Arngrímur og Jóna „Okkur finnst frábært að sýna þetta verk á heimaslóðum loftbelgsins frá stríðsárunum sem innsetning okkar vísar til.“
Arngrímur og Jóna „Okkur finnst frábært að sýna þetta verk á heimaslóðum loftbelgsins frá stríðsárunum sem innsetning okkar vísar til.“
„Við höfðum velt fyrir okkur að sýna verkið á Skeiðarársandi, en okkur finnst mjög gaman að fá tækifæri til að sýna það á Höfn, og Nr.5 Umhverfing er sannarlega fullkominn vettvangur og listafólkið sem tekur þátt tengist flest svæðinu, rétt eins og við.“

Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is

„Við höfðum velt fyrir okkur að sýna verkið á Skeiðarársandi, en okkur finnst mjög gaman að fá tækifæri til að sýna það á Höfn, og Nr.5 Umhverfing er sannarlega fullkominn vettvangur og listafólkið sem tekur þátt tengist flest svæðinu, rétt eins og við,“ segja þau Arngrímur Borgþórsson myndlistarmaður og Jóna Berglind Stefánsdóttir textílhönnuður, en innsetning þeirra „Strandaglópur“, opnar í dag í Skreiðarskemmunni á Höfn í Hornafirði. Innsetningin er hluti af sýningunni Umhverfing nr.5 á Hornafirði, en þar eru sýnd listaverk eftir 49 listamenn á svæði sem nær yfir rúmlega 210 kílómetra, eða suðausturhorn Íslands frá Lómagnúpi að Eystrahorni.

Innsetning þeirra Arngríms og Jónu er þó nokkuð fyrirferðarmikið verk, þrír sinnum þrír metrar að stærð. Það er einhvers konar blanda af loftbelg og risa regngalla, og verkinu er bæði haus og fætur.

,,Okkur finnst frábært að sýna þetta verk á heimaslóðum þess loftbelgs sem innsetning okkar vísar til, en á stríðsárunum hrapaði loftbelgur í Öræfum sem var loftvarnabelgur eða barrage balloon, en þeir voru ómannaðir og látnir svífa yfir hernaðarmannvirkjum, skipum og öðrum farartækjum. Úr loftbelgjunum löfðu langir vírar sem komu í veg fyrir að flugvélar óvina gætu steypt sér yfir skotmörk til að varpa á þau sprengjum. Þessar frumstæðu loftvarnir voru algengar í heimsstyrjöldinni og sennilega hefur sá loftbelgur sem hrapaði í Öræfunum tapast frá skipi og borist með vindum. Heimamenn fundu belginn þar sem hann hafði hrapað á fjalli, en belgurinn var úr ál- og gúmmíhúðuðum striga, sem er algerlega vatns- og lofthelt efni. Slíkt efni var dýrmæti á þessum tíma og þetta var fyrsta fullkomlega vatnshelda efnið sem vitað er um í Skaftafellssýslu. Þetta hefur því verið himnasending, í orðsins fyllstu merkingu. Loftbelgnum var skipt bróðurlega upp á milli bæja og úr honum voru saumaðir regngallar. Í mörg ár á eftir var sagt að hægt væri að þekkja Skaftfellinga úr fjarlægð á því að þeir væru silfurlitaðir þegar rigndi, því regnklæði þeirra voru úr þessu efni. Við leikum okkur með þessa sögu í innsetningunni okkar og þótt við notumst ekki við raunverulegt efni úr loftbelg, þá notum við silfurlitað og vatnshelt efni, til að hafa skírskotun í loftbelgsefnið í þessari frábæru sögu úr raunveruleika stríðsáranna hér á landi.“

Hræddur skiptinemi

Jóna segir að hún og Arngrímur hafi ekki þekkst mikið áður en til samstarfsins kom, en þegar hann leitaði til hennar og sagði henni þessa skemmtilegu loftbelgssögu, og spurði hvort hún væri til í að gera verk með honum innblásið af henni, var hún strax til í það.

Arngrímur segir þetta allt eiga upphaf sitt í því að fyrir 12 árum hafi hann verið staddur í sumarbústað fjölskyldu sinnar í Lóni, utan við Höfn.

,,Ég var að lesa þar í gömlum blöðum frá svæðinu og fann gamansögu um enskan skiptinema sem var að vinna á einhverjum sveitabænum og hafi sofnað út frá því að lesa vísindaskáldsöguna um innrásina frá Mars, eftir HG Wells. Á meðan hann svaf byrjaði að rigna og þegar hann vaknaði og leit út um gluggann, þá var hlíðin full af silfurlituðum verum. Við það fylltist hann eðlilega ótta, en lauslega var sagt frá loftbelgnum sem hrapaði og regngöllunum sem heimamenn gerðu sér úr efninu. Þetta var það fyrsta sem ég las um þennan loftbelg, og út frá því kviknaði áhugi minn. Mér fannst þetta mjög spennandi og ég fór að spyrjast fyrir, en fáir könnuðust við þetta. Á þessum tíma var ég að vinna í Vatnajökulsþjóðgarði með náunga sem hafði alist upp hjá afa sínum og ömmu í sveitinni, og háöldruð amma hans sem var enn á lífi, hún hafði átt regnkápu sem saumuð var úr þessum loftbelg. Þarna fékk ég staðfestingu á að þetta hefði raunverulega gerst, en væri ekki skálduð gamansaga. Pabbi minn fékk mikinn áhuga á þessu líka og lagðist í rannsóknarvinnu fyrir okkur. Nú vitum við til dæmis af fjórum loftbelgjum sem hafa hrapað, en efninu var ekki alltaf skipt á milli fólks. Einhverju sinni fann pósturinn loftbelg sem hafði hrapað og hirti hann sjálfur, bjó til úr efninu regngalla og nestispoka fyrir sig, hvort tveggja kærkomið á þessum tíma á löngum ferðum um landið.“

Jóna bætir við að þegar þau voru að setja verkið upp á Höfn, hafi þau fengið að fara í geymslu byggðasafnsins og fundu þar í báti regnjakka og buxur sem gerð voru úr upprunalega loftbelgnum.

„Við höfðum ekki hugmynd um að til væru upprunaleg eintök, og við fundum auk þess efni úr loftbelgnum sem ekki var búið að skera. Þetta var mikil upplifun fyrir okkur að sjá og þreifa á, því þegar við lögðum af stað í þessa vinnu þá var það eina sem við vorum með í höndunum gömul mynd sem pabbi Arngríms hafði fundið frá skemmtun á Höfn. Myndin er af skemmtiatriði, tískusýningu þar sem meðal annars má sjá kjól sem gerður var úr þessu loftbelgs efni.“

Sigldi með efnið í Norrænu

Jóna og Arngrímur búa bæði í Malmö í Svíþjóð, þar sem þau starfa að sinni list, en auk þess tekur Arngrímur þátt í að reka þar gallerí. Hann hefur búið í Malmö í tíu ár en bjó þar á undan í tvö ár í Umeå, en Jóna hefur búið í fimm ár í Malmö og tvö ár í Borås, þar sem hún var í meistaranámi í textílhönnun. Bæði tengjast þau svæðinu þar sem þau settu upp verkið sitt í Skreiðarskemmunni á Höfn.

„Ég er fædd og uppalin á Höfn en hvorugt foreldra minna eru þó þaðan, þau kynntust þar á vertíð og enduðu svo á að búa þar,“ segir Jóna og Arngrímur bætir við að pabbi hans sé frá Höfn og hafi unnið í kaupfélaginu í Skaftafelli í mörg sumur.

„Þegar ég var krakki var ég alltaf með honum þar og þegar ég hafði aldur til fór ég að vinna í kaupfélaginu. Seinna vann ég í fjögur sumur fyrir Vatnajökulsþjóðgarð, og afi og amma bjuggu líka á Höfn.“

Þau segja það ekki hafa verið létt verk að endurskapa loftbelginn og koma honum fyrir í skemmunni, en nú sé hann loks kominn upp og allt til reiðu fyrir gesti sýningarinnar.

„Þetta er mjög fyrirferðarmikið efni og þegar ég var að sauma það úti í Malmö, þá var fjörutíu fermetra íbúðin mín undirlögð af þessi silfurlitaða efni. Við höfðum ekki pláss til að prufukeyra verkið úti í Svíþjóð, en Arngrímur tók verkið með sér til Íslands í stórri ferðatösku,“ segir Jóna og Arngrímur bætir við að hann hafi siglt með Norrænu frá Svíþjóð, með efnið í loftbelginn í stórri ferðatösku.

„Vissulega var þó nokkuð maus að flytja svona stórt verk á milli landa, en við notum tjaldstangir úr trefjagleri til að spenna belginn upp og getum því tekið verkið niður til flutnings á frekar einfaldan hátt, sem kemur sér vel, því við munum sýna verkið aftur í Gautaborg í nóvember.“

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdótir