Brjánn Árni Bjarnason fæddist 8. júlí 1954. Hann lést 14. júní 2024.
Útför Brjáns fór fram 4. júlí 2024.

Mágur minn, Brjánn, er látinn eftir stutt en erfið veikindi.
Ég hitti Brján þegar ég kynntist Bolla bróður hans. Þeir bjuggu hvor í sinni íbúðinni hlið við hlið að heimili foreldra sinna þannig að samgangurinn var mikill. Þeir áttu ýmislegt sameiginlegt og fóru báðir í Versló og lásu svo læknisfræði.
Brjánn og Steinunn voru einstaklega samrýnd og samstiga hjón. Þau eignuðust dætur sínar, Unni og Elvu, og fluttu síðar til Bandaríkjanna um skeið til frekara náms þegar þær voru mjög ungar.
Brjánn var einstaklega þægilegur og traustur og hafði góða nærveru. Hægt var að ræða við hann um hvað sem var og þeir sem kynntust honum fundu fljótt hve traustur trúnaðarvinur hann var. Þannig var hann vel liðinn af samstarfsfólki og skjólstæðingum í störfum sínum sem geðlæknir.
Brjánn spilaði golf í fleiri ár og kynnti íþróttina fyrir okkur Bolla með golfhring sem stóð langt fram á nótt á bjartasta tíma sumarsins fyrir mörgum árum síðan. Seinna meir fórum við með þeim hjónum í fjölda golfferða erlendis og spiluðum einnig saman golfhringi á ýmsum völlum innanlands.
Annað áhugamál Brjáns var tónlist. Hann hafði gaman af því að grúska í tónlistinni í tölvunni og einnig var hann meðlimur í hljómsveit með nokkrum af kollegum sínum.
Hann hafði einnig gaman af matargerð og átti maður til að hitta Brján í hinum ýmsu matvöruverslunum þar sem hann var í leit að einhverju ákveðnu kryddi sem á þurfti að halda.
Þau hjónin hafa ætíð verið miklir dýravinir og ófáar dýrategundirnar sem dætur þeirra hafa átt í gegnum tíðina. Kvöldgönguferðir með hundana voru fastur liður hjá þeim Steinunni.
Efst í huga Brjáns var umhyggja fyrir fjölskyldu sinni og ekki síst velferð dætra sinna og fjölskyldna þeirra. Einnig fylgdist hann vel með sonum okkar Bolla og hafði t.d. undirbúið útskriftargjöf fyrir son okkar í tilefni útskriftar sem fór fram eftir andlát hans.
Brjáns verður sárt saknað. Stærstur er missir elsku Steinunnar sem hefur misst sinn lífsförunaut. Ég votta henni, Unni, Elvu og fjölskyldum þeirra mína dýpstu samúð. Jafnframt þakka ég Brjáni fyrir hlýjuna og elskulegheitin sem hann hefur sýnt mér og fjölskyldu minni í gegnum árin. Góður Guð geymi þig.

Ellen Flosadóttir.

Látinn er kær vinur og samstarfsmaður eftir stutta og snarpa baráttu við illvígan sjúkdóm.

Við Brjánn kynntumst árið 1988 þegar ég hóf sérnám í geðlækningum á geðdeild Landspítalans en Brjánn var þar fyrir í starfi. Með okkur tókst strax mjög náin vinátta sem aldrei bar nokkurn skugga á. Hann var einn traustasti vinur sem ég eignaðist á fullorðinsárum. Við náðum strax vel saman þrátt fyrir að vera ólíkir persónuleikar.

Brjánn var afar traustur, samviskusamur, nákvæmur og vandaði ávallt vel til verka. Eftir að Brjánn giftist konu sinni Steinunni mynduðu fjölskyldur okkar vináttutengsl. Í gegnum sérnámið í geðlækningum varð til vinaþríeyki sem samanstóð af okkur Brjáni ásamt Garðari Sigursteinssyni. Við þrír sóttum saman fræðslu og ráðstefnur á erlendri grundu, ásamt því að ganga til rjúpna. Við kölluðum okkur KGB. Árið 1993 hófum við Brjánn saman rekstur á læknastofu, fyrst í Uppsölum í Kringlunni, síðar á læknastöðinni Sogavegi.

Ég, sem var kominn yfir fertugt þegar við kynntumst, naut þess hve Brjánn hafði mikla kunnáttu í tæknimálum og tókst honum að koma mér yfir á tölvuöld.

Brjánn hafði mikla tónlistarhæfileika, lék á píanó og var í hljómsveit bæði á Landspítala og Reykjalundi þegar hann starfaði þar. Hann kom fyrst fram 12 ára gamall og spilaði á píanó í barnatíma sjónvarpsins hjá Rannveigu og Krumma. Heima fyrir hafði hann komið upp tónlistarstúdíói þar sem hann naut sín í frítímum. Brjánn var mikill fjölskyldumaður og sinnti vel börnum sínum, dætrunum Unni og Elvu og síðar barnabörnunum er þau bættust í hópinn. Einnig var hann mikill dýravinur og átti bæði hund og ketti.

Eftir að Brjánn hætti störfum sneri hann sér alfarið að byggingu sumarhúss austur á Skeiðum á landareign tengdaföður síns og leit mjög björtum augum til framtíðar. Í sveitinni sá hann fram á að geta notið ævikvöldsins með fjölskyldunni. Við Brjánn spiluðum saman golf í mörg ár ásamt fleiri félögum. Brjánn var ekki allra en tengdist náið þeim sem urðu vinir hans. Samviskusemi og heiðarleiki einkenndu hann í starfi og daglegu lífi.

Það er með miklum trega sem ég kveð minn góða vin.

Megi minning um góðan dreng sefa söknuð ykkar á erfiðum tímum elsku Steinunn, Unnur, Elva og fjölskyldur.

Kristófer Þorleifsson.

Kæri Brjánn.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,
hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,
og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Þú skilur eftir falleg spor í lífi margra.

Með söknuði kveðjum við einstakan samstarfsmann og kæran vin.

Af þakklæti geymum við allar góðu minningarnar.

Samhygð og hluttekning til fjölskyldunnar allrar.

Fyrir hönd samstarfsfólks í geðheilsuteymi Reykjalundar,

Ásgerður og Rósa.

Kær vinur og samstarfsfélagi er fallinn frá eftir snarpa baráttu við vágestinn mikla.
Eftir situr fjölskyldan í sorg og söknuði. Þau sjá á bak ástkærum eiginmanni, föður, tengdaföður, afa og bróður.
Okkur samstarfsfólkinu var unun að fylgjast með ótakmarkaðri væntumþykju og umhyggju hans fyrir sínum nánustu.
Við Brjánn áttum náið og gott samstarf til margra ára og úr varð vinskapur sem var mér mikils virði. Hann helgaði sig geðlækningum og var góður læknir. Hann var vel að sér í sínu fagi og einstaklega vandvirkur og samviskusamur, sem ég tel vera mikilvægustu eiginleika farsæls læknis.
Brjánn bar líka mikla umhyggju fyrir sjúklingum sínum. Hann naut sín vel í samvinnu innan þverfaglegs teymis, svo aldrei bar skugga á samskipti eða samstarf hans við nokkurn mann. Hann var laus við að hafa sig og sín sjónarmið í frammi og allir fengu að njóta sín. Sú hugsun kom ósjaldan upp í hugann að það hlyti að vera leitun að öðru eins gæðateymi og þar átti hann stóran hlut.
Hann var fastur fyrir þegar gæta þurfti hagsmuna skjólstæðinganna í kerfi þar sem setja þurfti einkum tímaramma um þjónustuna. Í því sambandi er minnisstætt hvernig hann lét ekkert aftra sér við leitina að árangurríkustu meðferðinni, sem getur verið snúið innan geðlækninga. En auðvitað var niðurstaðan jákvæð fyrir alla þegar upp var staðið.
Hann hafði hlýja og þægilega nærveru, hafði góðan húmor og var léttur í lund og glettinn. Hann var einstaklega orðvar og orðheldinn. Í góðra vina hópi lék hann á als oddi, alltumvefjandi með hlýju, léttleika og ómældri gestrisni, þegar það átti við.
Áhugamálin utan fjölskyldunnar voru einkum tónlist og golf. Undanfarna mánuði hafði hann unnið í að koma upp sælureit fyrir fjölskylduna og horfði fram á gæðastundir með sínum kærustu, en líka með sjálfum sér og tónlistargræjunum. Hann var nefnilega græjukarl og jafnvel hægt að kalla hann félagslyndan einfara.
Síðustu árin komu starfslok okkar alloft til umræðu. Þegar hann sagði mér frá þeirri alvarlegu greiningu sem hann hafði fengið var hann feginn að hafa hætt á þeim tíma sem hann gerði. En baráttan við sjúkdóminn var mjög hörð og tíminn sem hann fékk var sorglega skammur.
Með væntumþykju og söknuði vil ég þakka Brjáni vináttuna auk góðra samverustunda og náinnar samvinnu í áraraðir. Missir nánustu fjölskyldu er mikill og eiga þau öll innilega samúð mína, hans kæra Steinunn, dæturnar Unnur og Elva, Bolli bróðir og fjölskyldur þeirra.
Far vel kæri vinur.

Valgerður.