Kringlan. Baldvina Snælaugsdóttir.
Kringlan. Baldvina Snælaugsdóttir. — Mogunblaðið/Eyþór
Átján verslanir Kringlunnar eru enn lokaðar vegna tjóns sem hlaust af eldsvoða sem varð í þaki verslunarmiðstöðvarinnar 15. júní.

Af þeim eru tíu verslanir mikið skemmdar, eyðilögðust þar gólf, veggir og loft og verða þær að öllum líkindum ekki opnaðar fyrr en í haust, að sögn Baldvinu Snælaugsdóttur, markaðsstjóra Kringlunnar.

Tjónið hleypur á hundruðum milljóna króna.

Starfsemin er þó hægt og bítandi að færast í betra horf en búið er að opna níu verslanir á ný sem varð að loka tímabundið vegna skemmda á vörum.

„Staðan er merki­lega góð miðað við hvernig ástandið var fyrst eft­ir brun­ann. Við erum að glíma við af­leiðing­arn­ar enda varð mikið vatns­tjón á báðum hæðum fyr­ir neðan þetta svæði sem brann,” seg­ir Bald­vina.

„Það eru já­kvæðir punkt­ar á hverj­um ein­asta degi og til að mynda í dag var opnuð Nespresso „Pop-up versl­un” í göngu­göt­unni,” seg­ir Bald­vina.

Kringl­an var lokuð í fimm daga eft­ir brun­ann og var opnuð aft­ur 20. júní. Spurð hvernig aðsókn­in hafi verið eft­ir opn­un­ina seg­ir hún:

„Við erum mjög sátt við aðsókn­ina þrátt fyr­ir þetta högg. Hún hef­ur verið um 90 pró­sent ef við ber­um sam­an töl­ur miðað við sama tíma og í fyrra, sem er mjög já­kvætt. Fasta­gest­irn­ir voru strax mætt­ir á kaffi­hús­in og á veit­ingastaðina og nýi afþrey­ing­arstaður­inn Oche er að draga marga mjög marga að og er vin­sæll,” seg­ir Bald­vina.

Hún tekur fram að trygg­ing­ar­fé­lög­in séu enn að meta tjónið sem versl­an­irn­ar í Kringl­unni urðu fyr­ir.

„Þetta er flókið ferli. Reit­ir eiga stór­an hluta bygg­ing­ar­inn­ar og svo eru aðrir eig­end­ur. Rekst­raraðilarn­ir eru með sín eig­in trygg­ing­ar­fé­lög og það tek­ur lang­an tíma að vinna úr þessu. Við vit­um að þetta tjón er talið í hundruðum millj­óna króna en ekki tug­um.”