Fjörugt. Áhorfendur voru vel með á nótunum og hvöttu sína keppendur áfram af ástríðu.
Fjörugt. Áhorfendur voru vel með á nótunum og hvöttu sína keppendur áfram af ástríðu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Aldursflokkameistaramót Íslands í sundi fór fram um liðna helgi í Reykjanesbæ. Sundfélag Hafnarfjarðar (SH) bar sigur úr býtum, hlaut 750 stig, og er liðið því aldursflokkameistari árið 2024.

Í öðru sæti varð sameiginlegt lið Reykjavíkur, með 719 stig, en það samanstóð af sundköppum frá Ármanni, Fjölni, KR og Ægi. Í þriðja sæti varð ÍRB með 701 stig, í fjórða sæti Breiðablik með 626 stig og í fimmta sæti varð Óðinn með 306 stig. Alls tóku tíu lið þátt í ár.

Eitt aldursflokkamet leit dagsins ljós, en það voru stúlkurnar úr Breiðabliki í flokki 14 til 15 ára sem settu met í 4x100 m fjórsundi þegar þær syntu á 4 mínútum og 26,59 sekúndum. Í þeim hópi voru þær Íris Ásta Magnúsdóttir, Margrét Anna Lapas, Sólveig Freyja Hákonardóttir og Ásdís Steindórsdóttir.

Margir bættu persónulega tímann sinn á mótinu, en stigakeppni einstaklinga fór fram í öllum aldursflokkum. Í stigakeppni einstaklinga í flokki 12-13 ára stelpna sigraði Auguste Balcuinite úr Sundfélagi Hafnarfjarðar. Í flokki 12-13 ára stráka sigraði Kristjón Hrafn Kjartansson, einnig úr SH. Elísabet Arnoddsdóttir úr ÍRB sigraði í stigakeppni einstaklinga í flokki 14-15 ára stelpna, og Árni Þór Pálmason, einnig úr ÍRB, sigraði í flokki 14-15 ára stráka.

Tilkynnt var á lokahófi mótsins að aldursflokkameistaramótið verður haldið á Akureyri á næsta ári.

Guðrún S. Arnalds
gsa@mbl.is