Lilja Dögg Alfreðsdóttir
Lilja Dögg Alfreðsdóttir
Ein gifturíkasta ákvörðun lýðveldistímans var tekin á Alþingi hinn 30. mars 1949 um að Ísland skyldi gerast stofnaðili Atlantshafsbandalagsins.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Eitt það mikilvægasta í lífinu er góð vinátta, sem reynist traust þegar á reynir. Við kynnumst mikilvægi vináttu strax í bernsku og vitum líka að brýnt er að velja vini gaumgæfilega. Atlantshafsbandalagið er varnarbandalag vinaþjóða sem aðhyllast lýðræði og frelsi. Í ár fögnum við 80 ára lýðveldi Íslands og getum litið stolt yfir farinn veg, en það er ekki að ósekju heldur hafa farsælar ákvarðanir sem teknar voru á fyrstu árum lýðveldisins varðað þá vegferð. Ein gifturíkasta ákvörðun lýðveldistímans var tekin á Alþingi hinn 30. mars 1949 um að Ísland skyldi gerast stofnaðili Atlantshafsbandalagsins. Þáverandi forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, undirritaði síðan stofnsáttmála þess í Washington DC fimm dögum síðar, hinn 4. apríl, ásamt 11 öðrum þjóðarleiðtogum.

75 ára farsælt varnarbandalag

Ákvörðunin var umdeild á sínum tíma og þótti sumum ekki sjálfsagt á upphafsárum kalda stríðsins að Ísland tæki jafnskýra afstöðu til þess að skipa sér í sveit annarra vestrænna lýðræðisríkja með þeim skuldbindingum sem því fylgja. Það var hins vegar hárrétt ákvörðun fyrir herlausa þjóð að mynda bandalag með ríkjum sem voru tilbúin að verja Ísland ef aftur kæmi til átaka, og að sama skapi tryggja bandalagsþjóðum aðstöðu á hernaðarlega mikilvægri legu Íslands í Norður-Atlantshafinu. Fimmta grein stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins um að árás á eitt aðildarríki sé árás á þau öll felur í sér afar mikilvæga vörn og fælingarmátt. Til allrar hamingju hafa ekki orðið átök né stríð gegn aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins í 75 ár af því tagi sem einkenndu fyrri hluta tuttugustu aldar og er ég ekki í nokkrum vafa um að samvinna þessara ríkja hafi stuðlað að friði og velsæld í Evrópu. Aðildarríki Atlantshafsbandalagsins eru orðin 32 og ríkur vilji er hjá fleiri ríkjum til aðildar.

Skelfilegt árásarstríð í Evrópu og stækkun Atlantshafsbandalagsins

Hræðilegt stríð geisar í Úkraínu og verður válegra með degi hverjum. Tugþúsundir hafa fallið og milljónir eru á flótta um alla Evrópu. Hjörtu manna um alla veröld haga sér eins í gleði og sorg og er engum blöðum um það að fletta að harmur úkraínsku þjóðarinnar er mikill. Ísland hefur tekið á móti yfir fjögur þúsund einstaklingum frá Úkraínu og er það vel. Þetta stríð er áminning um mikilvæg þess að standa vörð um gildi lýðræðisins, sem eru því miður ekki sjálfsögð víða um heim. Ég hef þá trú að því fleiri ríki sem aðhyllist frelsi og lýðræði, því betra fyrir frið um allan heim. Ófriður og stríð bitna ætíð verst á saklausum borgurum og svipta ungt fólk æsku sinni og sólarsýn. Meginþunginn þarf að vera á að koma á sanngjörnum friði sem fyrst og koma í veg fyrir stigmögnun átaka. Í raun og sann hefur Rússland það í hendi sér. Rússland hóf þetta stríð og getur lokið því hvenær sem er með því að hætta árásum og draga herlið sitt til baka en því miður er fátt sem bendir til þess að sú leið verði valin á þessari stundu. Atlantshafsbandalagið hefur stutt við Úkraínu í átökunum við Rússland. Stjórnvöld í Úkraínu hafa ítrekað lýst yfir áhuga á að verða aðildarríki bandalagsins. Það er afar skiljanlegt og er nauðsynlegt að vinna að útfærslu á því. Aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins hefur fjölgað á undanförnum áratugum í kjölfar falls hins illræmda járntjalds. Nú síðast bættust við Finnland og Svíþjóð í kjölfar árásar Rússlands á Úkraínu, aðild þessara ríkja er söguleg og þótti nánast óhugsandi fyrir nokkrum árum. Raunsætt endurmat á stöðu öryggismála í Evrópu varð til þess að ríkin tvö ákváðu að sækja um um aðild og ganga í bandalagið með sterkum pólitískum stuðningi innanlands ásamt því að almenningur í báðum löndum fylkti sér á bak við ákvörðunina. Á sínum tíma þótti aðild Noregs að bandalaginu vera langsótt af því að landamæri ríkisins væru við Rússland. Hins vegar var það svo að Norðmenn töldu afar varasamt að hverfa aftur til hlutleysisstefnu í utanríkismálum eftir seinni heimsstyrjöldina.

Ísland þarf að stíga ölduna

„Hver sá sem ræður yfir Íslandi hefur örlög Englands, Kanada og Bandaríkjanna í hendi sér“! Þannig ritaði þýski landherfræðingurinn Karl Haushofer og Winston Churchill vitnaði oft í þessi orð til að sannfæra Bandaríkin um mikilvægi þess að taka yfir varnir Íslands í seinni heimsstyrjöldinni. Churchill var sannfærður um að til að tryggja sigur bandamanna þyrftu Bandaríkin að taka þátt og fyrsta skrefið þyrfti að vera að sjá til þess að sjóleiðin yfir Atlantshafið væri örugg. Bandaríkin taka yfir varnir Íslands í júlí 1941, áður en formleg þátttaka þeirra í seinni heimsstyrjöldinni varð að veruleika. Í framhaldinu hefst farsælt samstarf Bandaríkjanna og Íslands sem leiðir svo af sér tvíhliða varnarsamning sem undirritaður var árið 1951 og var samkomulag um framkvæmd hans síðast uppfært 2016. Varnarsamstarfið við Bandaríkin er lykilstoð í vörnum Íslands ásamt aðild að Atlantshafsbandalaginu. Ljóst er í mínum huga að brýnt er að Ísland sinni þessu samstarfi af alúð og virðingu. Íslendingar eru friðsöm þjóð og tala alltaf fyrir slíku enda er friður forsenda framfara. Að mínu mati er mikilvægt að styrkja stoðir okkar á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og móta löngu tímabæra varnarmálastefnu fyrir Ísland.

Framtíð Atlantshafs- bandalagsins

Á sama tíma og veigamikill leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins fór fram í höfuðborg Bandaríkjanna í vikunni, var loftið lævi blandið þar sem Rússar hafa staðið fyrir mannskæðum árásum á Kænugarð, meðal annars á barnaspítala. Ein af meginniðurstöðum fundarins var að auka stuðning við úkraínsk stjórnvöld og halda baráttunni áfram en ákveðin óvissa er þó uppi vegna bandarísku forsetakosninganna í haust. Donald Trump, f.v. forseti og frambjóðandi, leiðir í flestum skoðanakönnunum og hefur hann ítrekað að Evrópuríki verði að taka meiri ábyrgð á eigin vörnum og ekki gefið skýr skilaboð um áframhaldandi stuðning Bandaríkjanna við Úkraínu. Líklegt er að einangrunarsinnum muni vaxa ásmegin, ef Trump sigrar í nóvember. Staðan var ekki ósvipuð hjá fyrrum forseta Bandaríkjanna, Franklin D. Roosevelt, í seinni heimsstyrjöldinni en þá var lítill stuðningur við þátttöku Bandaríkjanna í því stríði fram að árás Japana á Pearl Harbor. Þátttaka Bandaríkjanna í seinni heimsstyrjöldinni skipti sköpum um að lýðræðisríki sigruðu hin fasísku andlýðræðislegu öfl sem aftur lagði grunninn að þeim opnu þjóðfélögum á Vesturlöndum sem við þekkjum í dag. Afar brýnt er að framtíð Atlantshafsbandalagsins sé tryggð til framtíðar enda hefur þetta varnarsamstarf sýnt fram á mikinn ávinning fyrir aðildarríkin. Ísland hefur aukið framlag sitt á síðustu árum og er það mikilvægt fyrir öryggi og varnir landsins. Hér þarf þó að gera betur eins og íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til, nú síðast á nýafstöðnum leiðtogafundi í Washington.

Öll þessi upprifjun á sögunni á þessum tímamótum er ekki að ástæðulausu heldur er hún áminning um mikilvægi þess að Ísland haldi áfram að skipa sér í sveit með lýðræðisríkjum á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. Á þessum tímamótum er viðeigandi að rifja upp forna speki Hávamála:

Vin sínum

skal maður vinur vera,

þeim og þess vin.

En óvinar síns

skyldi engi maður

vinar vinur vera.

Höfundur er menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.