Kvoslækur. Fjölbreytt menningardagskrá verður í Fljótshlíðinni í sumar.
Kvoslækur. Fjölbreytt menningardagskrá verður í Fljótshlíðinni í sumar.
Annar menningarviðburðurinn á Kvoslæk í Fljótshlíð þetta sumarið verður á sunnudaginn, 7. júlí. Þá stíga á svið harmóníkuleikararnir Jónas Ásgeir Ásgeirsson og Eyrún Aníta Gylfadóttir.

Ábúendur á Kvoslæk, hjónin Björn Bjarnason og Rut Ingólfsdóttir, hafa staðið fyrir menningarviðburðum þar mörg undanfarin ár. Alls verða fjórir viðburðir í sumar.

Jónas er klassískur harmóníkuleikari, búsettur í Kaupmannahöfn. Hann lauk meistaranámi sem og post-graduate-námi við Konunglega danska tónlistarháskólann undir leiðsögn Geirs Draugsvoll, eins virtasta harmóníkukennara og -einleikara í Evrópu. Jónas hefur unnið til verðlauna sem einleikari og samspilsleikari. Helst má nefna tvenn verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaununum 2023 í flokki sígildrar og samtímatónlistar sem flytjandi ársins og fyrir plötu ársins. Jónas er stofnfélagi í ýmsum tónlistarhópum sem hafa haslað sér völl á Íslandi sem og erlendis.

Eyrún Aníta Gylfadóttir er fædd og uppalin í Fljótshlíðinni. Hún hóf nám á harmóníku fimm ára gömul hjá Grétari Geirssyni við Tónlistarskóla Rangæinga. Á unglingsárum stundaði hún harmóníkunám í Stykkishólmi hjá Hafsteini Sigurðssyni. Síðar hóf hún nám við Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan með BS í jarðfræði árið 2009. Í dag starfar Eyrún hjá Hótel Rangá, kennir á harmóníku við Tónlistarskóla Rangæinga og er búsett með fjölskyldu sinni á Hvolsvelli.

Efnisskrá tónleikanna er fjölbreytt. Meðal annars verða spiluð verkin Radioflakes eftir Atla Ingólfsson, Pneuma eftir Huga Guðmundsson, svo og lagið Fikta eftir Friðrik Margrétar-Guðmundsson. Tvö síðarnefndu lögin eru samin fyrir Jónas og tileinkuð honum. Þá verða tvö lög í samspili milli Jónasar og Eyrúnar.

Guðrún S. Arnalds
gsa@mbl.is

Höf.: Guðrún S. Arnalds