— Morgunblaðið/Anton Guðjónsson
Það var ævintýralegt að fylgjast með málflutningi Hafdísar Hrannar Hafsteinsdóttur þingkonu Framsóknarflokksins í Spursmálum Morgunblaðsins á föstudaginn var en hún og Arnar Sigurðsson eigandi Sante tókust á um áfengiskaupalög. Framsóknarmenn virðast nefnilega jöfnum höndum vilja takmarka aðgengi í nafni lýðheilsu og auka það í nafni byggðastefnu.

Til að byrja með var Hafdís Hrönn alveg skýr með það að hún vildi sjá áfengisumhverfið þróast innan ramma ÁTVR. Spurð hvort hún vildi að ÁTVR færi með einokunarsölu sagði hún: „Já, ég vil að við séum með ríkisfyrirtækið, áfengisverslun ríkisins [...] því að ég held að okkar hagsmunum varðandi forvarnir og lýðheilsu sé best borgið þar inni.”

Þegar Hafdís var spurð hvort ÁTVR væri ekki á hálum ís varðandi lýðheilsusjónarmið með opnun fjölgun verslana, helst nálægt matvöruverslunum, netverslun og auglýsingum á hraðri afgreiðslu í héraðsblöðum vítt og breitt um landið, var ekki annað að skilja en að Hafdís teldi ÁTVR neyðast til þess vegna samkeppni. „Hún á náttúrulega ekki að vera í samkeppni og á ekki að vera í markaðssetningu á áfengi, það er línan sem er innan míns flokks.”

Síðar í viðtalinu hvað við annan tón: „Mér finnst sjálfsagt að netverslun með áfengi verði lögleg að einhverju leyti, en samhliða því vil ég sjá stóreflingu á meðferðarúrræðum, geðheilbrigðiskerfinu okkar og hvernig ætlum við að grípa þá sem síðan missa fótanna í þessu aukna aðgengi,” sagði hún.

Í lokin kom svo í ljós um hvað málið snýst raunverulega, hvers vegna Framsókn vill að ÁTVR fari með sölu áfengis. „Fyr­ir mér snýst þetta líka um byggðamál. Við erum með fimm­tíu og eitt­hvað versl­an­ir og við erum að tryggja störf úti á landi. Aðgengistakmarkanir í nafni lýðheilsu mega sín lítils þegar kemur að því að tryggja störf á landsbyggðinni. ÁTVR er atvinnubótastefna undir rós í huga Framsóknar. Sjónarmið um að hið opinbera þurfi að annast rekstur vínverslunar á landinu til að takmarka aðgengi í nafni lýðheilsu standast enda enga skoðun. Vel er hægt að halda áfengissölu í sérverslunum áfram án þess að ríkið komi að rekstri þeirra.”