Erjur. Arnar Atlason formaður SFÚ telur SFS á villigötum í gagnrýni sinni á strandveiðikerfið.
Erjur. Arnar Atlason formaður SFÚ telur SFS á villigötum í gagnrýni sinni á strandveiðikerfið. — Morgublaðið/Hari
Arnar Atlason, formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ), segir í samtali við Morgunblaðið yfirlýsingu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) um strandveiðar sem birt var á vef samtakanna síðastliðinn mánudag bera keim af hroka og yfirgangi. Jafnframt sé yfirlýsingin full af staðreyndavillum að mati Arnars sem sakar SFS um hræsni.

Í yfirlýsingunni er Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra sögð hafa látið undan græðgi strandveiðisjómanna er hún bætti tvö þúsund tonna þorskkvóta við aflaheimildir strandveiðanna. Með viðbótinni er hlutfall aflaheimilda sem er ráðstafað til strandveiða hærra en nokkru sinni fyrr, en rúmlega fimmtungs skerðing hefur verið í þorskkvóta annarra útgerða á sama tíma. Fullyrtu SFS að strandveiðar væru óskynsamlegar og óarðbærar og lýstu þeirri skoðun að betra væri að ráðstafa aflaheimildum í veiðar sem skila þjóðarbúinu meiri verðmætum.

„Ég vil nota tækifærið til að hrósa matvælaráðherra fyrir framsýnina. Að mínu viti er það ekki bara skynsamlegt heldur einnig nauðsynlegt að styrkja þann hluta veiða Íslendinga sem standa utan við aflamarkskerfið okkar. Þær veiðar geta að mínu mati veitt aflamarkskerfinu aðhald og styrkt það til lengri tíma,” segir Arnar.

Óhætt er að segja að yfirlýsingin hafi vakið hörð viðbrögð og sagði Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, í samtali við 200 mílur á mbl.is að fullyrðing um að „matvælaráðherra hafi látið undan græðgi strandveiðisjómanna” séu ummæli sem dæmi sig sjálf. „Þau vísa best til þess hugsunarháttar sem grasserar innan fámenns en valdamikils hóps innan SFS.”

Fullyrðingar skrumskæling

Arnar segir yfirlýsingu SFS lýsa vel áliti samtakanna. „Í yfirlýsingunni er talað um sneið strandveiðimanna af kökunni með þeim hætti. Að best má skilja sem svo að strandveiðimenn séu að fá sneið af köku SFS en ekki heimild til að veiða úr sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Þar er fullyrt að þjóðin verði fyrir verðmætatapi vegna strandveiðanna og því lýst yfir að afkoma vegna þeirra sé óviðunandi. Til samanburðar er fullyrt að verðmætasköpun af „samþættingu veiða og vinnslu” sé umtalsvert meiri.”

Samþætting sé þó ekki endilega af hinu góða að sögn Arnars. „Samkeppniseftirlitið hefur ítrekað bent á að með lóðréttri samþættingu aukist hætta á undirverðlagningu sem geti haft neikvæð áhrif á tekjur hafnarsjóða og ekki síður á tekjur ríkissjóðs. Þetta stemmir að sama skapi við alþjóðlega skattaumræðu sem álítur lóðrétt samþætt fyrirtæki geta skapað hættu á undirverðlagningu í innri viðskiptum.”

Hann kveðst alfarið hafna fullyrðingu SFS um að verðmætasköpun sem fylgir samþættingu veiða og vinnslu sé hryggjarstykkið í árangri og orðspori íslenskrar fiskveiðistjórnunar. „Sérstaklega þegar horft er til niðurlags yfirlýsingarinnar þar sem talað er um byggðafestu, en allir sem það vilja sjá að kerfi lóðrétt samþættrar vinnslu og veiði fyrirtækja hefur algjörlega brugðist þegar kemur að því að viðhalda byggðafestu. Að halda öðru fram er skrumskæling.”

Láti af gagnrýni

Þá gefur Arnar litið fyrir áhyggjur SFS af því að grafið sé undan fiskveiðistjórnunarkerfinu með því að bæta heimildum við strandveiðipottinn á sama tíma og þorskkvótinn sætir skerðingum.

„Frá því að núverandi kerfi var sett á hefur algjörlega mistekist að byggja upp fiskistofna við Ísland, sem var jú markmiðið. Úthlutaður afli við Íslandsstrendur í dag er í besta falli sá sami og hann var við upphaf aflamarkskerfisins. Undirritaður telur að tími annarra leiða utan aflamarkskerfisins sé löngu upprunninn. Þar á meðal má nefna strandveiðar og línuívilnun.”

SFS sagði strandveiðar stundaðar á þeim árstíma sem gæði aflans eru minnst og hafa á þeim grundvelli talið þjóðina verða af verðmætum. Arnari finnst kostulegt að fulltrúar þeirra sem stunda trollveiðar séu að gagnrýna þann hóp sem stundar veiðar með handfærum. „Gaman væri að sjá stærstu útgerðir landsins stunda veiðar með sama glans og strandveiðimenn gera. Ef skilyrðin væru þau sömu; að veiðiferð mætti ekki vara lengur en 14 stundir, ekki mætti róa nema mánudaga, þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga, ekki mætti landa meiri afla eftir hverja veiðiferð en 774 kílóum og síðan mætti einungis róa með fjórar handfærarúllur.”

Hvetur hann SFS til að láta af gagnrýni um óhagkvæmni þegar ljóst sé að kerfið er með slíkum innbyggðum takmörkunum að það dragi verulega úr hagkvæmni veiðanna. Telur hann nauðsynlegt að efla strandveiðikerfið með því að auka sveigjanleika og hagkvæmni.

Sakar SFS um hræsni

„Við Íslendingar tengjumst öll hafinu á einhvern hátt og við vitum að þegar við förum inn í fiskbúð þá er það ekki til að kaupa reynslumikla trollýsu, heldur erum við þangað komin til að sækja nýveidda línuýsu. Umræða um gæði afla í yfirlýsingunni er í þessu ljósi hlægileg en við það bætist svo að nokkrar af stærstu lóðrétt samþættu fyrirtækjakeðjunum eru meðal stórra kaupenda strandveiðiaflans á fiskmarkaði. Upphrópanir um gæði og verðmæti aflans dæma sig þarna sjálf,” segir Arnar.

Hann er þó ekki ósammála öllu sem fram kom í yfirlýsingu SFS, en samtökin sögðu þjóðina verða af tekjum þar sem mikið af strandveiðiafla sem seldur er á markaði er flutt óunnið úr landi.

Arnar kveðst ítrekað hafa vakið athygli á þessu atriði og hvatt stjórnvöld til að aðhafast. Vill hann að málið verði tekið til sérstakrar skoðunar og að ráðamenn verði betur upplýstir um stöðu mála.

„Nauðsynlegt er í því sambandi að upplýsa hversu mikið af óunnum afla sem frá landinu fer kemur frá aðilum þeim sem á aflamarki halda, þ.e. félagsmönnum SFS, og hins vegar hversu mikið af öðrum fiski fer óunnið til útflutnings. Einnig skyldi þetta skoðað með tilliti til milliverðlagningar. Það er skoðun mín að þarna sé mikið sóknarfæri og held ég að niðurstaða sem úr því kæmi myndi opna augu fjölmargra.”

Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson