Eldskírn. Vilhjálmur Þ. Gíslason útvarpsstjóri ávarpar þjóðina í fyrstu sjónvarpsútsendingunni.
Eldskírn. Vilhjálmur Þ. Gíslason útvarpsstjóri ávarpar þjóðina í fyrstu sjónvarpsútsendingunni. — Morgunblaðið / Ólafur K. Magnússon
Íslenskt sjónvarp hóf göngu sína föstudaginn 30. september 1966. Reyndar höfðu örfáir sem bjuggu í nágrenni Vatnsendahæðar fengið for- smekkinn áður, þegar ein tilraunaútsendingin „laumaðist“ út öllum að óvörum við mikla hrifningu sjónvarpseigenda á áðurnefndu svæði, að því er frá var greint í Morgunblaðinu.

Íslenskt sjónvarp hóf göngu sína föstudaginn 30. september 1966. Reyndar höfðu örfáir sem bjuggu í nágrenni Vatnsendahæðar fengið for- smekkinn áður, þegar ein tilraunaútsendingin „laumaðist“ út öllum að óvörum við mikla hrifningu sjónvarpseigenda á áðurnefndu svæði, að því er frá var greint í Morgunblaðinu.

Þjóðin fylgdist að vonum spennt með þessari eldskírn og Morgunblaðið lét ekki sitt eftir liggja; fjallaði ítarlega um málið dagana í kring.

„Í kvöld kl. 8.00 stundvíslega hefur íslenzka sjónvarpið útsendingar sínar, að vísu aðeins í tilraunaskyni til að byrja með,“ stóð í frétt blaðsins sem lagði heila opnu undir umfjöllun sína þennan dag, auk ljósmyndar á forsíðu. „Verður sjónvarpað tvo daga fyrst um sinn, miðviku- og föstudaga, og þrjá tíma dag hvorn. Þegar fram líða stundir er svo áætlað af byrja af fullum krafti og sjónvarpa hvert kvöld vikunnar bæði innlendu og erlendu efni til skemmtunar og fróðleiks.“

Fram kom að Morgunblaðinu hefði dagana á undan gefist kostur á að fylgjast með „fæðingu“ íslensks sjónvarps, eins og það var orðað, verið við upptökur á ýmsum þáttum, og rabbað við starfsmenn sjónvarpsins.

Fyrsti maðurinn sem kom fram í íslenska sjónvarpinu var Vilhjálmur Þ. Gíslason, útvarpsstjóri, sem flutti fimm mínútna ávarp. Hann sagði meðal annars: „Það, sem hér fer fram, er sumt í þjónustu hversdagsins, sumt með hátíðabrag. Það, sem hér er sagt og sýnt, á að vera túlkun þess, sem sannast er vitað. Það á að auka útsýn um jörðina og nýjar veraldir, vera hvöt til betra lífs og glaðvær hvíld eftir erfiði dagsins. Það á að tengja þjóðir og einstaklinga í skilningi og friði, vera vettvangur heilbrigðra skoðanaskipta, leiksvið margra lista, verkstæði fjölbreyttra framkvæmda, staður stórra drauma.“

Að ávarpi sínu loknu kynnti Vilhjálmur fyrsta dagskrárliðinn, sem var „Blaðamannafundur“. Þar svaraði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra spurningum ritstjóranna, Andrésar Kristjánssonar og Ólafs Hannibalssonar. Stjórnandi þáttarins var Eiður Guðnason blaðamaður. „Mega menn eiga von á líflegum umræðum,“ sagði Morgunblaðið. Stjórnandi upptöku var Markús Örn Antonsson.

Mun vonandi venjast

Að þeim þætti loknum birtist fyrsta þulan á skjánum, Ása Finnsdóttir, en hún var valin úr hópi 14 stúlkna sem sóttu um starfið. Ása, sem vann sem flugfreyja hjá Loftleiðum, var býsna taugaspennt þegar Morgunblaðið hitti hana rétt fyrir stóra daginn.

„Þetta er þriðja æfingin, sem ég tek þátt í. Á fyrstu æfingunni var ég hræðilega taugaóstyrk, og hjartað barðist svo að ég hélt að það ætlaði að springa. Ég get ekki sagt að mér líði miklu betur núna, en ég vona að þetta eigi eftir að venjast, verði ég hér eitthvað til frambúðar. En það vegur upp á móti taugaspennunni að starfið er skemmtilegt, og vinnufélagarnir allir ákaflega hjálpsamir og indælir,“ sagði Ása. Næst á dagskrá var kvikmynd Osvaldar Knudsen um Íslendingabyggðir á Grænlandi til forna og því næst las Halldór Laxness úr sögu sinni Paradísarheimt, en sá þáttur nefndist „Í skáldatíma“. Þá var komið að skemmtiþætti Savannatríósins „Það er svo margt, ef að er gáð …“, þar sem þeir félagar sungu eingöngu íslensk alþýðu- og þjóðlög.

Af þessu tilefni tók tríóið vinsæla raunar krappa beygju, að því er þeir tjáðu Morgunblaðinu: „Við höfum hvílt okkur algjörlega frá þjóðlögunum frá því í marz sl., og það er varla hægt að segja, að við höfum sézt þann tíma. Ástæðan – við vorum bara orðnir þreyttir á þjóðlögum, og það er ekki víst að við hefðum byrjað aftur, ef sjónvarpið hefði ekki komið til sögunnar. Við höfum þegar undirbúið 6 þætti fram í tímann, og erum með eitthvað um 60 lög æfð, þar af 20 alveg ný á nálinni. Í næsta þætti okkar munum við fjalla um ástina. Þá erum við einnig með sex aðra þætti í deiglunni, og verða þar allt ný lög, bæði innlend og erlend.“

Merkilegur persónuleiki

Næst á eftir skemmtiþætti Savannatríósins var breski sakamálaþátturinn „Dýrðlingurinn“ (The Saint) og nefndist fyrsti þátturinn „Fyrirmyndar eiginmaður“. „Þáttur þessi er byggður á sögu Leslie Charteris, og segir þar frá einkalögreglumanninum Simon Templ- ar,“ sagði Morgunblaðið og birti með mynd af aðalleikaranum Roger Moore og Angelu Browne. „Simon þessi Templar er annars ákaflega merkilegur persónuleiki, því að hann er hvort tveggja í senn ógnvaldur undirheima Lundúnaborgar og ógnvaldur Scotland Yard, þar sem sú stofnun þjáist af mikilli minnimáttarkennd gagnvart Templar, sem er þeim miklu snjallari að hafa upp á glæpamönnum.“

Síðast á dagskránni var svo yfirlit frétta frá liðinni viku og var sá þáttur samansettur af fréttakvikmyndum erlendis frá. Dagskrárlok voru kl. 11.

Morgunblaðið fjallaði einnig um þætti sem til stóð á sýna á fyrstu dögum og vikum Sjónvarpsins; má þar nefna skemmtiþáttinn „Við erum ung“, sem helgaður var ungu fólki, eins og nafnið gefur til kynna, en í fyrsta þættinum áttu meðal annarra að koma fram vinsælar hljómsveitir eins og Dúmbó og Steini, Hljómar úr Keflavík og Stormar úr Vestmannaeyjum. „Er þátturinn að hluta tekinn upp í sjónvarpssal, og að hluta á filmum, sem hefur í för með sér að einnig er hægt að vera með í þættinum skemmtiefni frá ungu fólki utan að landi.“

Barnaþátt mátti að sjálfsögðu ekki vanta í íslenska sjónvarpið og Morgunblaðið hitti umsjónarmann hans, Hinrik Bjarnason kennara, að máli. „Barnaþátturinn, sem verður 40-50 mínútna þáttur, verður síðari hluta dags á sunnudögum, en þáttinn hef ég nefnt „Stundina okkar“. Í þátt þann reyni ég að finna sitt af hverju, sem hentar börnum og unglingum, og jafnframt mun ég eftir megni reyna að finna heppileg skemmtiatriði með börnum til þess að láta koma fram í honum.“

Morgunblaðið hélt áfram að fjalla um sjónvarpið daginn eftir og hafði þá á orði að fæstir gerðu sér í hugarlund hina óskaplegu vinnu sem starfsmenn sjónvarpsins hefðu lagt á sig í sambandi við stofnun sjónvarpsins. „Hópur manna hefur verið sendur á námskeið í Danmörku, Svíþjóð, Bretlandi og Bandaríkjunum til þess að kynna sér sjónvarpsfræði. Síðan hafa þessir menn komið heim og unnið ósleitilega að gerð innlends efnis og söfnun erlends efnis, gert tilraunir með útsendingar og þannig mætti lengi telja. Í stuttu máli – það hefur ekki verið horft í kostnaðinn, og það má minna á orð útvarpsstjóra á fundi með blaðamönnum: – Við munum leggja kapp á að vanda sem mest til dagskrárinnar þegar frá upphafi.“

Stór hluti á ensku

Rætt var við Steindór Hjörleifsson dagskrárstjóra í blaðinu þennan dag og lagði hann mikla áherslu á að vandað yrði til innlendrar dagskrárgerðar í Sjónvarpinu. Auk þess efnis sem þegar hefur verið nefnt má geta þáttar um myndlist í umsjá Gunnars Eyjólfssonar leikara og Björns Th. Björnssonar listfræðings. Þá sagði Steindór að efni utan að landi yrði gert hátt undir höfði.

Spurður um erlent efni svaraði Steindór: „Við höfum gert samninga við ýmsa erlenda seljendur um kaup á erlendu efni. Það eru líkur á því að það verði ein kvikmynd, sjónvarpsþáttur eða sjónvarpsleikrit í hvert kvöld, og verður stór hluti þessa efnis flutt á ensku. Við reynum þó að fá mótvægi við þessu mikla enskuflóði með því að sýna öðru hvoru franskar, ítalskar, tékkneskar eða pólskar myndir.“

Í herbergi frétta- og fræðsludeildar hitti blaðið að máli þremenningana Markús Örn Antonsson og Magnús Bjarnferðsson fréttamenn og Ólaf Ragnarsson, stjórnanda fréttaútsendinga sem þá voru raunar ekki hafnar.

„Það hefur verið ákveðið að fréttatíminn verði kl 20.00 á kvöldin, þegar sjónvarpið hefur að fullu hafið gang sinn, og verður fréttatíminn um 25 mínútur. Eru þá innifalin 5 mínútna þáttur um íþróttafréttir, sem verður daglega og í umsjá Sigurðar Sigurðssonar, og veðurfregnir. Innlendar og erlendar fréttir verða ekki aðskildar hjá okkur eins og víða annars staðar, heldur verður öllum fréttum raðað eftir fréttagildi,“ var haft eftir þeim.

Loks var rætt við Karl Jespersen útsendingarstjóra. Á honum var að skilja að undirbúningur hefði gengið vel en fyrir þessum útsendingum hefði þó þurft að hafa. „Ég er mjög ánægður með þetta starf, enda hefur það allt til þess að bera. Það er nýstárlegt, hefur í för með sér mikið taugastríð og er ábyrgðarmikið. En auðvitað er þetta fyrst og fremst „rútína“, sem kemur með tímanum, og þá getur maður farið að anda léttara.“

BAKSVIÐ
Orri Páll Ormarsson
orri@mbl.is