Til að varnaráætlanir á N-Atlantshafi séu trúverðugar er þörf fyrir viðbúnað af margvíslegu tagi hér. Um eðli hans og framlag okkar verður að ræða að íslensku frumkvæði.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Ríkisoddvitar 32 landa Atlantshafsbandalagsins (NATO) koma saman til sögulegs fundar í Washington 9. og 10. júlí. Þar verður haldinn 75 ára afmælisfundur bandalagsins sem var stofnað í Washington 4. apríl 1949.

Aðild Svíþjóðar að bandalaginu og valið á Mark Rutte sem arftaka Jens Stoltenbergs í embætti framkvæmdastjóra NATO hljóta formlega staðfestingu. Rætt verður um stríðið í austurhluta Evrópu og eflingu varna bandalagsins. Lagt verður á ráðin um framtíðaraðstoð við Úkraínu.

Til hliðar við formlega fundi verður rætt um stjórnmálaástandið í einstökum löndum, ekki síst í kjarnorkuveldunum þremur innan bandalagsins, Bandaríkjunum, Bretlandi og Frakklandi.

Í öllum löndunum þremur ríkir pólitísk óvissa vegna kosninga og breytinga á ríkisstjórnum. Kjósendur hafa tekið af skarið í Bretlandi og Frakklandi án þess að afstaðan til aðildar landanna að NATO breytist. Í Bandaríkjunum er óvissan tvíþætt, hvort Joe Biden forseti bjóði sig fram til endurkjörs og hvað gerist gagnvart NATO sigri Donald Trump í kosningunum í nóvember.

Við framtíðarspurningum fást engin endanleg svör en áherslan er á að tryggja að NATO hafi fælingarmátt sem dugi til þess að halda Vladimír Pútín Rússlandsforseta í skefjum. Brotni varnarlínan í Úkraínu óttast fleiri nágrannaþjóðir Rússa og fyrrverandi lýðveldi innan Sovétríkjanna að á þau verði ráðist. Hugsjónin um Stór-Rússland keisaratímans nýtur samúðar á ólíklegustu stöðum. Tilefnislaus árás Pútíns á Úkraínu er skýrð með samúðarvotti, Rússar glími við ofsóknaræði gagnvart vestrinu. Rússagrýlan sé þar ljóslifandi.

Norrænar nágrannaþjóðir okkar samhæfa herafla sinn á markvissan hátt. Alexander Stubb Finnlandsforseti, Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, og Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, hittust til dæmis 19. og 20. júní í Bodø í Noregi til að ræða leiðir til að dýpka varnarsamstarf sitt í hánorðri innan ramma aðildar sinnar að NATO.

Finnlandsforseti sagði að þeir hefðu einnig rætt hvernig þeir myndu haga störfum sínum á ríkisoddvitafundinum í Washington 9. og 10. júlí. Það væru mörg málefni sem þeir gætu kynnt sameiginlega á fundinum

Eitt af þeim málum sem þróast hefur hratt frá aðild Finna og Svía að NATO er ákvörðunin um að innan herstjórnarkerfis NATO eigi norrænu ríkin öll að falla undir sameiginlegu NATO-herstjórnina JFC Norfolk í Virginíuríki í Bandaríkjunum eins og Keflavíkurstöðin gerði í kalda stríðinu. Þá var skipulagið hins vegar þannig að Noregur og Danmörk féllu undir Evrópuherstjórn NATO.

Varnarmálaráðherrar Dana og Norðmanna rituðu 27. júní undir tvíhliða samkomulag um aukið varnarsamstarf sem snýr að N-Atlantshafi og norðurslóðum. Í samkomulaginu er meðal annars rætt um eftirlit með drónum og auknar loftvarnir.

Þegar lesið er um þetta samstarf um gæslu í næsta nágrenni okkar má spyrja hvort ekki sé samstarfsáhugi hjá þessum vinaþjóðum gagnvart okkur eða hvort íslensk stjórnvöld hafi engan áhuga á varnarsamstarfi við norrænu ríkin. Þau haldi sig alfarið að Bandaríkjunum í krafti varnarsamningsins.

Þrátt fyrir samninginn verðum við að huga að okkar eigin framlagi. Í tilkynningu um dansk/norska samstarfið var sagt frá þjálfun norskra flugmanna og flugvirkja hjá danska flughernum á Seahawk-þyrlum. Danir hafa tekið þær í notkun og Norðmenn keypt. Þeir sem nú skoða endurnýjun á þyrluflota landhelgisgæslunnar ættu ekki að leita langt yfir skammt. Áhrif af rekstri sambærilegra þyrlna myndu birtast í gagnkvæmu öryggi og náinni samvinnu.

Kaup á nýjum bandarískum þyrlum yrði mikilvægt framlag Íslands til eigin öryggis og til að efla öryggi á N-Atlantshafi auk þess sem huga ætti að drónum bæði í lofti og hafi. Þeir eru borgaraleg tæki fyrir borgaralegar stofnanir.

Í 17. júní-ræðu sinni sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra meðal annars:

„Það er frumskylda okkar að huga enn betur að eigin vörnum og styðja við varnir bandamanna okkar – rétt eins og við treystum á að þeir gerðu væri á okkur ráðist. Það fer vel saman að vera friðelskandi þjóð og verja þau gildi sem tilvist okkar sem sjálfstæðrar þjóðar grundvallast á.“

Hvað ætlum við að leggja af mörkum? Til eigin varna og bandamanna okkar? Hvar fara fram umræður um það? Á hvaða grunni greinum við stöðu okkar?

Við verðum að skilgreina okkar skýru rödd og taka þátt í samstarfi með bandamönnum okkar sem tengipunktur N-Ameríku og N-Evrópu. Við eigum að skapa sem mest öryggi fyrir þá sem tryggja heimsfrið með friði í okkar heimshluta.

Framvarnarlína NATO hefur verið dregin fyrir norðan Ísland. Fundur ráðamanna Finna, Norðmanna og Svía í Bodø snerist að verulegu leyti um flutning á liðsauka og hergögnum sem kæmu sjóleiðis til N-Noregs og færu þaðan til Svíþjóðar, Finnlands og suður til Eystrasaltsþjóðanna.

Bjarni Benediktsson, þáv. utanríkisráðherra, sagði á alþingi 22. febrúar 2024 að innan NATO hefði staðan á norðvestursvæðinu verið endurskilgreind, Ísland væri hluti þess svæðis. Þar yrði eftirlit aukið og hann hefði falið embættismönnum utanríkisráðuneytisins að „skoða sérstaklega þörfina fyrir endurskoðun á því sem snýr sérstaklega að varnarmálunum“ í ljósi þessara breytinga og þess að tiltölulega lítið væri vikið að þeim í nýuppfærðri þjóðaröryggisstefnu.

Til að varnaráætlanir á N-Atlantshafi séu trúverðugar er þörf fyrir viðbúnað af margvíslegu tagi hér. Um eðli hans og framlag okkar verður að ræða að íslensku frumkvæði.