Tónahvarf 8. Nýbyggingin stendur uppi í hæðinni í Tónahvarfi í Kópavogi. Fasteignafélagið Eignabyggð reisir nýjar höfuðstöðvar Hjálparsveitar skáta í Kópavogi í Tónahvarfi.
Tónahvarf 8. Nýbyggingin stendur uppi í hæðinni í Tónahvarfi í Kópavogi. Fasteignafélagið Eignabyggð reisir nýjar höfuðstöðvar Hjálparsveitar skáta í Kópavogi í Tónahvarfi. — Morgunblaðið/Baldur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Framkvæmdum við nýjar höfuðstöðvar Hjálparsveitar skáta í Kópavogi (HSSK) í Tónahvarfi 8 miðar vel og er áformað að taka húsið í notkun í byrjun næsta árs.

Tónahvarf er önnur efsta gatan í Hvörfunum undir Vatnsendahæð og þaðan er mikið útsýni.

Þegar Morgunblaðið kannaði aðstæður í vikunni var verið að klæða húsið að utan og setja tjörupappa á hluta þaksins. Lagnavinna og önnur innivinna er að hefjast og er frágangur lóðar jafnframt að hefjast, að sögn Valgeirs Tómassonar formanns HSSK.

Skóflustunga í fyrra

Skóflustunga að húsinu var tekin 11. júní 2023 og segir Valgeir áformað að flytja inn í húsið í janúar eða febrúar á næsta ári.

„Verkefnið hefur gengið vel og hefur verið á áætlun. Samstarf við verktaka hefur sömuleiðis gengið vel og framkvæmdir eru á fullum snúningi. Það er verið að útfæra ýmis smáatriði á hverju byggingarstigi en ekkert marktækt komið upp á,” segir Valgeir.

Fleiri útfærslur skoðaðar

Hann segir aðspurður það hafa reynst vera farsæl ákvörðun að byggja höfuðstöðvarnar með þessu sniði. Aðrar útfærslur hafi verið skoðaðar.

„Við vorum í undirbúningsfasanum að skoða tvær eða þrjár lausnir. Þar með talið að kaupa jafnvel tilbúið hús og flytja inn í það. Það reyndist hins vegar vera frábær lending að hanna björgunarmiðstöðina frá byrjun en þannig var hægt að hugsa fyrir öllum skrefum frá upphafi. Lóðin og umhverfið henta gríðarlega vel,” segir Valgeir.

Seldi á 790 milljónir

Fjallað var um uppbygginguna og aðdraganda hennar í Morgunblaðinu síðasta haust.

Þar var rifjað upp að HSSK seldi tvær fasteignir á Kársnesi; Bryggjuvör 2 og Bakkabraut 4, til Kópavogsbæjar á 790 milljónir króna. Þá hefði sveitin keypt lóðina Tónahvarf 8 af Kópavogsbæ á 100 milljónir króna en þar eru nýjar höfuðstöðvar að rísa. Kostnaður við nýjar höfuðstöðvar var áætlaður um milljarður króna.

Hjálparsveit skáta í Kópavogi var stofnuð 1969. Hún hefur frá upphafi verið á Kársnesi í Kópavogi. Hún hafði fyrst aðsetur í húsnæði skátafélagsins Kópa á Borgarholtsbraut en sveitin og skátafélagið hafa ávallt átt í góðu samstarfi.

Starfsemin var í upphafi ekki aðeins tengd hafinu heldur var einnig um almenna björgunarstarfsemi að ræða. Síðar varð starfsemi bátaflokks öflugri með sameiningu sveitarinnar og slysavarnafélagsins Stefnis, að sögn Valgeirs.

Baldur Arnarson
baldura@mbl.is

Höf.: Baldur Arnarson