Bergþór Ólason
Bergþór Ólason
Það var hér fyrir nokkrum dögum sem Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, skrifaði heila grein til varnar Mannréttindastofnun VG. Ég verð að viðurkenna að ég sá það ekki fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn, sem lengi talaði fyrir …

Það var hér fyrir nokkrum dögum sem Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, skrifaði heila grein til varnar Mannréttindastofnun VG. Ég verð að viðurkenna að ég sá það ekki fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn, sem lengi talaði fyrir minna bákni, aðgát í ríkisfjármálum og hagræðingu, myndi gera það – en lengi skal manninn reyna.

Í greininni sem bar heitið „Mannréttindastofnun – sagan öll“ reynir Hildur að réttlæta það að Sjálfstæðisflokkurinn hafi einfaldlega orðið að setja á fót nýja ríkisstofnun, á kostnað skattgreiðenda.

Svo gerði hún heiðarlega tilraun til að gera Miðflokkinn samsekan Sjálfstæðisflokknum – að á einhvern óskiljanlegan hátt væri það Miðflokknum að kenna að Sjálfstæðisflokkurinn tók ákvörðun um að bogna undan þrýstingi VG og stofna heila ríkisstofnun að óþörfu. En ókei, skoðum þetta aðeins nánar – segjum alla söguna.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var fullgiltur hér á landi árið 2016. Árið 2019 var lögð fram þingsályktun á Alþingi þar sem kom fram vilji þingsins til að lögfesta samninginn – og ég samþykkti þá þingsályktunartillögu. Þar vill þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins meina að hnífurinn standi í kúnni þegar kemur að meintri ábyrgð Miðflokksins á því að Sjálfstæðisflokkurinn ákvað að stofna nýja ríkisstofnun á kostnað skattgreiðenda. En henni láðist kannski að lesa sjálfan samninginn, eins og hann kom af kúnni og áður en hann var þýddur af embættismönnum en þýðingin hefur víða sætt mikilli gagnrýni. Það sem ég samþykkti var lögfesting samnings sem segir eftirfarandi í 33. grein:

„1. States Parties, in accordance with their system of organization, shall designate one or more focal points within government for matters relating to the implementation of the present Convention, and shall give due consideration to the establishment or designation of a coordination mechanism within government to facilitate related action in different sectors and at different levels.

2. States Parties shall, in accordance with their legal and administrative systems, maintain, strengthen, designate or establish within the State Party, a framework, including one or more independent mechanisms, as appropriate, to promote, protect and monitor implementation of the present Convention.“

Svo mörg voru þau orð. Öllum sem þetta lesa ætti að vera ljóst að engin krafa er gerð um stofnun nýrrar mannréttindastofnunar svo hægt sé að framfylgja ákvæðum samningsins. Aðeins er gerð krafa um að þau ríki sem taka samninginn upp komi verkefnunum fyrir innan síns stjórnkerfis, eftir eigin hentugleik. Þannig hefði mátt standa að eftirfylgni samningsins með hagfelldari hætti og með minni tilkostnaði. Það blasir við hverjum sem vill sjá.

Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is