Fanney Guðlaugsdóttir fæddist á Veiðileysu á Ströndum 26. nóvember 1943. Hún lést á Landspítalanum aðfaranótt 16. júní 2024.

Foreldrar hennar voru Sveinn Guðlaugur Annasson bóndi, f. 20. október 1902, d. 9. janúar 1953, og Guðbjörg Kristín Guðbrandsdóttir húsmóðir, f. 24. ágúst 1902, d. 4. febrúar 1986. Þau bjuggu á Kambi 1945-1954. Systkini hennar eru: Kristinn Jón Guðlaugsson f. 10. ágúst 1924, d. 10. júlí 1933; Ágúst Sigurður Karlsson, f. 19. júlí 1929, d. 25. apríl 2008; Ingibjörg Pálína Kristín Guðlaugsdóttir, f. 7. apríl 1935; Jóna Bjarnveig Guðlaugsdóttir, f. 15. nóvember 1936; Una Anna Guðlaugsdóttir, f. 24. febrúar 1939; Kristín Brandís Guðlaugsdóttir, f. 10. nóvember 1940; Guðbrandur Karl Trausti Guðlaugsson, f. 23. desember 1941; Magnea Þorbjörg Guðlaugsdóttir, f. 16. nóvember 1945; Guðrún Marta Guðríður Guðlaugsdóttir, f. 11. desember 1947.

Fanney giftist Sveini Heiðberg Aðalsteinssyni 7. september 1964. Börn þeirra eru: 1) Aðalsteinn Guðlaugur, f. 17. mars 1963, börn hans eru a) Anna Guðný Scheving, f. 12. mars 1991, gift Einari Má Eggertssyni, f. 21. desember 1987. b) Guðrún María, f. 6. ágúst 1996. c) Hafliði Hallur, f. 28. janúar 1998. 2) Hreinn Smári, f. 13. mars 1964, maki er Guðmunda Valdís Helgadóttir, f. 6. júlí 1973. Börn þeirra eru a) Heiðberg Leó, f. 3. júní 1996, og á hann einn son, Kristófer Blæ, f. 31. júlí 2020. b) Sesar Logi, f. 18. desember 2001. Einnig á Hreinn son frá fyrra sambandi, Einar Þór, f. 7. desember 1986, og á hann einn son, Guðjón Óskar, f. 26. júní 2015. 3) Drengur Sveinsson, f. 23. mars 1965, d. 25. mars 1965. 4) Lilja Rós, f. 27. júlí 1973, maki er Reynir Vikar, f. 10. júlí 1968. Börn þeirra eru a) Sveinn Helgi, f. 25. maí 1997, giftur Anítu Hrund Vilhjálmsdóttur Bernhöft, f. 2. desember 1999. Börn þeirra eru Ásthildur Lilja, f. 9. desember 2018, og Hilmar Andri, f. 16. júní 2022. b) Sindri Þór, f. 16. apríl 1999. c) Sævar Ingi, f. 7. janúar 2001. d) Heiðar Máni, f. 20. apríl 2010.

Fanney fæddist á Veiðileysu á Ströndum við erfið skilyrði og þótti kraftaverki líkast að hún skyldi lifa veturinn af en þar kom inn hin vestfirska þrjóska og þrautseigja sem síðan átti eftir að einkenna líf hennar og persónuleika. Fanney kynntist Sveini þegar hann flytur til Reykjavíkur árið 1960. Hún byrjaði ung að vinna í fiskvinnslu og hárgreiðsludeild Iðnskólans og vann síðar sem ræstitæknir hjá meðal annars Oddfellow, iðnaðarráðuneytinu og Öskjuhlíðarskóla. Fanney var einnig stofnandi Handprjónasambands Íslands og prjónaði hún fram til síðasta dags.

Útför Fanneyjar fer fram frá Guðríðarkirkju í dag, 28. júní 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku yndislega og lífsglaða Fanney er farin í Sumarlandið. Lífið verður ekki eins án þín því þú varst svo stór hluti af lífi mínu og margra annarra. Ég kallaði stundum heimili þitt félagsmiðstöðina. Fólk sóttist í að vera í kringum þig þar sem nærvera þín var svo hlý og falleg. Ávallt var stutt í brosið og dillandi hlátur þinn. Guð einn veit hversu margar könnur af kaffi voru drukknar á þínu heimili, hvað þá allir þeir bollar sem var hvolft. Fanney vissi meira en margur og þurfti ekki alltaf spil né bolla til. Fanney elskaði föt, skó, veski, skartgripi og snyrtivörur. Hún var svakaleg skvísa og fannst fátt skemmtilegra en að klæða sig upp áður en hún fór út. Ég held að engin viti hversu mörg naglalökk Fanney átti, hvað þá föt en þeim verður komið fyrir á góðum stað. Ég held ég hafi aldrei hitt manneskju sem var eins lífsglöð og Fanney. Henni féll aldrei verk úr hendi og hvert sem hún fór voru prjónarnir með í för. Hún skilur eftir sig ógrynni af lopapeysum sem fólk klæðist um allan heim. Fanney var virk með eindæmum og gaf sér varla tíma til að sofa. Flesta daga vikunnar fór Fanney að spila, svo þurfti að skila af sér peysum, kíkja í búðir, fara í lagningu og fleira og fleira. Hún mátti sko engan tíma missa því að það var svo margt skemmtilegt að gera.

Elsku yndislega Fanney, ég veit að Sveinn hefur tekið vel á móti þér í Sumarlandinu. Hafðu þökk fyrir allt og allt, ég mun sakna þín mikið. Mér fannst við hæfi að láta fylgja með ljóðið Blómagarður eftir Davíð Stefánsson en þar sé ég þau hjón fyrir mér ganga um hönd í hönd.

Elsku hjartans Lilja vinkona, Alli, Smári og fjölskyldur, megi góður Guð gefa ykkur styrk í sorg ykkar, skarðið er stórt og verður aldrei fyllt.

Gekk ég þar um garða

sem gróðrarilminn lagði

frá mold og bjarkarblöðum

og blómum ótal landa.

Þá var drottins dagur

og dásamlegt að anda.

x

Aldrei sá ég áður

jafn yndislega vini

og draumsins ungu dætur

og dagsins björtu syni.

Þar brostu þau í blænum,

í blænum silkimjúka.

Það fer allt að anga,

sem englavængir strjúka.

x

Þau nutu sömu sólar,

og sama höndin hlúði

öllum þessum ættum

og öllu þessu skrúði.

Mót röðli risu krónur,

en rætur uxu niður,

og milli blómabeða

var bræðralag og friður.

x

En hver, sem garðinn gistir,

mun geta séð þess merki,

að víst er meiri máttur

en mennskur þar að verki.

Á andartaki eygjum

við eitthvað stórt og mikið

í gegnum blómablikið.

Frá sannleikanum sjálfum

mun síðar aldrei vikið.

x

Svo gakk þú inn í garðinn

og gef þér til þess næði

að nema fögur fræði

og fagna nýju kvæði,

sem andar lífs og ljósa

í leir og moldir skrifa:

x

Ef fegurð nýtur friðar,

er fögnuður að lifa.

(Davíð Stefánsson frá Fagraskógi)

Kveðja,

Sylvía Erna.