gærkvöld. Grindvíkingar komust yfir í fyrri hálfleik gegn ÍBV með marki frá Dennis Nieblas, 1:0, og Keflvíkingar voru með forystu gegn Njarðvík í grannaslagnum í Reykjanesbæ þar sem Ásgeir Páll Magnússon skoraði, 1:0. Sjá nánar á íþróttavef mbl.is.

Bandaríski körfuboltamaðurinn Dedrick Basile hefur samið við Tindastól um að leika með liðinu á næsta tímabili. Hann lék með Grindvíkingum í vetur og var þar í lykilhlutverki þegar þeir komust í úrslitaeinvígið um meistaratitilinn. Dedrick, sem er 31 árs gamall bakvörður, lék fyrst hér á landi með Þór á Akureyri en síðan með Njarðvíkingum í tvö ár áður en hann kom til Grindavíkur fyrir síðasta tímabil.