Eyjafréttir. Ritstjórn blaðsins, fv. Trausti Hjaltason stjórnarformaður, Salka Sól Örvarsdóttir blaðamaður, Ómar Garðarsson ritstjóri, Gígja Óskarsdóttir stjórnarmaður og Tryggvi Már Sæmundsson ritstjóri.
Eyjafréttir. Ritstjórn blaðsins, fv. Trausti Hjaltason stjórnarformaður, Salka Sól Örvarsdóttir blaðamaður, Ómar Garðarsson ritstjóri, Gígja Óskarsdóttir stjórnarmaður og Tryggvi Már Sæmundsson ritstjóri. — Morgunblaðið/Óskar Pétur Friðrikson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eyjafréttir fagna 50 ára afmæli sínu á árinu, en fyrsta blaðið leit dagsins ljós 28. júní árið 1974.

Fyrstu áratugina hét blaðið Fréttir en árið 2012 var nafninu breytt í Eyjafréttir til samræmis við miðilinn Eyjafréttir.is sem hóf göngu sína árið 2000. Hann er rekinn til hliðar við blað Eyjafrétta og er ætlað að flytja fréttir af daglegu lífi Eyjamanna ásamt skoðanaskiptum manna á milli.

„Við erum að fagna hálfrar aldar afmæli og verðum með móttöku í Þekkingarsetri Vestmannaeyja á sunnudaginn næstkomandi á Goslokahátíð. Í kjölfarið er ráðstefna til að vekja athygli á veikri stöðu héraðsfréttamiðla á Íslandi sem hafa veikst á undanförnum árum og áratugum,” segir Ómar Garðarsson ritstjóri Eyjafrétta. Ráðstefnunni stýrir Páll Magnússon og erindi halda þau Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, Guðmundur Sv. Hermannsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, Gunnar Gunnarsson ritstjóri Austurfréttar og Valgeir Örn Ragnarsson varafréttastjóri RÚV.

Ómar segir mikinn barning hjá héraðsfréttamiðlum, að þeim hafi fækkað og fleiri miðlar séu orðnir eins manns framtak. „Það eru þó nokkrir fjölmiðlar og blöð sem standa undir nafni ásamt Eyjafréttum, til dæmis Víkurfréttir, Skessuhorn, Feykir, akureyri.net og Austurfrétt,” segir Ómar.

Hann segir dreifingu blaðsins þokkalega í Vestmannaeyjum og að annað hryggjarstykkið sé Eyjamenn sem flutt hafi burt en hafi alla tíð haldið tryggð við blaðið. Margir hverjir hafi verið áskrifendur frá því að blaðið fór fyrst í dreifingu í áskrift árið 1992.

„Við erum að þjóna mjög öflugu samfélagi sem aldrei sefur,” segir Ómar.

Útgáfa blaðsins hefur að staðaldri verið tvisvar í mánuði, en Ómar segir að það sé til endurskoðunar og að blöðin gætu orðið tólf til sextán á ári, og þá veglegri en áður.

Hann segir blaðburðarbörn sjá um dreifingu á blaðinu í Vestmannaeyjum en að öðru leyti sé það sent með pósti um landið allt, sem kosti sitt. „Allt kostar þetta pening og er þungt í pyngjuna fyrir lítinn rekstur,” segir Ómar.

Nálægðin erfið

Ómar hefur verið viðloðinn Eyjafréttir í tæpa fjóra áratugi, en hann kom frá Seyðisfirði á vertíð til Vestmannaeyja og kynntist konunni sinni. Hann segist hafa unnið með frábæru fólki í blaðamennskunni sem var tilbúið að leggja mikið á sig þegar á þurfti að halda og þá lengst af með Gísla Valtýssyni, prentara og framkvæmdastjóra, sem sagði aldrei nei þegar hann vildi stækka blaðið. „Auðvitað gat nálægðin verið erfið en það kallaði á vönduð vinnubrögð sem voru okkar markmið. Auðvitað gerðum við mistök eins og aðrir og þá var bara að taka því. En heilt yfir var þetta mikið puð en aldrei leiðinlegt,” segir Ómar.

Nýlega sameinuðu miðlarnir Eyjafréttir og Eyjar.net krafta sína og mun ritstjórnin vera sameiginleg sem Ómar og Tryggvi Már Sæmundsson, ritstjóri Eyjar.is, stýra. Blað Eyjafrétta verður þó gefið út með sama fyrirkomulagi og áður. „Þetta er mikið gæfuspor og við stefnum á það að fá Lilju Dögg, mennta- og viðskiptaráðherra, til að opna nýjan fréttavef á ráðstefnunni sem stenst allar kröfur dagsins í dag,” segir Ómar.

Valgerður Laufey Guðmundsdóttir
vally@mbl.is

Höf.: Valgerður Laufey Guðmundsdóttir