Helga Jóhannesdóttir fæddist 23. júlí 1929 í Reykjavík. Hún lést 22. júní 2024 á sjúkrahúsinu á Hvammstanga.

Foreldrar Helgu voru Jóhannes Ormsson, bóndi Hamarshjáleigu í Flóa, síðar verkamaður í Reykjavík f. 1893, d. 1981 og Sigurbjörg Helgadóttir, húsfreyja f. 1890, d. 1976. Systkini Helgu voru Anna, Sigurður Helgi, Pálína og Sigríður og eru þau öll látin.

Helga giftist Jóhannesi Björnssyni, bónda, kennara og skólastjóra 25. október 1958, f. 1. janúar 1930 að Þverá í Miðfirði. Börn þeirra eru 1) Hrafnhildur, f. 29.8. 1951, sem Helga átti áður með Hilmari B. Guðmundssyni, maki Gunnar Þorvarðarson, f. 1951. Börn þeirra eru Ægir Örn, Logi og Harpa. Börn Ægis eru Gunnar Trausti, Stefán Logi og Hrafnhildur Embla. Börn Loga eru Sara Björk, Logi Örn og Harpa Kristín. Börn Hörpu eru Terry Bernard og Þór Gunnar. 2) Reynir, f. 13.6. 1958. 3) Helgi, f. 31.12. 1961, maki Signý Þórðardóttir, f. 1961. Börn þeirra eru Konráð Atli og Hákon Örn. 4) Björn, f. 11.3.1963, maki Sigrún Halldórsdóttir, f. 1957. Barn þeirra er Bryndís Helga og börn hennar eru Hrafnhildur Hekla, Ynja Rán og Íris Emma. Börn Sigrúnar af fyrra hjónabandi eru Anna Lára og María Ögn. Börn Önnu Láru eru Júlía Ósk, Orri og Sigrún Vala. Börn Maríu Agnar eru Katla Björt og Hafrún Bríet. 5) Sigurbjörg, f. 3.5. 1968, maki Már Hermannsson, f. 1965. Börn þeirra eru Lóa Dís, Hannes Ingi og Ásdís Helga. Barn Hannesar Inga er Óliver Máni og barn Ásdísar Helgu er Þórhallur Már.

Helga ólst upp á Hamarshjáleigu í Flóa og lauk barnaskólaprófi frá Gaulverjabæjarskóla. Hún fluttist með foreldrum til Reykjavíkur 1944 og sótti Kvöldskóla KFUM 1946-1948. Hún sinnti ýmsum störfum í Reykjavík og vann m.a. í Sjóklæðagerðinni. Vorið 1955 gerðist hún kaupakona í Huppahlíð í Miðfirði. Þar kynntist hún Jóhannesi eftirlifandi eiginmanni. Þau bjuggu á Laugarbakka 1956-1957, en 1957-1958 á Sólgörðum í Fljótum þar sem Jóhannes var skólastjóri. Síðan settust þau að á Laugarbakka og byggðu sitt hús sem þau fluttu í árið 1970.

Helga var húsfreyja á barnmörgu heimili, sinnti uppvexti barna sinna, handavinnukennslu og matseld á heimavist skólans á Laugarbakka, en Jóhannes var þar skólastjóri. Heimili þeirra var gestkvæmt og erilsamt og var Helga oft með vinnuhópa í mat, t.d. bormenn við leit að heitu vatni, starfsmenn við skólabyggingu og sveitarstjórnarmenn í kringum störf Jóhannesar. Helga sinnti ýmsum störfum, barnapössun, á Saumastofunni Bakka og sá um bréfhirðingu á Laugarbakka í mörg ár. Árið 1976 keyptu þau hjónin jörðina Reynhóla og stunduðu þar búskap frá Laugarbakka til 2003.
Helga var mikil handavinnukona og eftir hana liggur mikið af alls konar handavinnu sem afkomendur nutu góðs af. Hún málaði myndir sér til dægrastyttingar og hafði gaman af ferðalögum. Helga var valin til setu á Þjóðfundi árið 2009. Helga var virk í félagsmálum innan sveitarinnar og tók virkan þátt í starfi Kvenfélagsins Iðju og var heiðursfélagi þess.


Jarðarförin fer fram frá Melstaðarkirkju í dag, 5. júlí 2024, klukkan 14.

Umhyggju og ástúð þína

okkur veittir hverja stund.

Ætíð gastu öðrum gefið

yl frá þinni hlýju lund.

Gáfur prýddu fagurt hjarta,

gleðin bjó í hreinni sál.

Í orði og verki að vera sannur

var þitt dýpsta hjartans mál.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Við leiðarlok mömmu hrannast upp minningar frá langri og farsælli ævi hennar. Það sem er sammerkt með þeim öllum er virðing og þakklæti fyrir þau gildi og framkomu sem einkenndu hana jafnt í leik og starfi. Jákvæðni, jafnlyndi, góðvild og réttsýni voru hennar aðalsmerki.

Hver minning er perla í lífi okkar. Við þökkum fyrir allt og allt.

Blessuð sé minning mömmu.

Hrafnhildur, Reynir, Helgi, Björn og Sigurbjörg (Bogga).

Elsku Helga amma.

Það er ótrúlegt að hugsa til þess að þú sért farin en eftir standa ótal margar minningar um þig. Þegar við systkinin vorum að skrifa niður þessa minningargrein rifjuðust upp hjá okkur ótal sögur og minningar úr æsku. Það sem var okkur öllum minnisstæðast var hvað heimili ykkar afa var okkar annað heimili þegar við vorum að alast upp. Allar heimsóknirnar til ykkar þar sem þú tókst alltaf á móti okkur með bros á vör, allar gistingarnar þar sem við fengum að velja hvað væri í matinn og svo auðvitað Royal-búðingur í eftirrétt. Þú varst alltaf svo brosmild og góð og vildir allt fyrir alla gera og við munum ávallt minnast þín á þann hátt.

Við allt viljum þakka amma mín,
indælu og blíðu faðmlög þín,
þú vafðir oss vina armi.
Hjá vanga þínum var frið að fá
þá féllu tárin af votri brá,
við brostum hjá þínum barmi.

Við kveðjum þig elsku amma mín,
í upphæðum blessuð sólin skín,
þar englar þér vaka yfir.
Með kærleika ert þú kvödd í dag,
því komið er undir sólarlag,
en minninga ljós þitt lifir.
(Halldór Jónsson)

Takk fyrir allt elsku amma.

Lóa Dís, Hannes Ingi og Ásdís Helga.