Sven Widerberg
Sven Widerberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
NATO-fundurinn í Washington markar 75 ára sögulegan árangur og er til marks um stöðug tengsl og samstöðu bandalagsþjóðanna þvert á Atlantshafið.

Höfundar eru sendiherrar og sendifulltrúar NATO-ríkja á Íslandi.

Norður-Atlantshafssamningurinn frá 1949 hefst á þessum orðum:

Aðilar samnings þessa lýsa yfir að nýju tryggð sinni við markmið og meginreglur sáttmála Sameinuðu þjóðanna og ósk sinni um að lifa í friði við allar þjóðir og allar ríkisstjórnir. Þeir eru staðráðnir í því að varðveita frelsi þjóða sinna, sameiginlega arfleifð þeirra og menningu, er hvíla á meginreglum lýðræðis, einstaklingsfrelsi og lögum og rétti.

Þessi orð eiga enn við í dag, 75 árum síðar, og endurspegla tilgang þessa bandalags 32 þjóða.

Allt frá stofnun hefur bandalagið fylgt þessum meginreglum og staðið vörð um frið og öryggi á Evró-Atlantshafssvæðinu. Orð sáttmálans hafa staðið af sér miklar breytingar í alþjóðastjórnmálum, kalda stríðið og endalok þess og hryðjuverkaógnina. NATO hefur gegnt lykilhlutverki í ýmsum hættustjórnunaraðgerðum og verið drifkraftur lýðræðis og umbóta í Evrópu.

Stækkun NATO í kjölfar kalda stríðiðsins var eðlileg afleiðing þess að þjóðir vildu velja sínar eigin öryggisráðstafanir. Aðild Svíþjóðar og Finnlands að NATO er sögulegur áfangi og mikilvægt framlag til sameiginlegra varna og fælingarmáttar bandalagsins.

Í áratuganna rás hefur NATO þróast og lagað sig að síbreytilegum öryggisaðstæðum. Sú mun áfram verða raunin. Meginmarkmið bandalagsins er að tryggja sameiginlegar varnir okkar með því að sinna þremur grundvallarverkefnum: varnarmálum, hættustjórnun og fyrirbyggjandi aðgerðum, og samstarfi um öryggi.

Aðildarríkin hafa notið góðs af þessari sameiginlegu skuldbindingu um frið, frelsi og réttarríkið. Í ávarpi sínu í tilefni af 75 ára afmæli NATO sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra: „Bandalagið snýst nefnilega ekki bara um að telja skriðdreka og freigátur; og tilgangur þess er ekki aðeins að verja hvern einasta þumlung bandalagsríkja; Atlantshafsbandalagið er líka pólitískt bandalag lýðræðisríkja.“

Ísland er stofnaðili bandalagsins og hernaðarlega mikilvæg staðsetning landsins í Norður-Atlantshafi myndar mikilvæga brú milli Norður-Ameríku og Evrópu.

Þótt Ísland hafi engan fastan her leggja Íslendingar þó sitt af mörkum til starfsemi NATO með fjárframlögum og borgaralegum liðsmönnum. Í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland er áréttað „að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu verði áfram lykilstoð í vörnum Íslands og meginvettvangur vestrænnar samvinnu sem Ísland tekur þátt í á borgaralegum forsendum til að efla eigið öryggi og annarra bandalagsríkja“.

Sameiginlegar varnir okkar snúast ekki aðeins um að verjast vopnuðum árásum heldur einnig að efla viðbrögð við margvíslegum tölvuárásum og árásum með blönduðum aðferðum, í nánu samstarfi við aðila á borð við Evrópusambandið. Hægt er að nota nútímatækni til að trufla og jafnvel lama nútímasamfélög.

Nú, árið 2024, er NATO sameinað í stuðningi sínum við Úkraínu, jafnt á stjórnmálasviðinu sem og í verki. Það er NATO í hag að styðja nauðvörn Úkraínu og tryggja að Úkraína haldi velli, enda er geta Úkraínu til að verja sig nátengd okkar eigin öryggi. Bandalagið hefur þegar stutt Úkraínu með ýmsum hætti, meðal annars með margra ára áætlun um aðstoð, eflingu pólitískra tengsla og með því að leggja áherslu á að Úkraína fái inngöngu í NATO að fengnu samþykki bandalagsþjóðanna og að uppfylltum skilyrðum.

Á sama tíma hefur árásarstríð Rússa gegn Úkraínu leitt til umtalsverðrar aukningar á útgjöldum til varnarmála í okkar eigin löndum. Við bandalagsþjóðirnar skorumst ekki undan. Evrópsku bandalagsþjóðirnar verja alls 2% af vergri landsframleiðslu til varnar- og öryggismála og stuðningur við aukin útgjöld til varnarmála er víðtækur, enda ljóst að sameiginlegar varnir okkar eru brýnar og nauðsynlegar sem aldrei fyrr. Ekki til að heyja stríð heldur til að halda aftur af Rússlandi og til að gæta friðar.

NATO-fundurinn í Washington markar 75 ára sögulegan árangur og er til marks um stöðug tengsl og samstöðu bandalagsþjóðanna þvert á Atlantshafið. Þó að við séum ólík höfum við alltaf verið sameinuð um að halda fólkinu okkar öruggu og verja hvert annað. Sú ófrávíkjanlega skuldbinding að árás á eina bandalagsþjóð jafngildi árás gegn öllum er það sem að lokum tryggir öryggi okkar og hagsæld og gerir milljarði íbúa bandalagsins kleift að búa við frelsi.

Jeannette Menzies er sendiherra Kanada. Kirsten Geelan er sendiherra Danmerkur. Anu Laamanen er sendiherra Finnlands. Guillaume Bazard er sendiherra Frakklands. Clarissa Duvigneau er sendiherra Þýskalands. Cecilie Willoch er sendiherra Noregs. Gerard Pokruszynski er sendiherra Póllands. Bryony Mathew er sendiherra Bretlands. Carrin F. Patman er sendiherra Bandaríkjanna. José Carlos Esteso Lema er sendifulltrúi Spánar. Sven Widerberg er sendifulltrúi Svíþjóðar.