Helgi Hallgrímur Jónsson fæddist á Borgarfirði eystri 17. september 1957. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 19. maí 2024.

Foreldrar hans voru Jón Helgason, f. 5. júlí 1930, d. 1. nóvember 1992, og Svanhildur Guðmundsdóttir, f. 2. ágúst 1929, d. 9. febrúar 1993. Systkini Helga eru Jón Kristján Hilmarsson, f. 13. ágúst 1952, og Ragnhildur Svanfríður Jónsdóttir, f. 18. desember 1961.

Helgi kvæntist Guðrúnu Vigdísi Jónsdóttur, f. 24. febrúar 1956, þann 2. ágúst 1997, og eignuðust þau tvö börn. Þau eru: 1) Andri Már, f. 15. mars 1981, giftur Berglindi Guðjónsdóttur. Saman eiga þau Daníel Kára, Guðjón Frosta og Emilíu Rakel. 2) Hanna Ósk, f. 10. júlí 1983, gift Guðna Ásbjörnssyni. Saman eiga þau Helga Má og Heiðar Má.

Fyrir átti Guðrún einn son, Jón Óskar Magnússon, giftur Lísu Sigurðardóttur. Saman eiga þau Alexöndru Björk, Guðrúnu Vigdísi og Sigurð Ragnar.

Á sínum yngri árum stundaði Helgi sjómennsku með föður sínum og fósturbróður hans á Borgarfirði eystri, einnig var hann á stærri togurum sem gerðir voru út fyrir austan. Helgi lærði vélsmíði í Iðnskólanum í Reykjavík og var á samningi meðfram námi í Kassagerð Reykjavíkur og útskrifaðist árið 1988. Eftir námsferilinn vann hann hjá Kassagerðinni þar til hún lagðist af og síðar prentsmiðjunni Odda. Síðustu árin vann hann í Vélsmiðjunni Vélaborg og eignaðist þar góða vini. Helgi var félagi í Kiwanisklúbbnum Eldey í Kópavogi.

Helgi verður jarðsunginn frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 4. júlí 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Vertu, Guð faðir, faðir minn
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiði mig út og inn
svo allri synd ég hafni.

(Hallgrímur Pétursson)

Pabbi, það er erfitt að setjast niður og skrifa þessi orð. Ekki átti ég von á því tveimur mánuðum eftir að hafa fengið símtalið um að þú hefðir lærbeinsbrotnað í keilu að þú myndir yfirgefa okkur svona fljótt. 19. maí verður alltaf dagur sem blendnar tilfinningar koma upp. Þú yfirgafst okkur eftir stutta en gríðarlega erfiða baráttu við lungnakrabbamein, þú varst æðrulaus, jákvæður og reyndir eftir fremsta megni að nota húmorinn til að komast í gegnum þessar erfiðu vikur. En þegar kom að lokastundinni þá er ég svo þakklátur að ég og fjölskyldan skyldum geta verið hjá þér og kvatt þig, þú varst svo fallegur og mikil kyrrð yfir þér þegar þú fórst yfir í sumarlandið.
Við áttum góðar og ljúfar stundir þessa fáu daga sem ég náði að koma á klakann til að verja tíma með þér, gátum rifjað upp skemmtilegar stundir sem við höfðum átt í gegnum öll árin saman. Öll sumarfríin á Borgarfirði eystri og hringferðirnar sem fylgdu því að ferðast þangað á sínum tíma. Þar naust þú þín einna best í gegnum árin. Allir morgnarnir sem ég vaknaði með þér eldsnemma til að verða samferða þér í sumarvinnuna í Kassagerðinni, allt skutlið fram og til baka á æfingar og þegar ég varð eldri þá lánaðir þú mér og Beggu oft vinnubílinn þinn svo við kæmumst upp í Bláfjöll og Skálafell á snjóbretti.
Einnig mun ég aldrei gleyma vinnuferðinni okkar tveggja austur á Borgarfjörð þar sem við nutum lífsins í góðu veðri við þakviðgerðir á Laufási. Þú varst alltaf til staðar fyrir okkur fjölskylduna þegar okkur vantaði aðstoð. Það skipti ekki máli hvað það var, þú mættir alltaf og reddaðir fyrir okkur því sem redda þurfti.
Það er þyngra en tárum taki að hugsa til þess að geta ekki hitt þig aftur og að Daníel Kári, Guðjón Frosti og Emilía Rakel eigi ekki eftir að njóta samverustunda með þér í framtíðinni.
Takk fyrir allt pabbi, nú ertu kominn í sumarlandið til ömmu og afa.

Andri Már Helgason.

Elsku pabbi minn.

Ég er ekki enn búin að meðtaka það að þú sért farinn. Ég get eiginlega ekki trúað því að því að ég sitji hér og skrifi minningargrein um þig, það er svo fjarri manni. Lífið er svo hverfult og skrítið.

Hver hefði búist við því 20. mars, þegar þú lærbrotnaðir í keilu með Kiwanisfélögum þínum, að þú myndir aldrei fara út af spítalanum aftur. Fyrsta sjokkið var að það tæki upp undir ár að þú jafnaðir þig en síðan var það ennþá stærra þegar í ljós kom að um fjórða stigs lungnakrabbamein væri að ræða. Þú varst svo æðrulaus og jákvæður allan tímann, auðvitað komu erfiðar stundir en alltaf var stutt í húmorinn og gleðina. Ég er svo þakklát fyrir að hafa verið til staðar fyrir þig á þessum erfiða tíma.
Pabbi var vinnuþjarkur alla tíð. Metnaðarfullur í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur, hvort sem það var í vinnunni eða að aðstoða okkur fjölskylduna. Hann fann bara út úr hlutunum ef hann kunni þá ekki. Ekkert var það sem hann kunni ekki eða fann út.

Pabbi var einstakur maður, það fór lítið fyrir honum og hann var sjálfum sér nógur. Vildi ekki láta hafa fyrir sér, vildi gera alla hluti sjálfur. Hann vann mikið í gegnum tíðina. Kassagerðin var sá vinnustaður þar sem pabbi vann lengst af og var hún eins og annað heimili hans. Honum leið vel í vinnunni og kunni allt upp á hundrað þar. Eftir Kassagerðina fór hann að vinna í Prentmeti-Odda og síðustu árin vann hann í Vélaborg. Þar kynntist hann yndislegum vinnufélögum og gaman var að heyra hann ræða um vinnudaginn með þeim. Hann var þakklátur fyrir þann vinskap.

Fjölskyldan var mikilvæg fyrir pabba og heyrði ég í honum á hverjum degi og áttum við oft á tíðum langt og gott spjall. Hann var kannski ekki margorður í margmenni en hann var samt alltaf til í að spjalla. Ég minnist allra þeirra stunda sem við áttum saman á Borgarfirði eystri. Við hlökkuðum mikið til að eiga saman gott frí í friðsæla firðinum. Þar fór iðulega mikill tími í að dytta að og pabbi sat nú yfirleitt ekki auðum höndum. En á kvöldin var oft setið úti við bobbinginn þar sem kveiktur var eldur upp í honum og horft út á fjörðinn.
Ég á svo margar góðar minningar um þig pabbi og gæti talið endalaust upp. Ein af þeim er þegar þú fórst með okkur út í höfn fyrir austan að veiða. Allar þær ferðir sem við fórum austur á Lödunni og við krossuðum fingur að ekki myndi springa – sem gerðist nú ansi oft uppi á miðri heiði. Við hlæjum oft að þessu enn þann dag í dag.
Síðustu vikurnar með þér voru yndislegar. Þú varst svo þakklátur fyrir starfsfólkið á lungnadeildinni og fann maður hversu vel þú varst liðinn þar eins og alls staðar. Við fjölskyldan erum einnig þakklát fyrir allt það sem þau gerðu fyrir þig til að gera lífið auðveldara í lokinn. Þolinmæðin, nærgætnin og umhyggjan sem þau sýndu þér er ómetanleg. Húmorinn og gleðin sem þú varst með alveg til endaloka var einstök. Takk fyrir að vera pabbi minn og vinur. Ég mun aldrei gleyma þér, elska þig endalaust og hlakka til að sjá þig hinum megin.

Þín dóttir,

Hanna Ósk.