Sr. Lárus Þorvaldur Guðmundsson fæddist 16. maí 1933. Hann lést 4. júní 2024.

Útför Lárusar fór fram 28. júní 2024.

Séra Lárus hefur nú lokið lífsgöngu sinni. Hún varð löng og lengst af gekk við hlið hans hún Systa, Sigurveig Georgsdóttir.

Við urðum nágrannar og hann minn prófastur eftir að ég kom á Ísafjörð. Við Auður komum oft til þeirra hjóna og nutum frábærrar gestrisni.

Sr. Lárus var nákvæmur embættismaður og virkur í hirðisstörfum sínum. Hann lét sig málefni byggðarinnar varða með ýmsum hætti. Hann var ætíð vel heima í fræðunum og mátti á heyra í prédikunum hans. Það kom m.a. fram í ræðu sem hann hélt þegar við Vestfirðingar héldum kristniboðsafmælishátíð á Patreksfirði 1984. Páll föðurbróðir minn heyrði og sagði að þessa ræðu þyrfti öll heimsbyggðin að heyra.

Sr. Lárus hafði ásamt sr. Bernharði Guðmundssyni þá í Súðavík efnt til sumarbúða í barnaskólanum í Holti fyrir börn af öllum Vestfjörðum. Það framtak var til mikillar fyrirmyndar og eiga margir sem komu sem börn í þær góðar minningar um það ævintýri.

Ég kynntist honum fyrst af afspurn meðan ég var enn við nám. Það voru vekjandi sögur af tækjaeign sr. Lárusar, sem urðu til þess að ég gerði mér við hentugt tækifæri ferð til hans að sjá sönnur á sögunum. Jú, allt stóð heima. Í hlaðinu stóð nýlegur Saab, að húsabaki var frambyggður GAZ, rússajeppi, og í geymsluhúsi var snjósleði og safn skíða. Ekki var nóg með þetta, heldur var þarna á ströndinni vegleg bryggja og hús utan á þar sem í reyndist geymdur hraðbátur hangandi í uglum og rafmagnshífing ofan og upp úr sjó. Það mátti sjá sem oft á sannaðist að sr. Lárusi voru allir vegir færir. Um tíma átti hann einnig hlut í flugvél.

Ég kveð þennan kollega og vin í virðingu og söknuði, sömuleiðis einnig Systu og votta börnum þeirra og fjölskyldu samúð okkar Auðar minnar.

Jakob Ágúst Hjálmarsson.

Að góðklerkinum síra Stefáni á Þingeyri Eggertssyni gengnum varð síra Lárus Þorvaldur Guðmundsson í Holti í Önundarfirði prófastur Ísafjarðarprófastsdæmis.

Stórmikil eftirsjá var að síra Stefáni, þessum sérstæða og skemmtilega manni, sem meðal annars hafði forgöngu um gerð flugvallar á Þingeyri, bjargaði með talstöð sinni áhöfn togara sem sökk, og sneri að gamni sínu íslenskum staðarnöfnum í erlend mál. Fagurhólsmýri varð þannig á dönsku Smukkerupsmose, Sauðárkrókur á ensku Sheepriverhook og Hnífsdalur Knife Valley.

Síra Lárus var ljúfmenni og einkar nákvæmur embættismaður. Gegndi hann prests- og prófastsstörfum af alúð og samviskusemi. Hann sat Holtsstað af reisn og hirtni, ræktaði æðarvarpið með mikilli hind og jók það til muna. Naut eftirmaður hans góðs af heldur en ekki. Síra Lárus var útilífs-, veiði- og íþróttamaður; gekk á skíðum, átti hesta, sömuleiðis vélsleða og hlut í flugvél. Hann kunni ekki að hræðast og fór allra sinna ferða án tillits til veðurs og færðar. Kátir piltar kölluðu sóknarprest sinn Lalla sport. Hann vildi öllum vel, var manna þýðastur í ávarpi og heilsaði gjarnan með orðunum „komdu fagnandi og blessaður”.

Utansveitarmenn voru á skemmtigöngu í Holtsodda. Þeir sáu mann, sem snertispöl frá landi reri gúmbáti hljóðlátum áratogum, íklæddur felubúningi og vopnaður. Hér var prófastur á ferð, sívökull og óþreytandi gæslumaður æðarvarpsins og svarinn andstæðingur vargs. Fullyrt var, að hann hefði helst viljað útrýma með öllu tegundinni hrafn (corvus corax).

Haldinn var prestafundur á Hrafnseyri. Þetta var einn þeirra daga, þegar Skaparinn hefur dregið þráðbeina línu neðan við brúnir fjallanna, en fyrir ofan hana er sólbjört fönnin. Síra Lárus hringdi upp nágrannapresta tvo og bauð þeim að koma við í Holti hjá þeim frú Sigurveigu á leiðinni vestur. Þekktust þeir það, gengu í bæinn og var bugað að þeim höfðinglega, enda gestrisni alla stund viðbrugðið á heimili þeirra hjóna. Frú Sigurveig var hjúkrunarkona héraðsins, mjög vel látin og að verðleikum, því að hún var stórvel gefin og eftir því eljusöm.

Síra Lárus spurði þá starfsbræður, hvort heldur þeir vildu aka eða fljúga yfir í Arnarfjörð. Þeir kusu seinni kostinn, svo síður spyrðist, að þeir væru flughræddir. Síra Lárus hringdi til góðbónda, sem kom að vörmu spori. Settust fjórir upp í vélina og skiptust þeir í framsætunum á orðum, sem flugmönnum byrjar, og prestunum í aftursætunum heyrðist vera útlenska. Ferðin var flugtak og lending. Leið svo fundurinn af. Bóndi kom fljúgandi að Eyri, sótti kennimennina og var svo lent á flugvellinum í Holti, gengið í bæinn og þeginn rausnarlegur beini. Þetta var góður dagur, sem minnst hefur verið æ síðan.

Vel hélt síra Lárus atgervi sínu þótt árin færðust yfir. Prestur í Reykjavík auglýsti messu. Ekki varð þó af því að hann fengi framið þjónustuna sökum heimsfaraldursins. En gljáfægðri bifreið af gerðinni Mercedes Benz var rennt í stæði við kirkjuna, og út steig prúðbúinn maður, í svörtum, skósíðum frakka, með hatt og leðurhanska: Síra Lárus, rétt að verða níræður, hér kominn að sækja kirkju.

Guð huggi og styrki ástvini öðlingsins síra Lárusar Þorvaldar Guðmundssonar. Guð blessi minningu góðs drengs og ógleymanlegs embættisbróður.

Gunnar Björnsson, pastor emeritus.

Sr. Lárus hefur nú kvatt heiminn, síðastur sinnar kynslóðar. Hann og Systa, blessuð sé minning hennar, voru æskuvinir foreldra minna, Jens og Elínbjargar, og lengi samgangur á milli fjölskyldna okkar. Lárus og pabbi voru strákar á Ísfirði, báðir skátar og skíðuðu á veturna í brekkunni fyrir ofan bæinn, Stórurð, eins og hún var víst kölluð. Þegar stríðinu lauk voru þeir 12 ára og með mikla tækjadellu, a.m.k. átti pabbi snemma bíl og mótorhjól, þótt aldrei næði hann jafn langt og sr. Lárus á þessu sviði. Vestfirðingar báðir í húð og hár, afkomendur Jóns „hrekks” Einarssonar og Guðrúnar Jónsdóttur húsfreyju í Æðey um miðbik 18. aldar. Konunum sínum kynntust þeir, þegar þær voru hjúkrunarnemar í starfsnámi á Sjúkrahúsi Ísafjarðar 1952. Þær voru bernskuvinkonur úr Reykjavík og afar samrýndar, fóru saman í Kvennaskólann og síðar í hjúkrun. Tengslin voru gömul á milli fjölskyldna þeirra. Sigurveig gamla, móðuramma Systu, gat til að mynda sagt Elínbjörgu frá óræðum endalokum ömmusystur hennar, Sigríðar, sem var stofustúlka hjá Schierbeck landlækni, þegar hún hvarf af heimilinu 20. júní 1887. Runólfur, langafi Systu, gekk fjörur með öðrum og fann Sigríði látna í Eiðsvík. Til eru myndir af fjölskyldunum saman í dagsferð uppi í Borgarfirði sumarið 1950. Þegar ég og bræður mínir tveir, Heimir og Árni, uxum úr grasi voru Georg, Ragnheiður og Özur hálfgerð frændsystkini okkar, jafnvel eftir flutninginn vestur 1963. Við heimsóttum þau við hvert tækifæri, og þau okkur. En hamingjan átti heima í Holti í Önundarfirði, og hefur Ragnheiður lýst þeim ævintýrastað í ljóðum sínum.

Á unglingsárunum bjó Árni bróðir þar um tíma, og þegar Georg byrjaði í MS bjó hann stutt hjá okkur á Laufásveginum, þar til við tveir leigðum herbergið á Bárugötunni, þar sem Georg gamli hafði búið, faðir Systu, en hann var þá nýlátinn. Einnig ég var um tíma við sjómennsku og fleira á Flateyri undir verndarvæng sr. Lárusar og Systu. Ég á hinar hlýjustu minningar um þau.

Sr. Lárus var lífsglaður maður og skarpur, það var alltaf gaman að heyra hann tala um fólk og fyrirbæri. Stundum treysti hann mér fyrir verkefnum, svo ég kom af fundi hans með sjálfstraustið í toppi. Þó gat hann verið strangur, ef hann skynjaði hjá mér einhver ómerkilegheit, t.d. þegar ég hafði lofað að hjálpa til við að mála húsið, sem ég gisti í hjá ekkju einni á Flateyri, en frestaði úr hófi að byrja á því, eða þegar ég skipti klaufalega um gír á rússajeppanum, sem hann hafði haft fyrir að endurnýja gírkassann á. Og ekki reyndi hann að tala mig ofan af því, þegar ég vildi gefa skýrslu um lögregluofbeldi, sem ég hafði orðið vitni að eftir ball á Flateyri, og þó var það nokkuð sem gat hæglega valdið honum erfiðleikum. Dómgreind unglingsins, mín, fékk að ráða.

Ég mun ávallt hugsa með hlýju og þakklæti til sr. Lárusar og ég votta Georg, Ragnheiði, Özuri og fjölskyldum þeirra innilega samúð mína.

Gottskálk.