Handbært fé frá rekstri A1-hluta ríkissjóðs
Handbært fé frá rekstri A1-hluta ríkissjóðs
Minnkandi aðhald ríkisfjármála í fjármálaáætlun gæti þvælst fyrir peningastefnunefnd við vaxtaákvörðun

Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2025 og 2029 sem kynnt var í apríl þykir ekki trúverðug og sérfræðingar á markaði segja tilefni til þess að hafa áhyggjur. Acro verðbréf segja í greiningu að “bókhaldsbrellur” fegri stöðuna í áætlun ríkisstjórnarinnar, aðhald sem heildarafkoma og frumjöfnuður ber með sér minnkar þvert á móti milli ára og sú staðreynd gæti þvælst fyrir peningastefnunefnd á komandi vaxtaákvörðunarfundum.

Fjármálaráð gagnrýndi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar harðlega í álitsgerð sinni fyrir nokkru. Í álitsgerðinni er meðal annars bent á að útgjaldavöxtur hafi verið ósjálfbær, óútfært aðhald í áætluninni dragi úr trúverðugleika, gagnsæi sé ábótavant í tengslum við óútfærðar áætlanir um sölu eigna og sú tilhneiging að fjármagna verkefni í formi eiginfjárframlaga, sem ekki sjást á gjaldahlið nema að takmörkuðu leyti, dragi úr gagnsæi áætlana.

Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir halla á rekstri ríkissjóðs til ársins 2028 þegar gert er ráð fyrir að afkoma verði jákvæð með naumindum. Árið 2029 verði afkoma jákvæð um 20 milljarða. Lítil breyting er á afkomu og frumjöfnuði frá fyrri áætlun en fjármálaráð bendir á að þróun lánsfjárþarfar, frumjafnaðar á greiðslugrunni - frekar en rekstrargrunni – og breyting handbærs fjár frá rekstri gefi skýrari mynd af aðhaldi ríkisfjármála. Ljóst er að aðhald ríkisfjármála minnkar milli ára og verður lítið á næstu árum. Þá versnar lánsfjárjöfnuður næstu árin mikið milli ára sem og staða handbærs fjár frá rekstri.

Bókhaldsbrellur í fjármálaáætlun

Ástæður þessa eru meðal annars nýjar aðferðir við afskriftir skattkrafna sem valda því að hreinar tekjur ríkissjóðs aukast um 18-20 milljarða á ári og bæta afkomu og frumjöfnuð um sömu upphæð. Þetta er þó aðeins bókhaldsfærsla sem hefur engin áhrif á handbært fé frá rekstri. Í greiningu sem Acro verðbréf birtu í síðasta mánuði og ViðskiptaMogginn hefur undir höndum er vísað til “bókhaldsbrellna” í þessu samhengi og bent á aðra slíka sem fjármálaráð vekur athygli á, það er að opinber verkefni séu í vaxandi mæli flutt í einingar utan A1-hluta ríkissjóðs og veitt eiginfjárframlög og endurlán sem ekki koma fram í heildarafkomu en auka engu að síður lánsfjárþörf ríkissjóðs. “Er Því freisting til að fjármagna verkefnin utan A1-hluta til að standast skilyrði fjármálareglna um afkomu,” segir í áliti ráðsins.

“Gera okkur ekki bjartsýn”

Í niðurlagi greiningar Acro segir að töluvert minna aðhalds sé gætt í ríkisrekstri en talið var í fyrstu. Telur Acro að þetta muni þvælast fyrir peningastefnunefnd Seðlabankans á komandi vaxtaákvörðunarfundum.

Í því samhengi er bent á að hið minnkandi aðhald stangist á við orð Seðlabankans í nýjasta riti Peningamála, sem kom út í maí, en þar talar bankinn um aukið aðhald í ríkisrekstri en þar segir meðal annars: “Líkt og í nóvemberspá bankans er talið að frumjöfnuður ríkissjóðs verði áfram jákvæður í ár þar sem frumtekjur aukast í hlutfalli við landsframleiðslu á sama tíma og verulega dregur úr spennu í þjóðarbúinu. Þrátt fyrir aukningu útgjalda ríkissjóðs á árinu [...] veldur samspil tekjuaukningar og framleiðsluspennu því að aðhald er talið aukast í ár um sem nemur um 2% af landsframleiðslu sem er meira en áætlað var í nóvemberspá bankans. Á næsta ári er áætlað að aðhaldsstig ríkisfjármála aukist um 0,5% til viðbótar áður en það verður svo til hlutlaust árið 2026.”

“Horfur fyrir framhaldið gera okkur ekki bjartsýn” segir aukinheldur í greiningu Acro.

Höf.: Andrea Sigurðardóttir er blaðamaður á ViðskiptaMogganum og hefur mikið fjallað um viðskipti, athafnalíf og stjórnsýslu.