Dagbjört Kristjánsdóttir fæddist 23. janúar 1933. Hún lést 22. júní 2024.

Foreldrar hennar voru Antonía Árnadóttir, f. 19. september 1900, frá Hnaukum í Álftafirði, og Kristján Jónsson, f. 27. september 1901 á Fáskrúðsfirði.

Kristján og Antonía bjuggu á Djúpavogi og ólu upp sín börn í Görðum.

Systkini Dagbjartar: Ragnar Sigurður, f. 28. október 1923, d. 1984; Ingólfur Gunnar, f. 15. desember 1927, d. 2014; Laufey, f. 20. maí 1931, d. 2015; Arnór Magnús, f. 21. ágúst 1942.

Dagbjört fæddist í Görðum á Djúpavogi og ólst þar upp í fjörugum systkinahópi til 14 ára aldurs en þá hélt hún til náms til Reykjavíkur.

Hún fór í Gagnfræðaskóla Vesturbæjar og þaðan í Verslunarskólann og lauk verslunarprófi vorið 1953. Hún vann fyrir sér sem skrifstofudama, m.a. á lögfræðiskrifstofu Magnúsar Thorlacius, á Landsímanum, á Alþýðublaðinu og á endurskoðunarskrifstofu við Tjarnargötu.

Hún giftist Inga B. Ársælssyni fulltrúa 1954 og eignaðist með honum tvær dætur: Rós, f. 1953, og Ingibjörgu, f. 1957. Rós á tvær dætur: Unni Björt Friðþjófsdóttur, f. 11. júní 1974, og Rakel Evu Rósardóttur, f. 27. september 1997. Börn Ingibjargar eru Anna Birta Tryggvadóttir, f. 23. apríl 1985, Sindri Emmanúel Antonsson, f. 8. júní 1989, Katerina Inga Antonsdóttir, f. 6. júní 1991, og Nína Dagrún Hermannsdóttir, f. 28. ágúst 1996.

Ingi og Dagbjört skildu árið 1968.

Dagbjört fór í Kennaraskólann og útskrifaðist þaðan 1969 og kenndi lengst af við Árbæjarskóla í Reykjavík. Einnig fór hún út á land og kenndi við Alþýðuskólann á Eiðum og Héraðsskólann á Laugum og síðast við Hafralækjarskóla í Aðaldal. Dagbjört var í sambúð með Karli Sveinssyni frá 1977 til 1985, þau slitu samvistir.

Dagbjört var alla tíð afar námfús og hafði yndi af lestri bókmennta og voru ljóð í miklu uppáhaldi hjá henni. Hún nam við Öldungadeild MH meðfram vinnu og Dagbjört hafði yndi af ferðalögum bæði innanlands og utan og ferðaðist víða, fór m.a. til Miðjarðarhafsins með skemmtiferðaskipi um Evrópu og suður til Marokkó og fór einnig í námsferðir með samkennurum og í skólaferðir með nemendum til Norðurlanda og dvaldi einnig í nokkra vetur í Aþenu og passaði þar barnabörn. Síðustu skipulögðu ferð sína fór hún til Írans þegar hún var orðin áttræð. Eftir að hún fór á eftirlaun flutti hún aftur á Djúpavog og dvaldi þar í 10 ár, síðan bjó hún hjá dætrum sínum, fyrst í Borgarnesi, þá í Hveragerði og síðast í Þykkvabæ. Dagbjört dvaldi síðast á dvalarheimilinu á Lundi á Hellu og andaðist þar.

Dagbjört lætur eftir sig tvær dætur, sex barnabörn og sjö barnabarnabörn.

Kveðjuathöfn verður haldin í Hveragerðiskirkju í dag, 5. júlí 2024, og bálför verður frá Þykkvabæjarkirkju 8. júlí 2024.

Dagbjört Kristjánsdóttir er ein af eftirminnilegustu konum sem ég hef kynnst. Ljósa stuttklippta hárið, sem hún greiddi svo skemmtilega, einkenndi hana og heimskonulegi fatastíllinn, en Dagbjört var alltaf svo smekklega klædd og dálítið óvenjuleg. Ég kynntist henni fyrst þegar ég var í menntaskóla og varð vinkona Ingibjargar (Ibbu), dóttur hennar. Þá var Dagbjört í öldungadeildinni og ég man hvað mér þótti gaman að sjá þær mæðgur hittast í skólanum. Þær gengu arm í arm eins og vinkonur um gangana og var Ibba alltaf svo stolt af mömmu sinni. Við vinkonurnar höfum verið samferða í gegnum lífið og var Dagbjört alltaf nálæg með sinn óviðjafnanlega húmor, en þær mæðgur voru einstaklega samrýndar. Hún fór með Ibbu bæði til Grikklands og Bretlands til að passa barnabörnin og nýta tækifærið til að kynnast nýrri menningu og siðum. Hún umgekkst barnabörnin á skemmtilegan hátt og fannst þau svo óskaplega fyndin og skemmtileg. Hún talaði við þau eins og fullorðið fólk og gaf þeim endalausan tíma. Þau voru samrýmd henni og hefur hún örugglega haft mikil áhrif á þau. Dagbjört hafði einstakt vald á íslenskri tungu, talaði fallegt mál, hægt og yfirvegað og var aldrei með neitt fjas eða málalengingar. Hún brá oft fyrir sig skemmtilegum orðum og óvenjulegum orðatiltækjum. Hún kallaði dekurköttinn sinn til dæmis Hjartaljúf og laðaðist hann ekki að neinum nema henni.

Þegar Dagbjört bjó í Hveragerði hjá Ibbu hitti ég hana oft, þar undi hún hag sínum vel og var sátt við lífið. Hún hitti barnabörnin sín og barnabarnabörnin og tók virkan þátt í heimilislífinu. Dekraði við köttinn Hjartaljúf og hundinn Bassa, hlustaði á hljóðbækur og horfði á bíómyndir sem barnabörnin fundu fyrir hana. Í nokkur ár fór Dagbjört í dægradvöl á Dvalarási þar sem hún eignaðist vini og leið vel. Það eru forréttindi að hafa kynnst Dagbjörtu og oft hugsa ég til hennar og kostulegra tilsvara hennar.

Við fjölskyldan í Laugaskarði sendum dætrum hennar og öllum afkomendum innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Dagbjartar Kristjánsdóttur.

Erna Ingvarsdóttir.

Elsku Dabba er farin, á nítugasta og öðru aldursári. Ég sá hana síðast í fyrrahaust á níutíu og fimm ára afmæli Sambands sunnlenskra kvenna, þangað sem mér hafði verið boðið til að halda svolitla tölu um myndhöggvarann Nínu Sæmundsson. Mikið sem faðmurinn hennar Döbbu var hlýr og orðin hennar mild og kærleiksrík, eins og ævinlega. Þótt líkaminn væri þreyttur var andi hennar ferskur. Í bernsku minni var hún uppspretta hláturs og gleði þegar hún var í heimsókn hjá móður minni og ömmu. Þær sátu í molasopa við eldhúsborðið og það ljómaði allt af fjöri. Svo voru alvarlegri mál einnig rædd, lágum dramatískum rómi, kolli kinkað í þögn, tár þurrkað úr hvarmi – og svo var aftur hlegið, þessum einstaka dillandi Döbbu-hlátri, svo fullum af mildi og kærleika. Það var fyrir hennar tilstilli að ég komst að í sveit, tíu ára gamall, í Litlu-Hlíð á Barðaströnd, hjá því úrvalsfólki Jóhanni Þorsteinssyni og Kolbrúnu Friðþjófsdóttur, sem var vinkona Döbbu og skólasystir úr Kennaraskólanum. Þau fjögur sumur sem ég var þar í sveit heyrði ég Kolbrúnu pikka á ritvélina í stofunni seint á kvöldin, þegar margvíslegar annir húsmóðurinnar voru að baki: Hún var að þýða stórvirkið Þyrnifuglana, eftir Colleen McCullough, þá stórbrotnu ættar- og örlagasögu, en þýðing Kolbrúnar kom út hér á landi árið 1981. Þegar ég hugsa nú til Döbbu og heimsókna hennar til móður minnar og ömmu, og til Kolbrúnar í Litlu-Hlíð, þessara sterku og merkilegu kvenna sem nú eru allar farnar héðan, þá finnst mér ég hafi, barn að aldri, fengið svolitla innsýn í stórbrotna ættar- og örlagasögu þeirra: Hvernig lífsþræðirnir eru spunnir og ofnir saman, hvernig þeir tengjast, hvernig þeir slitna, hvernig þeir mætast á nýjan leik. Hafandi verið annars hugar hlustandi á örlagasögur við eldhúsborðið, skemmtisögur yfir molasopanum og jafnvel aðeins heyrt hljómfallið, frekar en orðin sjálf, þegar hinir dramatískari þættir lífsins voru ræddir, þá lifir hinn sérstaki hljómur áfram í sálinni eins og tónlist við kvikmynd sem maður vill ekki að taki enda. Ég er þakklátur fyrir þau einstöku litbrigði sem Dabba lagði til í þessa sinfóníu kvenna við eldhúsborðið, og ég er þakklátur fyrir þá mildi og kærleika sem hún miðlaði ávallt í ríkum mæli yfir til mín. Elsku Rós og Ibba, ég samhryggist ykkur og ykkar börnum og barnabörnum innilega, en samfagna um leið frelsinu sem hún Dabba nýtur nú, í molasopa við eldhúsborð með litríkum vaxdúk, einhvers staðar þar sem hlátur og gleði ráða ríkjum, þar sem sólin hverfur aldrei undir sjóndeildarhring.

Friðrik Erlingsson.