Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Íslendingar hafa um árabil búið við upploginn „verðstöðugleika“ fjórflokksins. Þrír þeirra eru í ríkisstjórn núna og hugsanlega mun sá fjórði leiða næstu ríkisstjórn og sennilega kippa einum eða tveimur hinna með sér í hana

Íslendingar hafa um árabil búið við upploginn „verðstöðugleika“ fjórflokksins. Þrír þeirra eru í ríkisstjórn núna og hugsanlega mun sá fjórði leiða næstu ríkisstjórn og sennilega kippa einum eða tveimur hinna með sér í hana.

Þessir flokkar vinna vel saman enda stendur enginn þeirra fyrir raunverulegum breytingum og enginn þeirra mun setja hag fólksins framar hag fjárfesta eða fjármálakerfisins.

Hér er allt í rúst eftir þessa flokka. Alveg sama hvert er litið, kerfin okkar eru að falla hvert af öðru, hvort sem um er að ræða skólakerfið, heilbrigðiskerfið, almannatryggingakerfið, vegakerfið eða nokkuð annað. Sama hvert litið er, það er ekkert að virka sem skyldi, nema náttúrulega fjármálakerfið.

Það blómstrar sem aldrei fyrr og fjárfestar, þeir sem hafa peninga á milli handanna, nýta sér möguleikana, sem þeir hafa fengið á silfurfati, til hins ýtrasta.

Aðrir, varlega áætlað um helmingur þjóðarinnar, horfa hins vegar á hag sinn versna frá ári til árs, eða ná kannski í besta falli að halda í horfinu. Það á reyndar bara við um þá sem skulda lítið og hafa því ekki orðið fyrir því miskunnarlausa áhlaupi sem Seðlabankinn hefur staðið fyrir á hag og afkomu tugþúsunda einstaklinga á undanförnum tveimur árum.

Það er staðreynd þrátt fyrir gaslýsingar um velferð, hagvöxt og „góða eiginfjárstöðu heimilanna“, að áhættusamasta fjárfestingin á Íslandi eru fasteignakaup.

Það að koma sér þaki yfir höfuðið eru mannréttindi. Það er fátt mikilvægara í lífi hvers og eins en að eiga heimili, öruggt skjól í þeim vindum sem blása, þar sem við deilum sorgar- og gleðistundum með okkar nánustu og eigum okkur afdrep í dagsins önn.

En nei, þess í stað búum við í landi þar sem bæði fasteigna- og leigumarkaðurinn eru eins og villta vestrið og Seðlabankinn spilar rússneska rúllettu með öryggi og skjól þeirra sem ekki geta varið sig.

Óbilgirnin og harkan gagnvart heimilum landsins er slík að þó að verðbólgan hafi lækkað um 42% frá því hún var hæst, hefur það engin áhrif haft á þessa himinháu vexti og seðlabankastjóri hefur jafnvel látið hafa eftir sér að þeir muni ekki lækka á þessu ári.

Hér fer stöðugt allt á verri veg og það má vissulega kalla það „stöðuga efnahagsstjórn“, en afleiðingarnar eru skelfilegar. Í raun er búið að hindra „hringrás lífsins“ því ungt fólk getur varla stofnað sín eigin heimili og fæðingartíðni hefur aldrei verið lægri.

Þetta er mannfjandsamlegt þjóðfélag og við erum farin að súpa seyðið af því með alvarlegum afleiðingum.

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins. asthildurloa@althingi.is

Höf.: Ásthildur Lóa Þórsdóttir