Brjánn Árni Bjarnason fæddist í Reykjavík 8. júlí 1954. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 14. júní 2024.

Foreldrar hans voru hjónin Bjarni Jónsson verslunarskólakennari, f. 1927, d. 2014, og Hólmfríður Árnadóttir myndlistarmaður og prófessor, f. 1930, d. 2022. Bróðir Brjáns er Bolli Bjarnason, læknir, f. 1957, kvæntur Ellen Flosadóttur, tannlækni, f. 1967.
Brjánn var kvæntur Steinunni Gunnlaugsdóttur geðhjúkrunarfræðingi, f. 1959. Foreldrar hennar voru hjónin Gunnlaugur Jónsson kerfisfræðingur, f. 1928, d. 2013, og Bergþóra Jensen húsmóðir, f. 1927, d. 2013.
Dætur Brjáns og Steinunnar eru: 1) Unnur Hólmfríður lögfræðingur, f. 1990. Sonur hennar er Baldur Snorri Hafsteinsson, f. 2014. Unnur er í sambúð með Gauta Þormóðssyni verktaka, f. 1987. Dóttir þeirra er Kolfinna, f. 2022. 2) Elva Bergþóra talmeinafræðingur, f. 1992, í sambúð með Degi Hilmarssyni rafiðnfræðingi, f. 1986. Dóttir þeirra er Harpa Steinunn, f. 2023.
Brjánn ólst upp í Vesturbæ Reykjavíkur og gekk í Mela- og Hagaskóla. Hann útskrifaðist með stúdentspróf frá Verzlunarskóla Íslands vorið 1975 og lauk cand. med. prófi frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1984. Brjánn fékk sérfræðileyfi í geðlækningum árið 1992. Hann sótti framhaldsnám í geðlækningum við Strong Memorial Hospital í Rochester í New York fylki Bandaríkjanna árið 1995.
Brjánn starfaði sem kandidat og aðstoðarlæknir á ýmsum deildum Borgarspítalans og Landspítalans og síðan sem sérnámslæknir á geðdeildum og taugalækningadeild Landspítalans. Brjánn var sérfræðingur í geðlækningum, bæði á Landspítalanum við Hringbraut og á Kleppi, um árabil. Hann rak einnig eigin lækningastofu á árunum 1993 til 2012. Frá þeim tíma og fram að starfslokum árið 2021 starfaði hann á Reykjalundi, fyrst sem sérfræðilæknir en síðar sem yfirlæknir geðsviðs.
Brjánn var lengi stundakennari við læknadeild Háskóla Íslands og sat í stjórn Geðlæknafélags Íslands um tíma.
Útför Brjáns verður frá Fossvogskirkju í dag, 4. júlí 2024, klukkan 13.

Mann setur hljóðan. Hjartað er brotið og raunveruleikinn þyrmir yfir mig á hverjum degi vitandi að þú sért nú fallinn frá. Það er sárt að sjá á eftir þér, ástkæri bróðir, svona snemma og svona hratt. Stórt skarð hefur verið höggvið í fjölskyldu okkar á svo margan hátt með fráfalli þínu. Á kveðjustundu er mér efst í huga þakklæti fyrir allar þær ánægjulegu samverustundir sem við áttum.
Brjánn og Steinunn voru einstaklega samrýnd hjón umlukt ást og umhyggju gagnvart hvort öðru. Ást þeirra og væntumþykja gagnvart dætrum sínum, Unni og Elvu, sambýlismönnum þeirra og barnabörnum duldist engum.
Gildi þín í lífinu voru áreiðanleiki, trúnaður og hreinskilni. Þú varst maður sem hægt var að leita til í trúnaði með hvaða vandamál sem var. Þú varst maður heiðarleika og kærleika en ekki síst réttlætis og sanngirni. Þú máttir aldrei vita af neinu aumu, varst þá strax kominn til hjálpar, ekki síst við læknisstörf þín.
Við vorum einkabræður og ólumst upp í Vesturbæ Reykjavíkur hjá ástkærum foreldrum okkar. Á Verzlunarskólaárunum fluttum við fjölskyldan í Hvassaleiti þar sem við stunduðum síðar að hluta til lestur í læknanámi okkar. Það voru forréttindi mín að eiga þig að, svona umhyggjusaman, hlýlegan og ástkæran sem þú alltaf varst. Þú passaðir svo sannarlega vel upp á litla bróður alla tíð.
Þú varst mikill dýravinur og áttum við kisu um það leyti sem þú, nokkurra vetra, heimsóttir ömmu þína í Granaskjól. Hún átti þá við minni háttar veikindi að stríða en var rúmliggjandi. Þú máttir að vana ekkert aumt sjá og sagðir við hana: „Amma, þegar ég verð stór ætla ég að verða læknir og lækna þig og öll hin dýrin.” Það verður því ekki annað sagt um þig en að krókur þinn hafi beygst snemma að hjálpsemi og læknisfræðinni því þessi ákvörðun hélst alla tíð.
Aðaltómstundamál þitt var tónlist. Þú lagðir mikla rækt við hana allt frá því að við vorum í Barnamúsíkskólanum, lærðir á flautu og píanó og spilaðir eftir eyranu á píanó og orgel. Þú spilaðir gjarnan með vinum þínum. Þú varst líka mikill tölvuáhugamaður alla tíð.
Við fórum í ófáar veiðiferðir með pabba okkar þegar við vorum yngri. Í einni ferðinni þótti pabba þú vera helst til seinn að taka til dótið þitt úr bílskottinu en til stóð talsverð ganga að veiðistað. Það lá ekkert á svari þínu við þessari gagnrýni. Þú sagðir að betra væri að taka sinn tíma og hafa með sér allan búnaðinn í stað þess að þurfa að fara aftur í bílinn til að sækja meira dót sem síðar varð raunin fyrir suma. Síðar fórum við oft með fjölskyldum okkar saman í veiðihús á sumrin.
Þau hjón, Brjánn og Steinunn, hrifu okkur hjónin með sér í golfið. Síðar tókum við ófáa golfhringi saman á Íslandi og ekki síst erlendis. Þessar samverustundir eru ógleymanlegar.
Söknuðurinn er mikill við fráfall þitt, elsku bróðir. Ég mun ætíð minnast þín með mikilli virðingu og með dýpsta þakklæti fyrir samfylgdina og fyrir allt það traust sem þú veittir mér alla tíð. Hvíl nú í friði, elsku bróðir.

Við vottum Steinunni, dætrum og fjölskyldum þeirra innilega samúð okkar.

Bolli Bjarnason.

Það er mér bæði erfitt og auðvelt að skrifa minningarorð um elsku hjartans mág minn, Brján Árna Bjarnason. Erfitt þar sem svo mikill söknuður fylgir í kjölfar andláts hans en auðvelt vegna þess að allar minningar um þennan góða dreng eru yndislegar, ljúfar og eftirminnilegar.
Ég kynntist Brjáni fljótlega eftir að þau Steinunn systir mín fóru að draga sig saman fyrir meira en þremur áratugum. Mér varð strax ljóst hversu fjölhæfur hann var og hversu miklum mannkostum hann var gæddur. Hann var áreiðanlegur og heiðarlegur og tók öllum vel. Hann var vel að sér, greindur og tónelskur og kímnigáfa hans var alveg einstök. Hæverska var honum í blóð borin. Brjáni hlotnaðist það eftirsótta orðspor að hafa alltaf verið til staðar fyrir fjölskyldu og vini og skjólstæðingum sínum reyndist hann vel. Hann var sannkallaður mannvinur.
Brjánn hefur reynst okkur fjölskyldunni sérstaklega vel. Hann var alltaf reiðubúinn til þess að aðstoða foreldra okkar systranna og okkur systur þegar á þurfti að halda, einkum þegar um var að ræða heilsufar og læknisráð. Samfylgd okkar í gegnum árin hefur verið mér ofarlega í huga síðustu mánuðina. Margs er að minnast frá fjölskylduatburðum, gleðilegra stunda, og ekki síst á fallega og hlýlega heimili þeirra Steinunnar þar sem alltaf var tekið vel á móti öllum. Brjánn hafði einstaklega góða nærveru, var alltaf glaður og kátur.
Þegar ég rifja upp gamla tíma kemur mér í huga þegar Steinunn systir mín kom til mín í desembermánuði árið 1994, rétt um mánuði áður en þau Brjánn, ásamt dásamlegu dætrum sínum, héldu utan til Bandaríkjanna þar sem Brjánn stundaði framhaldsnám í geðlækningum. Venjan hjá okkur systrunum þremur var að skiptast á að halda fjölskylduboð um jólin og að þessu sinni var komið að mér. Erindi Steinunnar minnar snerist um hvort ég gæti verið svo góð að breyta jólaboðinu í giftingarveislu, þau Brjánn hefðu ákveðið að gifta sig fyrir áramótin. Ég varð auðvitað við þeirri bón og var heldur betur ánægð, þau giftu sig og þá var litla systir mín komin í góða og örugga höfn. Hjónabandið hefur verið fallegt og farsælt og áberandi hversu samrýmd þau Steinunn og Brjánn hafa verið og hversu mikla virðingu þau hafa ávallt sýnt hvort öðru.
Hjá þeim Brjáni og Steinunni fóru margar stundir síðastliðið sumar í það að reisa sumarbústað í gróðursælum fjölskyldureit. Þá kom vel fram hversu samstillt þau hjónin voru og einkum hversu duglegur og ötull Brjánn reyndist við að leysa þau mörgu verkefni sem slíkri framkvæmd fylgja. Og í því sambandi rifjast upp fyrir mér orð systur minnar þegar hún sagði með stolti: „Hann Brjánn minn getur allt.”
Elsku mágur minn var æðrulaus þegar á bjátaði. Hann fór frá okkur alltof snemma og ljúfa drenginn kveð ég með sorg og söknuði.
Ég votta elsku systur minni og yndislegu frænkum mínum, Unni Hólmfríði og Elvu Bergþóru og fjölskyldum þeirra innilega samúð og bið góðan Guð að veita þeim styrk á erfðum stundum. Þá vil ég færa elsku Bolla, bróður Brjáns, og fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

Jóhanna Gunnlaugsdóttir.