Yndislestur Draugaslóð gæti verið góð til aflestrar.
Yndislestur Draugaslóð gæti verið góð til aflestrar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lesskilningi hrakar sífellt og botninum er ekki náð“. Ástæðurnar fyrir þessum dapurlegu staðreyndum eru margar. Hlutverk kennarans hefur breyst og til dæmis fer mikil orka hans og tími í hvers kyns skriffinnsku, sálgæslu og fundafargan

Tungutak

Baldur Hafstað

hafstad.baldur@gmail.com

Lesskilningi hrakar sífellt og botninum er ekki náð“.

Ástæðurnar fyrir þessum dapurlegu staðreyndum eru margar. Hlutverk kennarans hefur breyst og til dæmis fer mikil orka hans og tími í hvers kyns skriffinnsku, sálgæslu og fundafargan. Og fjölgun nemenda af erlendum uppruna auðveldar honum ekki störfin. Við þetta bætist að undanfarin ár hafa skólayfirvöld komist upp með að fella niður samræmd próf í grunnskólum landsins; það kann ekki góðri lukku að stýra. – Og foreldrar fara „í ræktina“ eftir vinnudag þegar lestrarstund með börnunum hefði komið til greina.

Við þurfum að grípa til aðgerða strax. Auðvitað getum við ekki breytt öllu á svipstundu. En á ýmsu má byrja nánast fyrirvaralaust og án minnstu útgjalda.

Forráðamenn gætu farið að lesa fyrir börnin sín strax í kvöld, t.d. þjóðsöguna um djáknann á Myrká eða Valtý á grænni treyju. Ef textinn virðist þungur má alltaf einfalda hann örlítið um leið og lesið er, en jafnframt má hafa í huga að börn skilja meira en okkur grunar. Að loknum hverjum lestri gefst tilefni til umræðu og skýringa.

Í skólanum þyrfti upplestur fyrir börnin og unglingana að vera fastur og daglegur liður í stundaskrá. Við eigum marga yndislega rithöfunda sem hafa helgað sig skrifum fyrir börn og unglinga. Upp í hugann kemur Kristín Helga Gunnarsdóttir og sögur hennar Strandanornir (2003), Draugaslóð (2007) og Ríólítreglan (2011). Þann 17. júní síðastliðinn var í útvarpinu viðtal við Kristínu Helgu sem óhætt er að ráðleggja foreldrum að hlusta á, sjá eftirfarandi slóð: https://www.ruv.is/utvarp/spila/hvad-ertu-ad-lesa/35972/an1p2k. Það að heyra þessa konu tala um bækurnar sínar, þjóðsögurnar og listina að lesa og skrifa fyllir mann bjartsýni og eldmóði: stríðið er ekki tapað.

Skólavefurinn (skolavefurinn.is) er lítið fyrirtæki sem hefur útbúið hvers kyns námsefni fyrir grunn- og framhaldsskóla. Þar er nú boðið upp á nýjung sem mælst hefur vel fyrir: stuttar endursagnir úr Íslendingasögum. Þar er m.a. um að ræða a) Sex konur í Íslendingasögum (Hallgerði langbrók, Guðrúnu Ósvífursdóttur o.s.frv.); b) Laxdæla sögu í styttri gerð, og einnig c) söguna af Gretti sterka í einföldum búningi. Þarna geta börnin og unglingarnir sem sagt fengið að kynnast nokkrum af nafnkunnustu persónum Íslendingasagna. Með einföldum lesköflum af þessu tagi (ásamt verkefnum og leiðbeiningum) gæti kviknað brennandi áhugi á sagnaarfinum sem enst getur ævina á enda: Hefur Hallgerður notið sannmælis? Hvern elskaði Guðrún mest? Var eitthvað í ólagi með uppeldið á Gretti?

Hvetjum börnin okkar til að ganga jákvæð til skólans í haust og sýna kennurum virðingu; fáum þau til að vanda málfar sitt og rétta nýaðfluttum skólasystkinum hjálparhönd. Hlúum að sameiginlegum arfi og forðumst rof í íslenskri menningu.