Margrét Gísladóttir fæddist í Reykjavík 15. júní 1949. Hún lést á dvalarheimilinu Sólvöllum, Eyrarbakka 17. júní 2024.

Margrét var dóttir hjónanna Guðbjargar Runólfsdóttur frá Dýrfinnustöðum í Skagafirði, f. 28.7. 1916, d. 13.10. 2016, og Gísla Hannessonar frá Stóra-Hálsi í Grafningi, f. 11.3. 1917, d. 7.12. 1972, bænda í Auðsholti í Ölfusi. Margrét var þriðja í röð átta systkina. Hin eru: Magnús, f. 1944, María, f. 1947, Hannes, f. 1948, Kristín, f. 1

950, Steinunn, f. 1952, Runólfur Björn, f. 1956, og Sæmundur Skúli, f. 1958.

Árið 1973 giftist Margrét eftirlifandi eiginmanni sínum, Guðmundi Karli Guðjónssyni, f. 14.4. 1951. Börn þeirra eru: 1) Guðbjörg Helga, f. 19.5. 1970, maki hennar er Rögnvaldur Rafnsson, f. 2.6. 1970, sonur hennar er Andri Karl, f. 23.6. 1989, maki hans er Hafdís Elva Hjaltadóttir, börn þeirra eru Daníel Karl og Snædís Freyja. Sonur Rögnvaldar er Sigurjón Rafn. 2) Gerður, f. 14.3. 1978, maki hennar er Björn Helgason, f. 19.5. 1978, börn þeirra eru Arnar Þorberg og Tómas Helgi. 3) Grétar Karl, f. 23.12. 1979, maki hans er Abigail Charlotte Cooper, f. 10.8. 1988, börn þeirra eru Freyja Elísabet og Matthías Karl. 4) Auður, f. 3.9. 1982, maki hennar er Baldvin Árnason, f. 19.1. 1978, börn þeirra eru Eyrún Bríet, Kolbrún Bergþóra og Brynjólfur Karl.
Margrét ólst upp í Reykjavík og í Ölfusi frá 10 ára aldri. Hún lauk námi frá Fóstruskóla Íslands 1970 og framhaldsnámi frá sama skóla 1997. Einnig sótti hún myndlistarnámskeið árum saman og stundaði það áhugamál sitt á meðan heilsan leyfði. Hún lagði einnig ríka áherslu á skapandi starf með leikskólabörnum og sótti ýmis námskeið í endurmenntun.
Margréti var ávallt umhugað um velferð barna og var leikskólakennari af lífi og sál. Starfaði hún í leikskólunum Barónsborg og Hagaborg í Reykjavík og síðar Kópasteini í Kópavogi. Eftir að hún flutti austur fyrir fjall árið 1984 starfaði hún á leikskólunum Ásheimum og Hulduheimum á Selfossi þar til hún lét af störfum árið 2015 vegna veikinda.
Síðustu æviárin naut Margrét ómetanlegrar umhyggju heimilis- og starfsfólks á Vinaminni og dvalarheimilinu Sólvöllum.
Útför Margrétar fer fram frá Selfosskirkju í dag, 4. júlí 2024, klukkan 14.

Allt er

á reki

allt er

örlögum

Háð.

(Snorri Hjartarson)

Margrét mágkona mín hefur kvatt þessa jarðvist eftir langa baráttu við alzheimersjúkdóminn. Það urðu hennar örlög að rekast hægt frá áskorunum lífsins og takast á við þverrandi getu til allra athafna.
Hún sem hafði svo mikið að lifa fyrir og var svo mikilvæg fyrir marga. Hún sem var allra kvenna virkust og duglegust. Hún sem hafði ástríðu fyrir svo mörgu. Hún sem var leikskólakennarinn. Hún sem var listræni fagurkerinn. Hún sem hafði hæstu söngröddina. Hún sem var ljónynjan sem varði sitt og sína. Hún sem sinnti veikri móður sinni af örlæti og alúð, sjálf orðin veik af sama sjúkdómi, bara þrjátíu og þremur árum yngri.
Við höfum fylgst að næstum alla ævi mína. Fáir óskyldir hafa staðið mér nær en Margrét.
Feður okkar voru vinir og samkennarar. Þegar foreldrar Margrétar festu kaup á jörð austur í Ölfusi og fluttu þangað með sín átta börn þurfti að byggja þar upp húsakost og fleira.
Pabbi, sem eins og aðrir kennarar á þeim tíma vann öll sumur og var laginn við smíðar, réð sig í sveitina og hjálpaði til við að byggja upp í Auðsholti. Við krakkarnir hans fylgdum oft með og dvöldum í sveitinni til lengri eða skemmri tíma, líka löngu eftir að pabbi hætti þar störfum. Einna ákafastur var Guðmundur Karl, elsti bróðir minn, rokinn í sveitina í öllum fríum, stuttum og löngum. Á þeim tíma var það ekki sami skreppitúrinn og nú að renna austur fyrir fjall, Kambarnir mjór og brattur malarvegur og stikur fáar. Enginn skemmtitúr á snjóþungum vetrum. Kannski langaði hann til að verða bóndi? Nei aldeilis ekki. Það var ljóshærða gáskafulla heimasætan sem átti hug hans allan.
Þau voru fjórtán og sextán ára og voru ákveðin í að halda saman út í lífið við lítinn fögnuð foreldranna, bara krakkar sem áttu eftir að mennta sig. Ég botnaði ekkert í þessari andstöðu við „fullorðið fólk” enda bara átta ára og bróðir minn fermdur, orðinn kall sem átti jakkaföt.
Síðan eru liðin næstum sextíu ár. Margrét og Guðmundur Karl misstu ekki sjónar á því sem var mikilvægast í lífinu, að rækta garðinn sinn. Eignuðust góð börn og lifðu lífinu til fulls. Þau héldust í hendur þar til yfir lauk.
Síðustu tíu ár hafa verið þungbær okkur öllum sem þótti vænt um Margréti.
Hún varð aldrei gömul. Hún bara hvarf smám saman.
Ég sakna hennar.

Ásdís.

Mig langar að minnast minnar kæru mágkonu Margrétar sem lést á 80 ára afmælisdegi íslenska lýðveldisins, tveimur dögum eftir 75 ára afmælið sitt. Þá voru liðin um tíu ár frá því að hún greindist með alzheimers-sjúkdóminn. En á þeim tíma var hún svo ungleg og frískleg, að mér fannst sem hún myndi lifa í 100 ár eins og móðir hennar, tengdamóðir mín, gerði. En lífið er óútreiknanlegt. Ég minnist þess hversu vel hún tók á móti mér þegar ég fyrir tæpum 40 árum kom inn í Auðsholtsfjölskylduna sem tilvonandi mágkona hennar. Og hversu notalegt það var að vera í návist hennar og Guðmundar Karls og einstaklega notalegt að sækja þau heim, samband þeirra svo fallegt og mikil glaðværð á heimilinu.
Margrét hafði einlægan, brennandi áhuga á börnum, barnauppeldi og velferð barna og þreyttist aldrei á að tala um það áhugamál, enda helgaði hún starfsævi sína kennslu og barnauppeldi. Hún var listræn og mikill fagurkeri og bar heimilið, hún og hennar verk þess glöggt vitni. Ég minnist mágkonu minnar svo glaðlegrar og glettinnar með fallegt bros og full af ævintýrum. Erfitt var að sjá hana allt of unga hverfa inn í sjúkdóminn hægt og bítandi. En erfiðast hefur það verið fyrir eiginmann, börn og nánustu fjölskyldu sem ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur nú þegar komið er að kveðjustund.
Minningin um fallega, brosmilda og djúpvitra mágkonu lifir áfram. Þökk fyrir góða samferð.
Hulda Ósk Gränz.