Bolafjall. Útsýni af fjallinu var lítið í gær en rollurnar kærðu sig kollóttar.
Bolafjall. Útsýni af fjallinu var lítið í gær en rollurnar kærðu sig kollóttar. — Morgunblaðið/Sonja
Gjaldtaka er hafin á bílastæðinu við Bolafjall og þurfa ökumenn fólksbíla og jeppa nú að greiða þúsund krónur við komuna.

Ökumenn mótorhjóla greiða 500 krónur og minni rútur, með allt að 19 farþega, greiða tvö þúsund krónur. Stærri rútur greiða gjald samkvæmt samkomulagi.

Samhliða gjaldtökunni á að ráðast í framkvæmdir við bílastæðið, en tilgangur gjaldtökunnar er að standa straum af framkvæmdunum.

Fjöldi ferðamanna leggur leið sína á fjallið á hverjum degi þó sumarkvöldin séu vinsælust. Nú er ein annasamasta vikan í komum ferðamanna á Vestfjörðum, í það minnsta í skipakomum talið, en alls koma 18 skemmtiferðaskip til Ísafjarðarhafnar í þessari viku.

Í gær voru fimm skip í firðinum, fjögur við höfn og eitt lá við akkeri. Á sunnudaginn verður stærsti dagur sumarsins en þá er von á tæplega átta þúsund farþegum með átta skipum.