Emilíana. "Ég fékk mikið frelsi til að fylla inn á milli lína um allt sem ekki er sagt í bréfunum."
Emilíana. "Ég fékk mikið frelsi til að fylla inn á milli lína um allt sem ekki er sagt í bréfunum." — Ljósmynd/Íris Bergmann
„Mér finnst þetta tímabil í lífinu sem ég lifi núna ótrúlega áhugavert og skemmtilegt, af því núna leyfi ég mér að hugsa út fyrir kassann. ..."

„Mér finnst þetta tímabil í lífinu sem ég lifi núna ótrúlega áhugavert og skemmtilegt, af því núna leyfi ég mér að hugsa út fyrir kassann. Uppáhaldssetningin mín er heiti listaverks sem ég á eftir listamanninn Grayson Perry: Hold your Beliefs Lightly, það er mottóið mitt núna. Við erum ekki sama manneskja allt okkar líf. Til dæmis þegar ég er að syngja gömlu lögin mín núna, þá finnst mér eins og ég sé að syngja lög eftir nána systur mína, þetta er úr öðru lífi. Núna er ég komin á annan stað og ég sé hlutina með öðrum hætti og lögin hafa aðrar meiningar í bland við það gamla. Þegar maður eignast börn og fjölskyldu fer maður ósjálfrátt í ákveðið form sem fylgir slíku lífi og alls konar heimspekilegar spurningar leita núna á hugann. Ég er farin lengra inn í kjarnann minn,” segir Emilíana Torrini, sem sendi nýlega frá sér plötuna Miss Flower , en tíu ár eru síðan hún sendi frá sér sólóplötu.

Leituðum að hennar rödd

Emilíana segir tónlistina á nýju plötunni hafa orðið til í mjög lífrænu flæði, en kveikjan var fjöldi sendibréfa sem hún og vinkona hennar, Zoe Flower, fundu við andlát móður Zoe, Geraldine Flower. Bréfin eru frá sjöunda og áttunda áratugnum og þau eru frá níu mönnum, með jafnmörgum bónorðum, og við sögu koma njósnarar. Miðlæga ástarsagan er af Reggie og Miss Flower, en flest bréfin segir Emilíana vera frá honum.

„Við Zoe erum mjög nánar vinkonur, en upphaf okkar vináttu á rætur í því að fyrir mörgum árum var maðurinn hennar, Simon Byrt, píanóleikari í hljómsveitinni minni. Ég var með þá reglu á tónleikaferðalögum að hljómsveitarmeðlimir yrðu að bjóða mökum með í eina viku, og þegar Zoe kom þá náðum við strax vel saman og við höfum verið vinkonur allar götur síðan. Þegar mamma hennar lést flaug ég yfir til að hjálpa með minningarathöfnina og til þess að spjalla og vera til staðar. Zoe sagði mér sögur af því sem upp úr ákveðinni tösku móður hennar kom, en þar á meðal var bréfið sem lagið Miss Flower er samið upp úr. Þetta var einhver tilraun til að hughreysta, þegar ég spurði Simon hvort við ættum að fara í stúdíó og semja lag upp úr þessu bréfi. Zoe fannst það góð hugmynd og við Simon sömdum lagið frekar fljótt. Í næstu heimsókn héldum við áfram að spjalla um Geraldine og skoðuðum annað bréf og við Simon fórum aftur í stúdíó, og svona gerðist þetta koll af kolli. Ég fékk mikið frelsi til að fylla inn á milli lína, um allt sem ekki er sagt í bréfunum. Ekkert þessara bréfa er skrifað af Geraldine, og því þurftum við að leita að hennar rödd. Zoe sagði að mamma hennar hefði elskað að við tækjum þessi bréf og gerðum eitthvað skapandi með þau. Á einhverjum tímapunkti kviknaði hugmyndin að gera heila plötu og síðar varð svo til kvikmyndin The extraordinary Miss Flower . Þannig hefur þetta liðið áfram í ótrúlegu flæði.”

Kannski var hún njósnari

Emilíana segir að Zoe hafi uppgötvað margt um móður sína í þessum bréfum sem hún ekki vissi, en ýmislegt hafi hún vitað fyrir, til dæmis um frumsamið lag á kassettu sem Harold, einn bréfritara, hafði sent móður hennar fyrir löngu.

„Við notum hluta af þeirri upptöku í laginu Lets keep dancing , en Harold er frá eyríkinu Trínidad og Tóbagó í Karíbahafi, þar sem Geraldine hafði verið að vinna hjá tímariti. Hún kynntist þar þessum ljósmyndara og tónlistarmanni og þegar við fundum kassettuna sáum við að Geraldine hafði merkt hana: My song, eins og hann hefði samið lagið til hennar. Af textanum má ráða að Geraldine hefur verið búin að brenna enn eina ástarbrú að baki sér, og ég ímyndaði mér að þetta væri þeirra síðasti dans og síðasta nótt saman. Harold ætlar ekki að láta hana gleyma sér, eða þannig varð alla vega mín útgáfa af þeirri sögu. Við vissum ekki hvort Harold væri á lífi en við leituðum hans í tvö ár, til að fá leyfi til að nota tónlistina hans. Hann sendi okkur tölvupóst tveimur árum seinna, fjórum dögum fyrir áttræðisafmælið sitt, og gaf sitt leyfi fúslega. Hann er mjög fagur maður, áttræður hönk.”

Emilíana segir að í bréfunum líti út fyrir að Geraldine hafi þekkt fleiri en einn njósnara.

„Margt bendir til að hún hafi á tímabili kannski starfað sjálf sem njósnari, til dæmis var orðrómur um að Reggie hefði verið njósnari, maðurinn sem var lengst í hennar lífi. Við komumst líka að því að maður sem kemur fram í einu bréfinu að hún hafi hitt, hann var einn af æðstu mönnum í leyniþjónustu Bandaríkjanna. Geraldine var líka ráðin sem ljósmyndari í Mið-Austurlöndum og fleira, þetta var alls konar spúkí kaldastríðsstúss. Geraldine hefur verið mjög dularfull kona og allir þessir menn elskuðu hana, bréfin eru stútfull af mikilli ástríðu. Fyrir mig er aðalatriðið að segja söguna eins og ég sé hana og upplifi.”

Mynd tekin á tveimur dögum

Þegar Emilíana var að semja tónlistina á plötunni um Miss Flower hitti hún Önnu Hildi Hildibrandsdóttur kvikmyndaframleiðanda ásamt kvikmyndagerðar-dúóinu Jane Pollard og Ian Forsyth, þeim sem gerðu kvikmyndina um Nick Cave, 20,000 Days on Earth .

„Ég sagði þeim frá því að ég væri að búa til tónlist út frá ástarbréfum sem nýlátin móðir vinkonu minnar hefði fengið fyrir margt löngu, og það kveikti strax í þeim. Úr varð að þau gerðu kvikmyndina The extraordinary Miss Flower, en þar eru öll lögin af nýju plötunni flutt. Þessi kvikmynd er blanda af performanslist, leikhúsi, heimildarmynd, sögu og tónlist. Leikarar og tónlistarmenn, meðal annars Nick Cave, lesa upp úr bréfum Geraldine og svo koma lögin í framhaldinu. Kvikmyndin er líka að hluta til fever dream , því ég fékk háan hita og varð mjög veik þegar ég átti að mæta í síðustu upptökurnar á plötunni til að syngja, en ég gat það auðvitað ekki. Aftur á móti gerðist alls konar áhugavert í þessu ástandi. Caroline Catz leikur Miss Flower, og í myndinni leik ég í senum á móti henni þar sem ég er að reyna að fá upp úr henni sannleikann, en hún getur ekki gefið neitt upp, því hún er draumur, fever dream . Við gerðum alla myndina á aðeins tveimur dögum, þetta var rosalegt fyrir mig, sem hef ekki leikið mikið áður og þau vildu líka að ég notaði spuna í leiknum. Svo var mér kannski allt í einu sagt að dansa. Þetta er mjög flott kvikmynd, ég er rosalega stolt af henni.”

Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is