Jón Viðar Jónmundsson
Jón Viðar Jónmundsson
Það er von mín að forlagið Veröld viðurkenni athafnir drengjanna og biðjist afsökunar á þeim opinberlega.

Jón Viðar Jónmundsson

Greinarheitið lýsir athöfnum sem frekar fáir leggja stund á. Í fréttum á þessu ári var að vísu að tveir norskir ráðherrar hröktust úr embætti vegna slíks verknaðar. Minnist líka fyrir löngu kjaftasks hjá Háskóla Íslands sem hlaut ákúrur fyrir svona vinnubrögð vegna skrifa sem hann meinti að væru bókmenntaskrif. Man ekki hvort dómstólar lögðu á hann sektir vegna þess. Í öllu falli virðist ljóst að slíkar athafnir eru víða taldar ámælisverðar og víða lögbrot.

Þessi afbrot fremja menn örsjaldan og þá ef þeir taka sér penna í hönd og fara að skrifa í eigin nafni beint eftir eldri skrifum annarra, geta ekki heimilda og láta í það skína að flaggað sé eigin texta. Góðu heilli er svona þjófnaður fátíður hérlendis. Í síðasta jólabókaflóði rak hins vegar á fjörur mínar bók þar sem þessi vinnubrögð eru viðhöfð í stórum stíl. Þar sem þær athafnir beinast talsvert að mér get ég akki annað en vakið athygli á þessu þannig að lesendur geti dæmt um málið.

Þetta er bókin Forystufé og fólkið í landinu, sem bókaforlagið Veröld gaf út. Höfundur Daníel Hansen sem ég þekkti að góðu einu úr farsælu samstarfi og skil þess vegna ekki vinnubrögð hans. Meðhöfundur heitir Guðjón og grunur minn að hann sé ástæða verknaðarins. Guðjón þennan hef ég einu sinni séð austur á Svalbarði og hann hringt undarleg símtöl í framhaldinu. Aðeins vil ég vitna til orða hans, þó að allt sem ég hef getað sannreynt virðist lygi sem hann hefur sagt við mig. Hann gortaði sig af því að starfa sem leigupenni Guðna Ágústssonar, skrifa sem sagnfræðingur þó að staðreyndavillur sem ég reikna honum til tekna í bókarkorninu megi telja í hundruðum. Þannig vinnubrögðum hef ég ekki kynnst hjá sagnfræðingum. Bætti við að hann hefði ekkert vit á sauðfé, síst af öllu forystufé. Bókin vitnar vel um það en slíkt mat á hæfileikum höfundar hafði ég ekki áður þekkt.

Ritstuldurinn er of langur til að rekja hér lið fyrir lið. Lesendum aðeins bent á grein sem ég skrifaði 2015 með ágætu samstarfsfólki og heitir „Forystufé á Íslandi“ og held að standi undir nafni. Greinina birtum við í því góða riti Náttúrufræðingnum. Á síðu 99 er undirkafli sem heitir „Einkenni forystufjár“. Lesið nú þetta á móti síðu 9 og 10 í bók kumpánanna. Verður komist öllu lengra í að stela efni?

Um hvað þeir ætluðu að skrifa bók sína veit ég ekki. Mögulega matreiðslubók vegna mikilla skrifa um kaffi og kleinur. Sem umfjöllun um fólk í landinu er þetta frekar bragðdauft rit, þrátt fyrir góðan kveðskap Jóhannesar Sigfússonar og Gunnars Rögnvaldssonar. Um forystufé er hún takmarkað. Þekki forystufé í landinu það vel að ég veit að ótrúlega hátt hlutfall kindanna sem bókin fjallar um er margs konar blendingsfé. Ásgeir Jónsson frá Gottorp ritaði meistaraverk um forystufé á sjötta áratugnum. Þar er fjallað um hreinræktað forystufé og í þeim örfáu tilvikum sem frá því víkur er ávallt getið um slíkt. Slík aðalatriði fara rækilega fram hjá þeim kumpánum. Skrif um ræktun forystufjár vissi ég að var eitur í þeirra beinum. Sendi þeim handrit þar um, sem þeir höfnuðu strax, að lágmarki yrði að fella út allt sem laut að ræktun þess fjár í greininni ætti hún að vera birtingarhæf að þeirra mati.

Þegar Daníel fór að huga að bókarútgáfu hafði hann samband við mig um tvö atriði. Bað mig að skrifa grein, sem rakið er hér að framan hvaða meðferð fékk. Var hafður að fífli í fyrsta sinn svo ég muni. Hitt að lesa yfir efni bókarinnar sem ég að sjálfsögðu lofaði að gera og endurtók að það boð stæði óhaggað þrátt fyrir meðhöndlun greinarinnar. Boðið var aldrei þegið, líklega af ásetningi eins og rakið er síðar. Sé þó að ég hefði getað leiðrétt yfir 100 staðreyndavillur í bókinni, en sagnfræðingnum Guðjóni virðist slík textameðferð áhugamál.

Strax og ég sá ritþjófnaðinn hringdi ég í Daníel og bauð honum að biðjast afsökunar á slysinu opinberlega og málinu væri þar með lokið. Mér til undrunar neitaði hann strax. Við þetta bættist að góðvinur minn Lárus Birgisson sagðist hafa fengið umræddan texta til yfirlestrar. Hann hefði bent þeim á að geta heimilda eins og siðað fólk gerir. Ákvarðanir þeirra blasa við öllum á síðum bókarinnar. Í ljósi þessa virðast það hafa verið samantekin ráð kumpánanna.

Mér er það ekki áhugamál að koma fólki í steininn. Hins vegar vil ég framkomu siðaðs fólks og að mistök séu viðurkennd opinberlega og beðist afsökunar á þeim. Útséð virðist um þau viðbrögð hjá höfundum. Viðbrögð Daníels rakin. Ömurlegri viðbrögð Guðjóns vil ég hans vegna ekki rekja nema segja að hann hringdi í mig strax eftir að ég ræddi við Daníel og tilkynnti að hann ætlaði strax að biðjast afsökunar opinberlega. Það var sams konar lygi og annað sem ég hef kynnst frá hans hendi. Nú er það skoðun mín að Guðjón sé ábyrgur fyrir ritstuldinum. Daníel aðeins af drengskap ætlað að verja ræfilinn.

Það er von mín að forlagið Veröld viðurkenni athafnir drengjanna og biðjist afsökunar á þeim opinberlega.

Höfundur er fyrrverandi landsráðunautur BÍ í sauðfjár- og nautgriparækt í áratugi.

Höf.: Jón Viðar Jónmundsson