Ferðalag. Forseti Íslands fór víða í ágústmánuði 1944. Bíll hans var með í för um allt land.
Ferðalag. Forseti Íslands fór víða í ágústmánuði 1944. Bíll hans var með í för um allt land. — Ljósmyndir/Vigfús Sigurgeirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þessar myndir voru teknar í ágúst 1944 þegar Sveinn Björnsson, fyrsti forseti lýðveldisins, fór í hringferð um landið með varðskipinu Ægi sem var smíðaður 1929,” segir Halldór Benoný Nellett fv. skipherra.

Í síðustu viku fór Halldór ásamt Sigurði Ásgrímssyni, fv. sprengjusérfræðingi Landhelgisgæslunnar, til Bessastaða til að afhenda Guðna Th. Jóhannessyni forseta myndirnar til að hengja upp á Bessastöðum. Myndirnar tók Vigfús B. Sigurgeirsson, sem var sérstakur ljósmyndari í hringferð forsetans.

Ferð Sveins forseta um landið var farin í tveimur hlutum og fyrst fór hann um Vesturland, Vestfirði og Norðurland, en eftir stutt stopp í Reykjavík var lagt aftur af stað og farið til Vestmannaeyja, og þaðan á Austfirði, en ferðin endaði síðan á Höfn í Hornafirði 17. ágúst. Þá fór forsetinn vestur um haf og hitti Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseta. Forsetinn var því ansi víðförull þennan ágústmánuð 1944.

Mikil hátíð um allt land

Mikið var skrifað um ferð fyrsta íslenska forsetans, bæði í blöðum innanlands og einnig í Heimskringlu, dagblaði Vestur-Íslendinga. Í Morgunblaðinu 9. ágúst 1944 er farið yfir heimsóknir Sveins forseta á Norðurlandi og Vestfjörðum. Forsetanum er alls staðar fagnað vel og greinilegt að íbúar bæjanna hafa allir safnast saman til að fylgjast með þessari merku stund og haldnar voru margar ræður. Hannibal Valdimarsson hélt ræðu á Ísafirði sem hann birti í dagblaði sínu Skutli 12. ágúst. Þar talar hann um að draumur Íslendinga hafi loks ræst um að eignast þjóðhöfðingja sem skildi og talaði íslenska tungu. „Sá draumur hefir einnig rætzt.”

Tók bílinn með sér

„Ég get sagt þér frá hvernig mér datt í hug að gefa Guðna forseta þessar myndir. Ég sá frétt í Morgunblaðinu í fyrra um að Guðni forseti hefði farið til Akureyrar og að skólabörn hefðu verið að taka á móti honum og þá allt í einu laust niður í kollinn á mér þessari fyrstu ferð Sveins Björnssonar forseta til Akureyrar 1944. Hann fór ekkert fljúgandi norður eins og menn gera núna, heldur fór hann með varðskipi að heimsækja byggðir landsins og ekki nóg með það, heldur tók hann bílinn með sér,” segir Halldór og hlær.

Forsetabíllinn var hífður upp í varðskipið og Halldór segir að til séu myndir af því þegar verið er að hífa bílinn í Ægi. Hann hafi ekki haft þær í sínum fórum, en verið sé að leita að þeim til að færa Guðna forseta til varðveislu á Bessastöðum. „Bíllinn var með alla ferðina og var bara hífður í land og forsetinn keyrði hann um allt á svæðinu, í kauptúnin og alls staðar þar sem hann heimsótti landsmenn.”

„Þessar myndir sem ég gaf Guðna í gær voru allar um borð í Ægi. Við fundum ekki þessa þriðju mynd, en meiningin var að gefa honum hana líka,” segir Halldór og ljósmyndari Morgunblaðsins, Árni Sæberg, hafði uppi á afkomanda Vigfúsar.

Verða að vera sýnilegar

„Ég er fyrrverandi skipherra og hef alltaf haft áhuga á gömlum minjum. Nú er ég formaður öldungaráðs og það er okkar hlutverk í ráðinu að varðveita gamla hluti. Þessar merkilegu myndir voru alltaf um borð í varðskipinu Ægi, sem nú bíður örlaga sinna hérna í ytri höfninni og verður dregið fljótlega til Grikklands,” segir Halldór og bætir við að hann hafi heyrt að nýi Ægir verði líklega notaður sem snekkja í Grikklandi.

„Myndirnar voru að öllum líkindum áður um borð í gamla Ægi, sem er löngu kominn úr landi og í brotajárn, en voru komnar í kassa í geymslu suður í Keflavík og mér fannst ekki gaman að vita af þeim þar. Þarna eru stórmerkilegir menn í áhöfninni. Á annarri myndinni er t.d. þjóðhetjan úr þorskastríðunum, Guðmundur Kjærnested, bara 21 árs gamall, og svo er þarna Dagfinnur Stefánsson, flugstjóri hjá Flugleiðum í mörg ár, og margir fleiri merkir menn,” segir Halldór.

„Svona mikilvægar sögulegar minjar mega ekki týnast ofan í kassa heldur eiga að vera sýnilegar. Þess vegna var ég mjög kátur með það hvað Guðni tók vel í að taka á móti þessum myndum til að hengja upp á Bessastöðum, þar sem þær geta verið sýnilegar fyrir gesti um ókomin ár.”

Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir