Á Boðnarmiði skrifar Magnús Halldórsson um netárás á Moggann …

Á Boðnarmiði skrifar Magnús Halldórsson um netárás á Moggann: Gögnin gætu ratað til rússnesku leyniþjónustunnar.

Árás þessa allir skilja,
yfir vofa bólstraský.
Því gramsa Pútín virðist vilja,
Vísnahorni Blöndals í.

Þórhallur Ingason skrifar: Kunningi minn Jóhann Skírnisson er að ljúka glæstum starfsferli í innanlandsfluginu. Í tilefni þess sendi ég honum hugrenningar „síðasta“ farþegans.

Síðasta ferð til Akureyrar.

Mótora þandi svo magnaðist kliður
maskínan þaut eins og flaug út í geim.
En svo breyttist stefnan í norður og niður
við náum því líklega heim.

Hafsteinn Reykjalín Jóhannesson yrkir um Elliglöp og það er eins og maður hitti sjálfan sig fyrir:

Elliglöp við ekkert réð,
alltaf þrengdist safnið.
Margoft hafði manninn séð,
man þó ekki nafnið.

Portúgal tvö núll undir gegn Georgíu! Jón Atli Játvarðarson yrkir:

Heimsveldi berst nú við bolta,
bitna saman með skolta,
dómarinn metur
hvað dasað lið getur,
hvort í þeim sé mör eða molta.

Til að hafa það eitthvað, segir Ólafur Stefánsson:

Þegar Stefáni runnin var reiðin,
og rudd skyldi Snæflákaheiðin,
sagð'ann: „blota ég bíð,
í Bláskógahlíð.
þá sjatnar af sjálfu sér leiðin“.

Í sveitinni eftir Davíð Hjálmar Haraldsson:

Oftsinnis utan við garð
Arnljótur tröllkonur sarð.
Aðspurður hví
hann útskýrði „því
skessurnar vildu, ég varð.“

Limra eftir Kristján Karlsson:

„Ég legg,“ mælti Gróa á Leiti
„mitt lostfagra höfuð í bleyti.
Þótt ég anni ekki kvöðum
frá útvarpi og blöðum,
þér ann ég með fyrirheiti.“

Þórður Mar Þorsteinsson yrkir við danskan bjór; Faxe stout:

Faxi ber mig víða vegu,
vitund skerpir andann nærir.
Glópsku læknar geði tregu,
gleðiríka hugsun færir.

Sigurður Breiðfjörð kvað:

Gefðu ekki um, þó ögnin smá
í auga tolli mínu;
ber þig heldur burt að ná
bjálkanum úr þínu.

Nathan Ketilsson kvað:

Það er feil á þinni mey,
þundur ála bála,
að hún heila hefur ei
hurð fyrir mála skála.

Sigluvíkur-Sveinn orti um sjálfan sig:

Ég er mæddur, báli bræddur,
blárri klæddur skyrtu líns,
kaffibelgur, ólánselgur,
einnig svelgur brennivíns.

Öfugmælavísan:

Grjótið er hent í góða löð,
úr glerinu nagla smíða,
í hörðum strengjum helst eru vöð,
hundi er skást að ríða.

Halldór Blöndal (halldorblondal@simnet.is)