Sigursæll. Jamil Abiad er nýráðinn þjálfari kvennaliðs Vals í körfuknattleik og aðstoðarþjálfari karlaliðsins.
Sigursæll. Jamil Abiad er nýráðinn þjálfari kvennaliðs Vals í körfuknattleik og aðstoðarþjálfari karlaliðsins.
Kanadamaðurinn Jamil Abiad var í maí ráðinn þjálfari kvennaliðs Vals í körfuknattleik. Abiad hefur verið aðstoðarþjálfari Finns Freys Stefánssonar hjá karlaliði Vals undanfarin tvö tímabil og samhliða því þjálfað yngri flokka og sinnt einstaklingsþjálfun á öllum aldri innan félagsins.

Kanadamaðurinn Jamil Abiad var í maí ráðinn þjálfari kvennaliðs Vals í körfuknattleik. Abiad hefur verið aðstoðarþjálfari Finns Freys Stefánssonar hjá karlaliði Vals undanfarin tvö tímabil og samhliða því þjálfað yngri flokka og sinnt einstaklingsþjálfun á öllum aldri innan félagsins.

„Ég er virkilega spenntur. Þetta er nýtt tækifæri og ég er spenntur fyrir því sem er fram undan. Það verður mikið um hæðir og lægðir í gegnum tímabilið en ég hlakka til að vaxa sem persóna.

Ég hlakka líka til að reyna að hjálpa þessum stelpum að komast vonandi á það stig sem þær vilja spila á og koma Val aftur á þann stað að vinna Íslandsmeistaratitilinn,” sagði Abiad, sem er 34 ára í dag, um nýja starfið.

Ásamt því að þjálfa kvennaliðið mun hann halda áfram sem aðstoðarþjálfari karlaliðsins og sinna einstaklingsþjálfun hjá Val.

Eftir að kvennaliðið stóð uppi sem Íslandsmeistari árið 2023 var síðasta tímabil mikil vonbrigði. Valur var í neðri hluta úrvalsdeildarinnar, vann neðri hlutann en féll svo úr leik í úrslitakeppninni strax í átta liða úrslitum gegn Njarðvík.

Erfitt að ná fram stöðugleika

Spurður hvað hann teldi að þyrfti að laga hjá liðinu fyrir næsta tímabil sagði Abiad:

„Margt fólk sem skoðar hlutina utan frá veit ekki hvað var í gangi innan frá. Liðið glímdi við mikið af meiðslum, sem hefur auðvitað mikið að segja, sérstaklega þegar um nokkra af lykilleikmönnum þínum er að ræða.

Svo komu til aðstæðurnar með erlendu leikmennina, þeim tókst ekki að festa þá í sessi á tímabilinu. Svo þegar þau náðu í erlendan leikmann var hann meiddur. Það var mikið um breytingar. Jafnvægið í leikmannahópnum beið hnekki þegar liðið missti leikmenn á miðju tímabili.

Það er erfitt að ná fram stöðugleika þegar svo er. Þegar næsta tímabil byrjar verðum við vonandi komin með megnið af kjarnanum aftur. Við erum að horfa til þess að bæta við nokkrum leikmönnum og vonandi haldast allir heilir.

Ég held að það sé einn mikilvægasti þátturinn í íþróttum. Lið sem er við sem besta heilsu á vanalega betri möguleika. Svo þurfum við að huga vel að þeim hlutum sem við getum stjórnað.

Taka vel á því í ræktinni, sinna aukaæfingum, næring. Það skiptir allt saman máli. Meiðslum getum við ekki stjórnað, slíkt gerist í íþróttum. Mín helsta ósk fyrir þetta tímabil er að leikmenn séu við góða heilsu. Sé það fyrir hendi þá kemur allt hitt með; liðsæfingar og annað sem þú reynir að koma á framfæri.”

Valsliðið er þegar farið að huga að því að styrkja sig fyrir næsta tímabil og bindur Abiad vonir við að einn til tveir bætist við.

„Við vonumst til þess að semja við einn íslenskan leikmann til viðbótar en svo erum við einnig að leitast við að bæta við einum Bosman-leikmanni. Við vonumst til þess að bæta við einum eða tveimur lykilleikmönnum til þess að styrkja hópinn,” sagði Abiad.

Hrifinn af evrópska módelinu

Hann hefur starfað á Íslandi undanfarin tvö ár. Blaðamanni lék forvitni á að vita hver upplifun Abiads hafi verið af því að vinna hér á landi.

„Ég kom hingað með þá nálgun að gera ekki ráð fyrir neinu eða vera með væntingar fyrir fram. Fólk sagði mér ýmislegt um Ísland en ég vildi koma hingað og sjá þetta sjálfur. Þá var ég í raun ekki með neinar væntingar í garð landsins sjálfs og ekki heldur hvað körfuboltann hérna varðar.

Núna þegar ég er að hefja mitt þriðja tímabil er ég mjög hrifinn. Þegar ég kom hingað fyrst var ég frá mér numinn þegar ég sá hversu góðar aðstæðurnar eru og hvernig hlutirnir ganga fyrir sig. Ég hef komið til annarra landa, hvort sem það er til að stýra æfingabúðum eða vera gestafyrirlesari, og mjög oft eru aðstæðurnar slæmar.

Hlutir eru ekki til staðar fyrir leikmenn og þróun þeirra eða íþróttina yfirhöfuð. Þegar ég kom hingað kom það mér mest á óvart hversu mikið er lagt í íþróttir hérna, ekki bara körfubolta. Það er líka mikið lagt í fótbolta, handbolta og margt annað.

Ég hef alltaf dáðst að evrópska módelinu, hvernig það leggur áherslu á félögin og uppeldisstarf þar sem krakkar fara upp yngri flokka. Til samanburðar í Norður-Ameríku geturðu ákveðið að stofna körfuboltalið og reynt að safna saman krökkum.

Það gerist oft og stundum enda þessir krakkar í frekar slæmum aðstæðum þar sem loforð eru svikin og hlutirnir gerast ekki. Þessir krakkar skipta reglulega um lið, ár eftir ár, og upplifa þá litla festu og ná ekki að þróast eða vaxa í leik sínum.

Á meðan alast krakkar upp hjá félagi í þessu evrópska módeli og þá geturðu fylgst með þeim í gegnum alla yngri flokkana og færð raunveruleg tækifæri til þess að vinna með þeim innan og utan vallar. Mér finnst sem það hjálpi rosalega mikið og líkar þessi nálgun mjög vel,” sagði hann.

Hægt að bæta í þegar kemur að þróun leikmanna

Hver er staðan á íslenskum körfubolta að þínu mati?

„Ég tel deildirnar, bæði karla og kvenna, svo sannarlega mjög samkeppnishæfar, mun samkeppnishæfari en ég hélt upphaflega. Auðvitað verða bestu liðin alltaf samkeppnishæfari en liðin í neðri hlutanum reyna sitt besta.

Hér, líkt og í öðrum löndum með atvinnumannadeildir, eru það liðin sem eru venjulega með fleiri góða íslenska leikmenn, kjarna af þeim, sem eiga besta möguleika. Liðið sem er með betri innlenda leikmenn á vanalega bestu möguleikana á að ná góðum árangri.

En ef ég lít til landslagsins í körfuboltanum eru miklir hæfileikar fyrir hendi. Ég tel að það sé hægt að bæta þróun leikmanna aðeins, sérstaklega hjá þeim yngstu, þannig að þau þrói grunnatriðin og færni fyrr og taki með sér upp flokkana.

Mér finnst margir frábærir þjálfarar hérna sem eru að gera stórkostlega hluti og hjálpa liðum að verða betri. En hvað taktík og þróun leikmanna varðar, sem mín sérfræðiþekking lýtur helst að, finnst mér hægt að bæta í. Það gildir um bæði karla og konur en ég tel karlaboltann kominn aðeins lengra á veg í þessu.

Ég tel einungis tímaspursmál hvenær við náum öðrum þjóðum í þessu. En ég er mjög hrifinn af deildinni. Ég er mjög hrifinn af því hvernig hlutirnir ganga fyrir sig, þetta er mjög skipulagt og fagmannlegt,” sagði Abiad.

Getur ekki horft á leikina

Hann telur mikil tækifæri til staðar til þess að auka áhuga á og um leið gæði í íslensku úrvalsdeildunum.

„Eitt sem ég get sagt sem aðili sem kemur utan frá og skoðar hlutina að innan er að ég tel deildina geta gert betur þegar kemur að samfélagsmiðlum og að fá fleiri til þess að horfa á hana.

Upphaflega kom það mér spánskt fyrir sjónir hversu mikið sjónvarpið stjórnar deildinni. Ef þú býrð í Kanada, Bandaríkjunum eða hvar sem er og vilt horfa á leikina geturðu það ekki. Það er virkilega erfitt.

Ef við horfum til þess hve hratt heimurinn fer og hve stórir samfélagsmiðlar eru hvað varðar sýnileika og aðdráttarafl þá væri það gott ef við værum með vettvang þar sem fólk alls staðar að getur horft á leikina á hverjum degi. Svo þegar komið er í úrslitakeppni væri hægt að bjóða upp á eins konar úrvalsþjónustu þar sem fólk getur borgað aðeins meira til að horfa á leikina.

Ef það er boðið upp á að geta streymt leikjum á daglegum grundvelli, hvort sem það er á YouTube eða annars staðar, færðu fleiri augu á deildina, sem býr til aukið aðdráttarafl, sem getur svo skilað fleiri styrktaraðilum sem deildin getur líka hagnast á.

Með því að auka sýnileikann er hægt að fá leikmenn í enn hærri gæðaflokki, auk þess sem leikmenn sem íhuguðu að fara eitthvað annað enda á því að halda líka kyrru fyrir vegna þess að kannski aukast tekjurnar í deildinni nægilega mikið til þess að það sé hægt að greiða þeim aðeins hærri laun.

Ég tel samfélagsmiðla vera risastóra í þessu og ef þeir eru notaðir almennilega held ég að það gæti skilað miklum ábata fyrir vöxt deildarinnar. Bara það að fleira fólk viti að það er atvinnumannadeild hér, deild sem er í raun og veru á fínu stigi og getur í reynd hjálpað leikmönnum með feril sinn og verið stökkpallur fyrir þá til þess að bæta leik sinn.

Ég tel að hér sé vettvangur fyrir frábæran grunn fyrir unga leikmenn sem eru að hefja feril sinn en einnig fyrir unga þjálfara. Þeir eru líka að leita eftir því að þróast og læra, taka ný skref á ferli sínum.

Ef ég tek dæmi af sjálfum mér þá hef ég lært svo mikið af Finni, sem er ein af geitunum (e. GOAT = bestur frá upphafi) í íslenskum körfubolta. Bara að vera með hann sér við hlið og læra af honum auk þess að varpa fram hugmyndum fram og til baka.”

Rétt farin að sjá hvað er hægt

Abiad er yfir sig hrifinn af árangri íslenskra landsliða undanfarin ár en telur enn mikið svigrúm til bætingar í þjálfun yngri leikmanna.

„Ef við horfum til landsliðanna þá standa þau þjóðum sem telja milljónir manna á sporði. Það segir mikið til um ávinninginn af því sem hefur verið lagt í íþróttir hérna, sem er ansi magnað.

Hvað mig sjálfan varðar hef ég verið virkilega hamingjusamur og sáttur við hvernig hlutirnir eru. Hvað körfuboltann varðar finnst mér sem við séum einungis rétt farin að sjá hvað er í raun veru hægt að gera fyrir og gefa mörgum þessara stráka og stelpna hér á landi.”

Gunnar Egill Daníelsson
gunnaregill@mbl.is