Björn Guðbrandsson fæddist á Broddanesi í Kollafirði í Strandasýslu 11. júlí 1930. Hann lést á Landspítalanum Fossvogi 12. júní 2024.

Foreldrar hans voru Ingunn Þorsteinsdóttir, f. 1897, d. 1998, og Guðbrandur, f. 1887, d. 1979. Systkini Björns eru: Sigrún, f. 1904, d. 1981; Matthildur, f. 1921, d. 2008; Sigurbjörg, f. 1923, d. 1984; Sigurður, f. 1927, d. 1928; Ingunn Sigurrós, f. 1928, d. 2019; Þorsteinn Helgi, f. 1931; Benedikt, f. 1933; Sigurður, f. 1934; Sigríður, f. 1936, d. 2017.

Sambýliskona Björns frá 1958-1977 er Gréta Hanna Guðmundsdóttir, f. 1932. Börn þeirra eru: 1) Helga Margrét, f. 1959. Dætur hennar eru Hrafnhildur Ósk, f. 1975, og Margrét Helga, f. 1999. Hrafnhildur Ósk á Arnar Frey, f. 2007. 2) Ingunn Stella, f. 1961, maki hennar var Valdemar Sveinsson matreiðslumaður, f. 1963, d. 2007. Börn Ingunnar eru Íris Björk, f. 1978. Dætur hennar eru Aldís Dröfn, f. 2004, og Thelma Sól, f. 2012. Jóhanna Eirika, f. 1980, maki Rakel Logadóttir. Hennar börn eru Lilja Karen, f. 1998. Synir Lilju Karenar eru Kristófer, f. 2020, og Kormákur, f. 2023. Darri Freyr, f. 2006, og Eyþór Örn, f. 2009. Elísabet Heiða, f. 1998, maki Vilberg Sigurjónsson og eiga þau dótturina Stellu Maríu, f. 2023. Fyrir á Vilberg dótturina Söru Máneyju. Sveinn Hólm, f. 1998, maki Heiða Ýr Lund og eiga þau börnin Mikael Valdemar, f. 2020, og Emblu Rós f. 2022. 3) Guðmundur Broddi, f. 1966, maki Björg Guðmundsdóttir, f. 1962. Börn Guðmundar eru Ástþór, f. 1991, og Gréta María, f. 2001.

Björn var í sambúð með Fjólu Salóme Guðmundsdóttur, f. 1929, frá 1977 fram á síðasta dag. Börn Fjólu eru: 1) Reynir Gunnarsson, f. 1949, d. 2019, maki hans var Sigríður Sigurjónsdóttir, f. 1949, og átti hann börnin Jónu Valdísi, f. 1975, Þóru Dögg, f. 1979, og Sigurjón Arnar, f. 1981. 2) Heiðrún Þóra Gunnardóttir, f. 1954, maki hennar var Ólafur Sigurgeirsson, f. 1948, d. 2006. Börn þeirra eru Elín Hrönn, f. 1976, Þór, f. 1981, og Grettir, f. 1989. 3) Ragnheiður Gísladóttir, f. 1956, maki Eggert Björnsson, f. 1954. Börn þeirra eru Fjóla, f. 1976, Lilja Sif, f. 1980, og Jóhanna Huld, f. 1986.

Björn ólst upp í stórum systkinahópi á Broddanesi fram til tvítugs en flutti þá til Reykjavíkur. Þegar til Reykjavíkur var komið vann hann ýmis störf, má þá nefna við vegavinnu, í fiski en lengst af ævinnar við húsasmíðar. Björn kláraði sveinsprófið í Iðnskólanum árið 1962 og útskrifaðist sem húsasmíðameistari 973. Björn vann við húsasmíði meira og minna fram til ársins 2004.

Björn var rólegur, með góða og þægilega nærveru, iðinn og afar hjálpsamur þegar kom að því að leggja fólki lið við alls konar framkvæmdir. Hann kunni að meta góðar bækur og var alltaf tilbúinn að spjalla um pólitík.

Björn og Fjóla voru miklar félagsverur sem nutu samvista við aðra. Þau ferðuðust bæði hérlendis og erlendis eftir að þau hættu að vinna. Þau voru öflug í starfi eldri borgara í Kópavogi, bæði sem þátttakendur og í að skipuleggja starfið. Þau náðu góðum árangri í gömlu dönsunum og var augljóst að það gaf þeim mjög mikið.

Útför Björns fer fram í Kópavogskirkju í dag, 28. júní 2024, klukkan 13.

Elsku pabbi.

Nú ertu farinn frá okkur, ég var ekki undirbúin fyrir það og söknuðurinn er svo sár. Ég er þakklát fyrir allar þær dýrmætu minningar sem við eigum, þegar þú kenndir mér að hjóla, berjaferðirnar á haustin, eyddum góðum tíma að grilla saman og margt fleira. Þú ert mér svo góð fyrirmynd. Öll smíðavinna lék í höndum þér, vandvirkur og öllu sem þú tókst þér fyrir hendur vildirðu skila vel af þér. Alltaf flottastur á dansgólfinu með Fjólu þinni. Það var dásamlegt að fylgjast með því hvað þið voruð dugleg að dansa og voruð virk í félagsstarfi eldri borgara. Lestur, ættfræði og pólitík voru líka þín áhugamál ásamt mörgu öðru. Það var alltaf svo gott að koma til ykkar, þið voruð svo gestrisin og áttum alltaf gott spjall um heima og geima.

Nú ertu kominn í sumarlandið til ömmu, afa og systra þinna.

Við kveðjustund er margs að minnast, ég er þakklát fyrir allar okkar góðu stundir saman.

Elsku pabbi, orð fá því ekki lýst hversu sárt þín verður saknað.

Umhyggju og ástúð þína

okkur veitir hverja stund.

Ætíð gastu öðrum gefið

yl frá þinni hlýju lund.

Gáfur prýddu fagurt hjarta,

gleðin bjó í hreinni sál.

Í orði og verki að vera sannur

var þitt dýpsta hjartans mál.

​​(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Þín dóttir,

Stella.