Dauðinn. Tvær myndraðir af líki í landslagi vestursins í Ameríku. Magnús bregður sér í hlutverk Dauðans.
Dauðinn. Tvær myndraðir af líki í landslagi vestursins í Ameríku. Magnús bregður sér í hlutverk Dauðans.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Magnús Sigurðarson sýnir. Sýningin stendur til 21. júlí 2024. Opið miðvikudag til sunnudags frá kl. 12-18.

Í Kling og Bang í Marshallhúsinu stendur nú yfir sýning á verkum Magnúsar Sigurðarsonar. Sýningin, sem er titluð, „Óþægileg blæbrigði — Gleðisögur af Depurð og Dauða”, er innsetning ljósmynda þar sem listamanninum bregður fyrir í ólíku samhengi, auk eins rýmisverks sem gefur tóninn fyrir ljósmyndirnar. Verkin á sýningunni virðast vera lauslegar persónugervingar fyrirbæranna „Depurðar” og „Dauða”.

Í kynningartexta með sýningunni leggur Magnús áherslu á að verkið mótist af afstöðu sinni til Ameríku, þar sem hann hefur búið undanfarna áratugi. Hann segist standa sig „að því að verða landinu að bráð” þótt hann geti engan veginn samsamað sig landi og þjóð. Harmþrungin umgjörð sýningarinnar er því sett fram í því ljósi. Magnús hefur verið virkur listamaður á ferli sem spannar rúm þrjátíu ár. Hann hefur sýnt víða um Bandaríkin og snúið reglulega heim til Íslands með sýningar. List hans hefur gjarnan byggst á einskonar hálfkæringi við að varpa ljósi á álitamál samtímans, samfélag og neysluhyggju.

Verkin hafa oftar en ekki verði sviðsetningar ýkt framsettra gjörninga. Hér má rekja skyldleika á milli hans og annarra listamanna af sömu kynslóð, eins og Ragnars Kjartanssonar, Snorra Ásmundssonar, Erlings Klingenbergs og Söru Björnsdóttur. Þetta eru listamenn sem fjalla um alvarleg málefni, iðulega undir rós og á trúðslegan hátt. Verk þeirra verða því oftar en ekki grátbrosleg og eiginleg merking óskýr. Núverandi sýning Magnúsar er á þessum nótum, en óvenju hófstillt.

Þegar inn á sýninguna er komið blasir fyrst við rýmisverk. Á gólfið hefur verið stráð kúlum úr leir eða rauðamöl í bland við kvartskenndan sand sem tindrar á. Maskína úr plaströri upp undir lofti er hengt upp með snæri. Hægt er að ímynda sér að mölin og sandurinn hafi sáldrast úr rörinu niður á gólfið fyrir neðan. Hér er sköpuð óreiða við innganginn sem vísar í sendna náttúru verkanna fyrir innan.

Í ganginum fyrir innan eru þrjár myndir, innrammaðar, hengdar á veggina, allar af Magnúsi sjálfum. Tvær svarthvítar hanga saman og sýna listamanninn í kúrekaskóm og stuttbuxum. Í annarri þeirra setur hann skóinn í skópússunarvél, í hinni stendur hann úti á gresjunni ber að ofan með vísund í bakgrunni. Þriðja myndin er skærlit og sýnir Magnús sitjandi á jörðinni í appelsínugulu tjaldi. Fjórða myndin er á endaveggnum í salnum fyrir innan, af Magnúsi íklæddum íslenskri lopapeysu, í stuttbuxum og kúrekastígvélum, standandi á barmi Grand Canyon. Neðri hluti þeirrar myndar virðist skemmdur. Þessar fjórar myndir bera yfirbragð þess að vera fjölskyldumyndir teknar á ferðalagi. Þótt þær séu uppstilltar og allar með listamanninn í aðalhlutverki virka þær jafnframt eins og tilviljanakenndar fundnar myndir. Það er hægt að ímynda sér að Magnús hafi átt þær í fórum sínum frá fyrri tíð og ákveðið að draga þær fram og endurnýta. Þannig verða þær tákn um uppgötvun háns á náttúru Bandaríkjanna. Út frá samhengi sýningarinnar er Magnús hér, trúlega, í hlutverki Depurðar.

Á langveggnum í innsta sal gallerísins er meginverk sýningarinnar, tvær samfellur útprentaðra mynda, tólf til vinstri og sextán á hægri hönd. Myndirnar virðast teknar í eyðimerkurlandslagi í vesturhluta Bandaríkjanna, í nágrenni við heimili Magnúsar í Nýju-Mexíkó. Hér blasir við rauðgulur sandur, sölnaðar grasbreiður, vindsorfnir klettar og yfirgefin hús. Í tveimur myndanna birtist hreyfanlegt og kómískt skilti af kúreka í yfirstærð. Á öllum myndunum er Magnús sjálfur í forgrunni, liggjandi eins og liðið lík. Hér er hann holdgervingur Dauðans, hann sýnir sig verða Ameríku að bráð.

Þegar verkin eru skoðuð náið er eitthvað heillandi í þessu vonleysi og þessari tragíkómísku sýn á ástand mannsins og stöðu hans. Það er nöturleg sýn á ástand heimsins sem birtist hér í hálfkæringi og það er þar sem styrkur sýningarinnar liggur. Á sama tíma eru það vonbrigði að framsetning verkanna er helst til léttvæg. Fyrir vikið verður styrkur hugmyndarinnar því ekki sérlega áleitinn. Magnús hefur oft áður gert verk sem hafa meiri slagkraft og nýtt sér rými sýningarsalarins betur.

Myndlist
Hlynur Helgason

Höf.: Hlynur Helgason