Limra eftir Magnús Halldórsson á Boðnarmiði:

Limra eftir Magnús Halldórsson á Boðnarmiði:

Sauð átti vænan á velli,

Vilhjálmur bóndi á Felli.

Víni mjög háðir,

voru þeir báðir

og stóðu þar sterkir á svelli.

Limra eftir Kristján Karlsson:

„Komdu hvenær sem er,”

mælti kerling og „ég er hér.”

Því gat hún nú ekki

að ógleymdum trekki

alveg eins sagt ég er ber.

Sjóaramessa eftir Pál Jónasson í Hlíð:

Skarfurinn makráður messar

og múkkann og svartbakinn blessar,

í stóiskri ró

á steini útí sjó

því umhverfið ekkert hann stressar.

Bragi V. Bergmann skrifar: Sum matarboð eru fjörugri en önnur. En svo getur líka vel verið að þetta sé einungis spurning um hollustuna á matseðlinum. Hver veit?

Bráðum í fagnaðinn fer,

fjörið víst hömlulaust er!

Klæðnaður frjáls

frá tá upp í háls.

Mér skilst að við borðum þar ber.

Davíð Hjálmar yrkir limru um tíkina Týru:

Hún Týra var löt að leita

að lömbum og uppnefnd „Feita”

og ánum að smala

var ekki um að tala:

„Nei, fyrr skal ég hundur heita.”

Eitt sinn sem oftar reri Látra-Björg á sjó. Var þá fiskifátt. Á hún þá að hafa kveðið:

Sendi Drottinn mildur mér

minn á öngul valinn

flyðru þá sem falleg er

fyrir sporðinn alin.

Er sagt, að von bráðar drægi hún væna flyðru.

Þorsteinn Magnússon í Gilhaga kvað:

Margan hendir manninn hér

meðan lífs er taflið þreytt

að hampa því sem ekkert er

og aldrei hefur verið neitt.

Um Hegranes í Skagafirði var kveðið:

Hegranes er herleg sveit,

hlaðin með græna skóga.

Sjá má þar í svörtum reit

sauðaþjófa nóga.

Halldór Blöndal (halldorblondal@simnet.is)