Helgi Hallgrímur Jónsson fæddist 17. september 1957. Hann lést 19. maí 2024.

Helgi var jarðsunginn 4. júlí 2024.

Helgi tengdasonur okkar kom inn í fjölskylduna um jólin 1979, eftir að hann og dóttir okkar Guðrún Vigdís höfðu kynnst á Borgarfirði eystri þá um sumarið.
Þau Guðrún og Helgi bjuggu á Borgarfirði árin 1980 til 1984, en fluttu svo suður í Kópavog þá um haustið. Helgi hóf á þeim tíma nám í vélvirkjun við Iðnskólann í Reykjavík og var á námssamningi hjá Kassagerð Reykjavíkur, undir handleiðslu tengdaföður síns. Helgi útskrifaðist sem vélvirki vorið 1988 og starfaði eftir það í vélsmiðju Kassagerðarinnar og síðar hjá Prentsmiðjunni Odda, Prentmeti og Vélaborg.
Helgi var alla tíð traustur drengur og bóngóður þegar aðstoð vantaði við eitt og annað, hvort sem um var að ræða bílaviðgerðir, flísalagnir, málningarvinnu eða nánast hvað sem leysa þurfti hverju sinni.
Þau Guðrún og Helgi dvöldu flest sumur á æskuheimili Helga, Laufási. Gestkvæmt var iðulega hjá þeim hjónum í Laufási þegar þau dvöldust þar og eigum við hjónin margar góðar minningar frá þeim tíma.
Mér er minnisstætt þegar Helgi kom í mat til okkar hjóna í fyrsta sinn, en Helgi var alla tíð nokkur matmaður, nema hvað laukur átti ekki upp á pallborðið hjá honum. Eftir að hafa horft á tengdamóður sína skera niður vel á annað kíló af lauk í gúllas sem hún var að elda varð honum að orði: „Við Guðrún vorum búin að ákveða að fara út að borða í kvöld.”
Helgi var meðlimur í Kiwanisklúbbnum Eldey í Kópavogi frá 1995 og sinnti ýmsum störfum innan hans allt til dauðadags.
Það er skarð fyrir skildi við fráfall Helga, sem kvaddi þessa jarðvist alltof fljótt. Við kveðjum þennan góða dreng með þakklæti fyrir allar þær fallegu minningar sem við eigum um góð kynni.
Við sendum fjölskyldunni, börnum og barnabörnum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Jón Sigurðsson og Hanna Ósk Jónsdóttir.

Látinn er góður vinur okkar, Helgi H. Jónsson, eftir stutt veikindi. Helgi var mikill sómamaður, traustur þúsundþjalasmiður. Við erum ekki viss um að hann hefði viljað að það væri skrifuð um hann minningargrein að honum látnum, en gerum það samt.

Kynni okkar Helga hófust þegar Guðni sonur okkar og Hanna Ósk dóttir Helga kynntust. Okkur varð ljóst að Helgi var stoð og stytta við að hjálpa þeim að standsetja íbúð sem þau höfðu keypt sér. Það lék allt í höndunum á honum. Hann var útsjónarsamur og lausnamiðaður við að aðstoða unga fólkið að koma sér upp heimili. Seinna kynntumst við Helga enn betur þegar hann hjálpaði okkur við að endurnýja okkar eigið heimili. Þetta var mikið verkefni og þáttur Helga var mikill að láta þetta takast hagkvæmt og vel.

Helgi var menntaður vélvirki og vann alla tíð við sitt fag. Hann var vel liðinn til vinnu, samviskusamur og traustur. Helgi hafði afskaplega góða nærveru og var ekki margorður en léttur og hafði góðan húmor. Honum fannst best að vinna einn og hann var vel tækjum búinn. Það var alveg sama hvort það var múrverk, smíðar, pípulagnir eða bílaviðgerðir – allt lék þetta í höndum á honum.

Helgi var ættaður frá Borgarfirði eystri og átti þar sterkar rætur. Þar dvaldi hann ásamt fjölskyldunni mikið yfir sumartímann, þar sem öllum leið vel og eiga þaðan góðar minningar. Helga var annt um fjölskylduna sína og barnabörnin hændust að honum. Það var skemmtilegt þegar Helgi Már, sameiginlegi afastrákurinn okkar, sagði sem lítill að hann væri að vesenast úti í skúr með afa. Daginn fyrir andlátið fékk Helgi svo að hitta yngri dótturson sinn, Heiðar Má, eftir langan aðskilnað og áttu þeir fallega stund saman.

Það er eftirminnilegt þegar Helgi bauð okkur í stundum í samkvæmi hjá Kassagerðinni. Þá sá hann um að aka þeim sem hann bauð svo allir skemmtu sér vel. Þetta var dæmigerður Helgi að hugsa alltaf um aðra.

Það var notalegt að við gátum hitt Helga viku áður en hann lést. Þótt hann væri orðinn mjög veikur þá gat hann rætt um stöðina sem hann var kominn í af hispursleysi og vissi í hvað stefndi. Þannig gaf hann okkur mikinn styrk og það var létt fyrir alla að ræða stöðuna eins og hún var. Englum himins hefur bæst góður liðsauki. Blessuð sé minning Helga H. Jónssonar.

Ásbjörn Björnsson og Kristín Guðnadóttir.