Vestrænir réttir eru í boði fyrir þá sem þess óska en taílensku
réttirnir eru það sem málið snýst um.
Vestrænir réttir eru í boði fyrir þá sem þess óska en taílensku réttirnir eru það sem málið snýst um.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég er ekki frá því að Asíubaktería sé smám saman að breiðast út á meðal íslenskra ferðalanga, enn eina ferðina. Lesendur muna eflaust að það er ekki svo langt síðan samfélagsmiðlar fylltust af myndum af íslenskum tásum á Balí og Taílandi, allt þar til það komst í tísku hjá landanum að gera strandhögg á Tenerife.

Þegar allir voru búnir að fara fjórum sinnum til Tene virtist mér að mætti greina stuttan Yucatan-kipp og nú er eins og straumurinn liggi til Japans og nærsveita. Spái ég því að á komandi misserum verði bæði Facebook og Smartlandið full af frásögnum lukkulegra Íslendinga á flandri um Srí Lanka, Víetnam, Japan, og Taíland.

Eigi lesendur erindi til Asíu er ekki ólíklegt að þeir staldri við í Taílandi, og ef þeir koma til Taílands þá er nær öruggt að þeir muni verja nokkrum dögum í Bangkok, og þá er eins gott að þeir viti hvar finna má góðan mat. Er því ógalið að ég segi lesendum frá mínum uppáhalds taílenska veitingastað, mitt í mesta gleðihverfi mestu gleðiborgar Asíu.

Samfélag sem iðar af lífi

Áður en lengra er haldið er samt vissara að fjalla stuttlega um hvers konar borg Bangkok er, því margir Íslendingar virðast hafa kolranga mynd af borginni. Bangkok er vissulega villt og gröð borg – það er hreinlega ekki hægt að neita því – en taílenska höfuðborgin er líka ein af örfáum réttnefndum heimsborgum þar sem allt er í boði og allt er að gerast. Hagkerfið er á fleygiferð og til Bangkok streymir núna ungt hæfileikafólk af öllum þjóðernum, í leit að áhugaverðum viðskiptatækifærum og almennilegum lífsgæðum, enda ekki dýrt að búa í taílensku höfuðborginni og samt hægt að finna þar allt sem hugurinn girnist.

Mig grunar að Bangkok sé einmitt núna að ganga í gegnum kafla sem fólk muni í framtíðinni minnast sem gullaldartímabils. Það eimir enn eftir af þessu villta og framandi sem lífgar upp á hversdaginn, en þjóðfélagið er samt orðið nútímavætt og alþjóðlegt. Eftir einn mannsaldur í viðbót verður Bangkok kannski orðin jafnþurr og steríl og Genf eða Singapúr, en í dag er borgin í blóma og kallar til sín alla þá sem kunna að meta hið ljúfa líf.

Eitt það besta við Bangkok er matarmenningin og er það lýsandi fyrir þá matarupplifun sem bíður íslenskra ferðamanna að Michelin mælir með hvorki fleiri né færri en 170 veitingastöðum þar í borg. Þar af eru sjö sem hafa fengið tvær stjörnur, 26 sem hafa fengið eina stjörnu og 53 sem hlotið hafa „bib gourmand”-stimpilinn. Ólíkt mörgum öðrum stórborgum í leiðarvísi Michelin er líka yfirleitt ekki sérlega snúið að panta borð hjá stjörnustöðunum og það þykir dýrt ef borga þarf meira en 20.000 kr. á mann fyrir veglegan smakk-matseðil með vínpörun.

Minn uppáhaldsveitingastaður í Bangkok er þó ekki með Michelin-stjörnu – a.m.k. ekki enn – og máltíðin er heldur ekki dýr. Ráðlegg ég gestum í Bangkok að taka stefnuna á Silom-hverfið og leita þar uppi veitingastaðinn Fork & Cork. Þar stendur Nat Pengpit vaktina og hugsar vel um alla sem koma inn á staðinn.

Metnaður og ástríða

Nat er áhugaverður maður og skrafhreifinn, en hann gekk í skóla í Bretlandi og er einn af fáum Taílendingum sem tala enskuna með bráðskemmtilegum Oxford-hreim. Vilji fólk fræðast um taílenskt samfélag stendur ekki á Nat að setjast niður og spjalla, en hann lætur gesti sína líka í friði ef þeir vilja næði. Hann kæmist eflaust upp með að fjarstýra veitingastaðnum sínum en Nat er metnaðarfullur og alltaf á svæðinu, frá opnun til lokunar, og vakir yfir öllu svo að tryggja megi ánægjulega matarupplifun.

Uppistaðan í matseðlinum er hefðbundin og ákaflega vönduð taílensk matseld, en stundum er brugðið á leik með matarmenningararfinn og sígildir réttir settir í nýjan og ferskan búning. Hráefnið er fyrsta flokks, framsetningin vönduð og umhverfið rólegt, notalegt og snyrtilegt, og engin furða að það virðist vera reglan að þegar ferðalangar uppgötva Fork & Cork á annað borð þá reyna þeir að heimsækja staðinn reglulega áður en þeir þurfa að kveðja Bangkok.

Eini gallinn er kannski sá að matseðillinn á Fork & Cork er svo stór og fjölbreyttur að það getur verið erfitt fyrir óinnvígða að velja rétti á borðið. Ég hef þess vegna haft þann háttinn á að biðja Nat einfaldlega að panta fyrir mig og ljómar hann þá allur upp. Kosturinn við að leyfa Nat að ráða er líka að þannig aukast líkurnar á að ég uppgötvi eitthvað nýtt og spennandi og fari ögn út fyrir þægindarammann, frekar en að gúffa í mig pad thai enn eina ferðina.

Verðlagningin hjá Nat er í takt við sambærilega veitingastaði í borginni, og þurfa gestir að borða og drekka mikið ef reikningurinn á að fara yfir 5.000 kr. á mann, en einn réttur kostar í kringum þúsundkallinn og bjórinn eitthvert smáræði.

Hið ljúfa líf
Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is

Höf.: Ásgeir Ingvarsson