Jósefína Friðriksdóttir fæddist 5. maí 1942. Hún lést 25. júní 2024.

Útför Jósefínu fór fram 4. júlí 2024.

„Hún heitir Jósefína af því að hún er svo fín,” staðhæfði lítil stúlka á ganginum í Vallaskóla. Vissulega rétt. Steingerður nefndi einmitt boðin sem „Sláturfélagið” þáði hjá henni og minnti á dönsk kaffisamsæti; fallegur borðbúnaður, silfurskeiðar og eitthvað heimalagað ásamt öðru.
Jósí rak á tímabili litla antikverslun með hlutum sem komu frá Danmörku. Við komum stundum saman og fægðum silfur sem var í versluninni. Af því leiddi að félagsskapur þessi var nefndur „Silver-group”, til að tolla í tísku erlendra nafngifta sem þá tíðkuðust, rétt fyrir hrunið.
Jósí var mikill fuglavinur og átti um tíma lítinn hænsnakofa og útibúr í garði sínum. Hani prýddi þennan litla hóp og hét Ólafur og brúna hænan Dorrit.
Hún fæddi ýmsa fugla sem dvöldu í skógarjaðrinum við hliðina á húsinu hennar. Þangað bar hún í þá ýmislegt eftir smekk tegundarinnar. Hún lokkaði til sín hrafnana og þeir voru fljótir að þekkja húsið. Ekki var þó nógu gott er þeir fóru að mæta á húsþakið og hamast þar þegar dagsbirtan fór að koma fyrr með hækkandi sól.
Jósí sinnti líka BYKO-hrafninum svonefnda sem verpt hefur þar utan í versluninni og komið ungum til flugs. Brauð keypti hún handa fuglum í bakaríi, þá ekki síður handa smáfuglum en svartþrösturinn var hrafninum hæverskari og mætti á stéttina. Inniketti átti Jósí líka og þá varð að halda tegundum aðskildum.
Í þessum félagsskap fórum við í ferðir um landið; norður um Kjöl með Guðmundi á stóra bílnum, til Akureyrar, að Kolugili eða Reykjum á höfuðból Bobbu. Jósí bauð okkur, líka ásamt mökum, til Flateyjar í Ásgarð, einstaklega eftirminnilega ferð í 27 stiga hita, róið á báti og gengið um eyna.
Jósí var ákaflega pólitísk og hélt sig á vinstri vængnum. Þegar veikindin fóru að herja á hana í vor treysti hún sér ekki til að fara á kjörstað til að velja forseta. Henni til happs kom Hafdís félagi okkar því í kring að fulltrúi sýslumanns kæmi heim til hennar og því gat hún tekið þátt í valinu.
Jósí var sannur Skagfirðingur og mjög stolt af verkum Sigurðar bróður síns og Maríu konu hans í Kakalaskála.
Ákaflega fallegt málverk prýðir vegg í stofu Jósíar; Grettir og Illugi standa á ströndu Skagafjarðar og horfa til Drangeyjar.
Ég held að Jósí fari á þá strönd eilífðarinnar í skínandi skagfirskri sól.
Við Björg, Hafdís og Steingerður þökkum Jósí skemmtilegan tíma og sendum fjölskyldunni hennar innilegar samúðarkveðjur.

Þórdís Kristjánsdóttir.

Fátt er dýrmætara í lífinu en að eignast góða vini og þegar einn slíkur fellur frá verður veröldin fátækari. Okkur vinkonum í „spilaklúbbnum” hlotnaðist sá heiður að eignast vináttu Jósíar fyrir rúmum fjörutíu árum þegar hún gekk til liðs við okkur. Hún lagði sannarlega sitt til og gerði góðan félagsskap enn betri. Jósí er sú fyrsta úr hópnum sem yfirgefur þessa jarðvist og eftir sitjum við hnípnar en þó fyrst og fremst þakklátar fyrir öll árin sem við áttum saman. Við hittumst reglulega og spilum brids en með árunum hefur nærandi vinátta orðið mikilvægari en spilamennskan. Auðvitað er alltaf gaman að spila vel úr þeim spilum sem við fáum á hendi en mest um vert er þó í okkar huga að njóta gleði og samvista og spila með „hjartanu” eins og oft var viðkvæðið hjá þeim sem voru svo heppnar að „dragast” á móti Jósí.

Við spilum til skiptis á heimilum hver annarrar og komum því reglulega á fallega menningarheimilið hennar Jósíar. Þar var menning yfir og allt um kring bæði hvað varðar myndlist og bókmenntir en ekki síður andrúmsloftið sem einkenndi heimili hennar hvar sem hún bjó. Jósí og menning voru í okkar huga órjúfanleg heild og sú menning sem fylgdi henni bæði til orðs og æðis setti mikinn svip á allt hennar líf. Jósí var líka mikið náttúrubarn og hafði lag á að rækta garðinn sinn í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Flestar búum við á höfuðborgarsvæðinu. Jósí bjó hins vegar lengst af, eftir að hún gekk í spilaklúbbinn, á Selfossi og með árunum skapaðist sú hefð að spila hjá henni vor eða haust. Kannski vegna þess að sumum okkar óx í augum að keyra yfir Hellisheiðina í vetrarfærð. Jósí setti slíkt hins vegar sjaldan fyrir sig og til undantekninga heyrði að hún mætti ekki að austan yfir hávetur til að spila við okkur og njóta samvista og gleði. Eins og gengur í lífinu varð Jósí að takast á við ýmsar hindranir – nokkrar þess eðlis að sumir hefðu varla treyst sér til þess að yfirstíga þær. Jósí var hins vegar þeirrar gerðar að hún tókst af æðruleysi og hugrekki á við þær hindranir sem á vegi hennar urðu. Þar með er ekki sagt að hún hafi sætt sig við þær. Hún hafði hins vegar til að bera gáfur og innsæi til að horfast í augu við að lífinu fylgja bæðir sorgir og gleði, ljós og skuggar.

Við sendum innilegar samúðarkveðjur til Helgu, Sigga, Hrafnkels, Bergsteins, Þórhildar og annarra ættingja og vina um leið og við þökkum Jósí fyrir góðar og gefandi samverustundir sem munu lifa með okkur um ókomna tíð. Blessuð sé minning okkar kæru vinkonu Jósefínu Friðriksdóttur Hansen.

Berta Bragadóttir,
Bjarnheiður Kristín Guðmundsdóttir,
Elín Margrét Guðmundsdóttir,
Gullveig Teresa Sæmundsdóttir,
Helga Guðný Halldórsdóttir,
Hlín Helga Pálsdóttir,
Margrét Hrefna Sæmundsdóttir,
Marsibil Ólafsdóttir,
Sigríður Petra Friðriksdóttir,
Sigrún Aðalbjarnardóttir,
Sjöfn Guðmundsdóttir,
Þórunn Guðmundsdóttir.

Í dag kveðjum við góða og trausta vinkonu, okkar elskulegu Jósefínu. Góð vinátta er ómetanleg og við kveðjum hana með trega en líka þakklæti fyrir góðan vinskap. Fyrir tæplega 40 árum stofnuðum við nokkrar samstarfskonur í Ölduselsskóla ritunarklúbb. Markmið klúbbsins var að innleiða nýjar áherslur í íslenskukennslu. Við vorum allar kennarar og brunnum fyrir fagmennsku kennara og velferð nemenda og íslenskri tungu. Við ritunarkonur hittumst reglulega öll þessi ár. Við nutum þess að hittast og lögðum mikinn metnað í þær veitingar sem voru bornar fram hverju sinni. Fyrstu starfsárin fórum við yfir námskrár, kennslu og málefni sem voru efst á baugi hverju sinni. Jósefína sá um að skrifa fundargerðir með sinni fallegu rithönd í bókina sem var valin af smekkvísi sem einkenndi hana.
Jósefína var góður kennari og stjórnandi sem kunni að hlusta og var alltaf að skoða leiðir til að efla nemendur og samstarfsfólk. Hún var góðlynd, sem birtist meðal annars í hve umhugað henni var um þá sem minna máttu sín. Jósefína var ótrúlega fróð um staðhætti, bókmenntir og sögu landsins og var góður sögumaður. Ferð okkar ritunarkvenna í Flatey á óðalssetur fjölskyldunnar er ógleymanleg. Hún gekk með okkur um eyjuna, sagði sögur og við gistum í fallegu húsi. Þessi ferð er með ævintýraljóma sem við geymum í hjarta okkar er við kveðjum góða vinkonu.
Við þökkum Jósefínu fyrir samfylgdina og vottum Helgu og fjölskyldu okkar innilegustu samúð.

Auður Elín Ögmundsdóttir,
Anna Kristín Þórðardóttir,
Hildigunnur Þórsdóttir,
Magnea Ingólfsdóttir,
Margrét Erlendsdóttir,
Sigrún Ágústsdóttir,
Sigríður Heiða Bragadóttir.

Jarðneskt líf okkar mannanna barna er fallvalt og misjafnt hvað okkur er gefinn langur tími, þetta vitum við öll, en alltaf bregður manni jafn illa við, því það er sárt að sjá á eftir góðum kunningjum og vinum. Jósefínu kynntist ég best þegar við tókum höndum saman og gengum á svipuðum tíma til liðs við Félag eldri borgara á Selfossi og settumst við báðar mjög fljótlega í stjórnunarsætin þar, hún var ósérhlífin, þægileg að vinna með og eldklár. Eftir veru okkar í stjórninni sinnti hún mörgum störfum fyrir félagið, var í ýmsum nefndum og þar á meðal tók hún þátt í að kenna flóttafólki sem fékk aðsetur hér á Selfossi íslensku, en það var á vegum FEB Selfossi, og nú síðast sá hún um, ásamt Guðmundu vinkonu sinni, að félagar í fornbókmenntalestrinum fengju kaffi áður en tíminn byrjaði.

Jósefína var falleg, skemmtileg, vel gefin og gerð, hún var þroskuð sál með þægilega nærveru. Fótunum var kippt undan henni síðastliðið haust, þegar hún gekkst undir að því er virtist litla aðgerð sem reyndist vera illvígur sjúkdómur. Þessi fátæklegu orð mín eru þakklæti fyrir okkar samveru og góðu kynni. Ég kveð Jósefínu mína með söknuði og læt fylgja lítið ljóð eftir föður hennar, Friðrik Hansen:

Svona er gjörvöll saga vor.

Söngvar allir dvína.

Allt sem markar einhver spor

endar göngu sína.

Félag eldri borgara Selfossi þakkar henni félagsskapinn og vel unnin störf og sendir samúðarkveðjur til ættingja hennar og vina.

Sigríður J. Guðmundsdóttir (Sirrý Guðmunds).

Blása laufvindar
yfir lyngheiði
hægt og hljótt
bera ilm blóma
bera angan heys
bera þrá.

(Halldóra B. Björnsson)


Söngur og ljóðalestur óma fyrir eyru mér þegar mynd Jósefínu kemur í hugann, ódeig liðveislukona ef halda skyldi listaveislu, var upprunnin í firðinum fagra, fast við Tindastól, með traustar rætur fram við Glóðafeyki, átti glaðar stundir og eignaðist veganesti til ævigöngu undir Súlnatindi eins og við sem sóttum til MA á Akureyri, bjó lengst meðal Árnesinga, síðast við Selfoss þar sem hæfileikar hennar og lífsgleði nutu sín vel. En skjótt var hún hrifin frá vinum og samferðamönnum – báðum megin Heiðar, beggja vegna Kjalar. Örláta og snjalla konu kveð ég með öðru versi skáldkonunnar HBB:

Kemba haustvindar
heiðarbrúnir
fylgja él
fellur snælín
að fræi og rót
lifir líf.

Ingi Heiðmar Jónsson.

Ég kynntist Jósefínu haustið 1998 þegar ég keypti mér mitt fyrsta húsnæði. Ég var svo heppinn að kaupa mér parhús í Birkigrundinni á Selfossi, þar sem á móti mér bjuggu Jósefína og Guðmundur Bergsteinn Jóhannsson. Ég kem þarna, strákur á tvítugsaldrinum og kunni ekkert að eiga hús og hvað þá að þurfa að taka tillit til nágranna. En sambúðin við þau og svo Jósefínu eftir að Guðmundur deyr var ávallt með besta móti.
Samskiptin jukust eftir því sem árin liðu og ósjaldan sem hún bauð mér og öðrum nágrönnum í kaffi eða mat og við reyndum að borga henni til baka með því að aðstoða hana með ýmislegt sem hana vanhagaði um. Það var ósjaldan sem Jósefína var með eitthvert fólk hjá sér í kaffi enda var hún góð heim að sækja, var fróð um marga hluti og vel inni í hvað var í gangi í samfélaginu. Ekki var það bara mannfólkið sem kom til hennar í mat. Margir fuglar komu reglulega til hennar í von um að fá að borða og voru sumir svo heimavanir að þeir settust á grein fyrir utan eldhúsgluggann hennar og biðu þar eftir að fá eitthvert góðgæti. Hundurinn minn hann Tryggur var svo heppinn að ef hann tók eftir að dyrnar hjá Jósefínu stóðu opnar læddist hann inn og var honum alltaf vel tekið. „Ég stalst til þess að gefa Trygg smá harðfisk,” kallaði hún á mig eftir þessar heimsóknir hans.
Nánasta fjölskylda Jósefínu var ekki stór, en samheldin. Jósefína og Guðmundur eignuðust tvö börn, Sigurð Hrafn sem lést 2002 og Helgu Salbjörgu sem er gift Sigurði Torfa Guðmundssyni en þau eiga þrjú börn. Ég sá vel hvað þau voru náin fjölskylda. Oft komu þau og gistu hjá henni eða hún hjá þeim. Reglulega fóru þau saman í ferðir og oft til Flateyjar á Breiðafirði en ég var svo heppinn að fá að koma með þeim þangað í eitt skipti, það var ferð sem seint gleymist.
Það er mikil lukka að eiga góða granna. Við hérna í botnlanganum hennar i Birkigrundinni erum heppin að hafa haft hana sem nágranna en vinátta er á milli allra nágrannanna og samgangur og er það ekki sjálfgefið. Það verður söknuður að hafa hana ekki með okkur á næsta götugrilli.
Ég votta fjölskyldu hennar og vinum innilega samúð.

Alex Ægisson.