Atvinna. Það sem af er ári hafa um 600 manns misst
vinnuna í hópuppsögnum.
Atvinna. Það sem af er ári hafa um 600 manns misst vinnuna í hópuppsögnum. — Morgunblaðið/Ómar
Tvær tilkynningar um hópuppsögn bárust Vinnumálastofnun í júní.

Það sem af er af árinu hafa 10 tilkynningar um hópuppsagnir borist stofnuninni en í þeim hefur 598 verið sagt upp. Þetta segir Sverrir B. Berndsen yfirlögfræðingur Vinnumálastofnunar í samtali við Morgunblaðið.

Uppsagnir í hundraðatali

Þetta eru óvenjuháar tölur um hópuppsagnir á fyrri hluta árs ef horft er til talna síðustu fimm ára. Í júlí í fyrra höfðu Vinnumálastofnun borist átta tilkynningar um hópuppsagnir þar sem 429 var sagt upp. Árið 2022 höfðu fimm tilkynningar borist á þessum tíma og 192 sagt upp, árið þar áður bárust jafn margar tilkynningar það sem af var ári í júlí en þá var 404 sagt upp.

Í júlí 2020 höfðu borist 117 tilkynningar um hópuppsagnir á fyrri helmingi árs, þar sem 7.553 var sagt upp en 2019 voru þær tólf og 623 sagt upp.

Flestum sagt upp í fiskvinnslu

Af þeim uppsögnum sem hafa borist í ár var flestum sagt upp í fiskvinnslu, eða 201. Þar á eftir í opinberri þjónustu þar sem 146 var sagt upp. Því næst farþegaflutningum, 139, verslun og þjónustu, 98 og fræðslustarfsemi 14.

Ástæður uppsagnanna segir Sverrir vera endurskipulagningu, árstíðabundna sveiflu, náttúruhamfarir og hagræðingu.

Mest var 8.684 starfsmönnum sagt upp

Heilt yfir barst Vinnumálastofnun nokkur fjöldi tilkynninga um hópuppsagnir síðustu fimm ár.

Í fyrra bárust 18 tilkynningar yfir allt árið og 735 starfsmönnum var sagt upp. Árið 2022 voru tilkynningarnar sex og 229 starfsmönnum sagt upp. Árið 2021 bárust níu tilkynningar og var 497 sagt upp.

Það viðamikla ár sem 2020 var bárust stofnuninni alls 139 tilkynningar og 8.684 starfsmönnum var sagt upp. Árið þar á undan voru tilkynningarnar 21 og 1.046 starfsmönnum sagt upp.

Drífa Lýðsdóttir
drifa@mbl.is

Höf.: Drífa Lýðsdóttir