Jón Sturla Ásmundsson fæddist 17. júlí 1934. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Eir 27. júní 2024.

Foreldrar hans voru Ásmundur Sturlaugsson bóndi í Snartartungu í Bitrufirði, Strandasýslu, f. 5. ágúst 1896, d. 1. september 1980, og Svava Jónsdóttir húsfreyja í Snartartungu, f. 1. júlí, d. 23. febrúar 1996.

Systkini Sturlu eru Þórey, f. 1930, d. 1996, Sigurkarl, f. 1931, Ragnar, f. 1933, Snorri, f. og d. 1936, Hrefna, f. 1938, Snorri, f. 1942, og Pálmi, f. 1947, d. 2018.
Hinn 4. júní 1960 kvæntist Sturla Guðrúnu Ernu Narfadóttur sjúkraliða, f. 9. júní 1936, d. 26. júní 2018. Dætur þeirra eru: 1) Sigurlaug, f. 1959, hennar dætur eru Guðrún, f. 1992, d. 1992, Guðrún Ísafold, f. 1997, og Þórunn Hekla, f. 2000. Faðir þeirra er Hilmar Sigurðsson. 2) Svava, f. 1960, eiginmaður hennar er Egill Rafn Sigurgeirsson, börn þeirra eru Silja Björk, f. 1985, Lydía Dögg, f. 1988, og Atli Örn, f. 1990. 3) Erna Björk, f. 1967, eiginmaður hennar er Magnús Birgisson, börn þeirra eru Sturla Freyr, f. 1991, Birgir Bragi, f. 1997, og Heiðrún Dís, f. 1999. Langafabörnin eru átta.
Sturla bjó hjá foreldrum sínum og systkinum í Snartartungu. Grunnskólamenntunin fékkst í farskóla sem staðsettur var á Óspakseyri en síðan tóku við tvö ár í Reykjaskóla í Hrútafirði. Þeir bræður Sturla og Ragnar fluttu sig síðan um set og hófu nám í Héraðsskólanum á Skógum og voru þar í þrjú ár. Rafvirkjanám hóf Sturla í Iðnskólanum í Reykjavík og Vélskóla Íslands og lauk hann sveinsprófi 1958. Námssamningurinn var hjá Johan Rönning rafvirkjameistara og eftir útskrift starfaði Sturla hjá honum um tíma. Þá réð hann sig til Smith & Norland og vann þar til rúmlega sjötugs, lengst af sem deildarstjóri raflagna.
Sturla og Guðrún Erna tóku þátt í byggingu fjölbýlishúss í Stóragerði 24 í samvinnu við fleiri og bjuggu þar yfir 15 ár. Þar slitu dæturnar barnsskónum. Síðar byggðu þau hús með fallegum garði, tveimur íbúðum og bílskúr í Starrahólum. Um það leyti sem þau hættu að vinna keyptu þau íbúð á Kristnibraut 49 og byggðu sér sumarbústað í Helludal í Bláskógabyggð. Sturla bjó síðustu æviárin á Eir hjúkrunarheimili.
Útför hans fer fram í Guðríðarkirkju í dag, 4. júlí 2024, klukkan 15.

Hann Jón Sturla ruddist ekki áfram. Hann skellti ekki hurðum eða stappaði niður fótum. Hann fór ekki í gegnum lífið með hávaða eða látum. Hann var lágvaxinn og fór um hljóðlega, snöggur í hreyfingum og fótviss. Talaði lágum róm og hlustaði.
Það var allt í réttu magni hjá Sturlu. Hann borðaði uns hann var saddur og hætti þá. Hann stundaði íþróttir alla ævi. Ekki fyrir verðlaunasæti eða viðurkenningar heldur fyrir heilsuna. Hann spilaði badminton, synti og hjólaði fram á efri ár. Líklega jafn þungur 65 ára og hann var 25 ára.
Hann hefur eflaust aldrei velt fyrir sér hvaða tekjutíund hann tilheyrði eða misst svefn yfir því. Honum varð mikið úr því sem hann aflaði og skorti ekkert. Hann kom tvisvar þaki yfir fjölskylduna, fyrst og fremst með útsjónarsemi og eigin vinnu. Í seinna skiptið stórt einbýlishús í Breiðholtinu.
Sturla keypti einu sinni á ævinni nýjan bíl og gaf hann Guðrúnu, eiginkonu sinni. Sjálfur lét hann notaða bíla duga sér og hugsaði vel um þá. Hann var örlátur á tíma sinn og það mátti ekki biðja hann um greiða sem hann gæti sinnt „þegar hann nennti” því eins og hann sagði sjálfur þá er „latur ekki til í orðabókinni minni”.
Hann stundaði laxveiði í mörg ár en hætti því þegar hann missti veiðifélagann í umferðarslysi. Sjálfur gaf hann þá skýringu að veiðileyfi væru orðin svo dýr.
Hann hugsaði um Guðrúnu heima við eftir að hún var orðin langt leidd af alzheimer. Að lokum var orðið ljóst að Sturla var farinn að ganga á eigin heilsu með ósérhlífninni og henni var útvegað pláss á hjúkrunarheimili þar sem hún lést sex mánuðum seinna. Ekki löngu seinna var orðið ljóst að Sturla þyrfti á sambærilegri aðstoð að halda og var hann á hjúkrunarheimilinu Eir síðustu árin.
Og þá kemur í ljós að þeir uppskera sem leggja inn í lífsbankann. Það var varla sá sólarhringur að Sturla fengi ekki heimsókn á heimilið. Dæturnar, barnabörnin, ættingjar og vinir sem og bræðurnir í Frímúrarareglunni sýndu honum einstaka natni allan þennan tíma ekki síður en starfsfólkið á Eir.
Sturla kvaddi svo að lokum þetta líf eins og hann hafði lifað því, hljóðlega og í friði við guð og menn.

Magnús Birgisson.