Fjarstæðukennt er að banna nýskráningar bensín- og díselbíla eftir fáein ár

Á dögunum kynnti ríkisstjórnin nýja aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Ekki færri en fjórir ráðherrar stóðu að kynningunni, þar með taldir bæði forsætisráðherra og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Fram kom að aðgerðir í loftslagsmálum væru nú 150 en ekki 50 eins og áður hefði verið og kortlagning og ítarlegt mat hefði farið fram umfram það sem áður hefði verið.

Áætlunin verður í samráðsgátt stjórnvalda fram í miðjan ágúst og verður fróðlegt að sjá hver viðbrögðin verða, en eitt hefur þó þegar vakið athygli og það snýr að bílum sem nota hefðbundna orkugjafa, bensín og dísel.

Í 150 liða áætluninni eru nokkrir liðir sem snúa að ökutækjum og eru þeir misjafnlega óraunsæir. Einn þeirra ber yfirskriftina „Útfösun bensín- og dísilbíla á Íslandi” og þar segir: „Í eldri aðgerðaáætlun var meginreglan sú að óheimilt yrði að nýskrá bensín- og díselbíla á Íslandi árið 2030 en í skoðun er að flýta þessari tímalínu um tvö ár og einnig er lagt til að útvíkka skráningarbannið þannig að það gildi einnig fyrir ökutæki sem nota blandaða orkugjafa (bæði hreinorkugjafa og jarðefnaeldsneyti).”

Þetta hefur vakið nokkra umræðu og hafa ýmsir skilið þetta þannig að ríkisstjórnin vilji flýta banni við nýskráningu bensín- og díselbíla um tvö ár, eða til 2028. Þá munu einhverjir líka skilja þetta svo að ætlunin sé að blendingsbílar, þeir sem ganga bæði fyrir rafmagni og jarðefnaeldsneyti, verði einnig bannaðir frá árinu 2028.

Líklega fyrirgefst þeim sem skilja textann á þennan hátt að gera það þar sem í aðgerðaáætluninni sem ríkisstjórnin kynnti svo myndarlega segir að „í skoðun” sé að flýta banninu og að það sé „lagt til” að útvíkka það svo það nái einnig til blendingsbíla.

En eftir að kynningin góða fór fram hefur umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra stigið fram og upplýst að það standi ekki til að flýta banninu, það hafi verið misskilningur. Verður það að teljast fagnaðarefni, en eftir stendur auðvitað spurningin um það hvers vegna ríkisstjórnin kynnti þá að það væri til skoðunar.

Mögulega er þá ekki heldur neitt að marka það sem segir í aðgerðaáætluninni um að víkka nýskráningarbannið út til blendingsbíla, en þar var þó fastar að orði kveðið og sagt að það væri „lagt til”, en út af fyrir sig er óljóst hver lagði það til eða hvort ríkisstjórnin telur þá tillögu frambærilega.

Allt er þetta heldur ruglingslegt, sem er afleitt við slíka stefnumörkun, en ekki er betra að þetta er algerlega óraunsætt, hvort sem verið er að tala um bann við nýskráningum árið 2028 eða 2030, eða hvort það bann eigi að gilda um bíla sem nota einungis jarðefnaeldsneyti eða blendingsbíla einnig.

Tölur um nýskráningar bíla í júní sýna að bensínbílar eru vinsælastir nýskráðra bíla hér á landi. 27,5% allra nýrra bíla eru bensínbílar og þeim hefur fjölgað um 42,5% á milli ára. Á móti hefur hreinum rafmagnsbílum fækkað um 76,4% og eru þeir nú óvinsælastir allra gerða orkugjafa, sem er mikil breyting frá því í fyrra, en þá nutu slík farartæki meiri stuðnings ríkisins er nú er, sem er það sem virðist þurfa til að örva sölu þeirra í samkeppninni við bíla sem nota jarðefnaeldsneyti að hluta eða öllu leyti.

Svipuð þróun hefur sést í Bandaríkjunum þar sem samdráttar er farið að gæta í sölu rafbíla í fyrsta sinn í nokkur ár, en engum dettur í hug að bensín- og díselbílar hverfi af götunum þar á næstu árum. Í Bretlandi er nú tekist á um hvort að banna skuli nýja dísel- og bensínbíla frá árinu 2030 eða 2035 og meðal ríkja Evrópusambandsins á slíkt bann að gilda frá árinu 2035.

Ekkert þessara ríkja er á sambærilegum stað hvað varðar nýtingu á hreinni orku og Ísland. Hér á landi er megnið af allri orku fengið úr fallvötnum og jarðhita, en erlendis er nánast alfarið byggt á jarðefnaeldsneyti. Ekkert ríki býr við hreinni orkunotkun en Ísland og fá ríki eru með jafn dreifða byggð og Ísland og þurfa þar með á því að halda að geta ekið bílum langar leiðir, ekki síst í kulda en rafgeymar missa afl við þær aðstæður.

Ísland hefur þegar náð miklu meiri árangri en aðrar þjóðir í nýtingu hreinnar orku og þarf ekki að reyna að ráðast í óraunsæjar aðgerðir til að ganga enn lengra. Litlar líkur eru á að hægt verði að hætta nýskráningum bensín- og díselbíla í ríkjum Evrópusambandsins eftir rúman áratug og fjarstæðukennt að það verði hægt hér á landi þar sem iðulega þarf að aka langan veg í misjafnri færð að vetri til. Miklar tækniframfarir þyrfti til að hægt væri að banna nýskráningu bensín- og díselbíla hér og þær framfarir eru ekki innan seilingar. Þangað til þær koma fram ættu stjórnvöld að stilla sig um að tímasetja markmið sem ekki er hægt að ná.