— Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mennta- og barnamálaráðherra segir gífurlega fjölgun tilkynninga um áhættuhegðun til barnaverndar ekki koma sér á óvart. Hann leggur áherslu á að vinna þvert á kerfi og segir vinnu sem snýr að símanotkun barna í gangi í ráðuneytinu

Elínborg Una Einarsdóttir

elinborg@mbl.is

Mennta- og barnamálaráðherra segir gífurlega fjölgun tilkynninga um áhættuhegðun til barnaverndar ekki koma sér á óvart. Hann leggur áherslu á að vinna þvert á kerfi og segir vinnu sem snýr að símanotkun barna í gangi í ráðuneytinu.

Í síðustu viku var fjallað um þær blikur sem eru á lofti í geðheilsumálum barna í Morgunblaðinu og á mbl.is.

Tilkynningum til barnverndar um áhættuhegðun hefur fjölgað um 31,8% það sem af er ári og tilkynningum um vímuefnaneyslu barna um 118,9%.

Þá hafa tilvísanir til Geðheilsumiðstöðvar barna meira en tvöfaldast á örfáum árum.

Kemur ekki á óvart

Spurður hvort þessar tölur hafi komið á óvart segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, svo ekki vera.

„Við höfum verið að sjá vísbendingar í þessa veruna undanfarið. Til að mynda með áhættuhegðun og fjöldi þeirra barna sem eru gerendur í ofbeldismálum hefur verið að vaxa og þetta rímar allt við það,“ segir Ásmundur og bendir á að tölur í mælaborði um farsæld barna, sem er á vegum ráðuneytisins, hafi sömuleiðis verið í þessa veru.

„Oft og tíðum er samhengi milli aukinnar ofbeldishegðunar og aukinnar vímuefnaneyslu. Hvort tveggja kallar á aðgerðir og við erum að hluta til komin af stað en við þurfum breiðari nálgun á þetta sem við erum líka að undirbúa.“

Vinna þvert á kerfi

Ásmundur segir aðgerðirnar bæði þurfa að felast í sértækum aðgerðum eins og að auka afköst geðheilbrigðiskerfisins, t.d. Geðheilsumiðstöðvar barna sem ræður ekki við gífurlega aukningu í tilvísunum, og sömuleiðis í víðtækari aðgerðum.

„Við þurfum líka að fara alveg niður í grasrótina, alveg niður í foreldrafærni og samtal inni í sveitarfélögum og skólum, forvarnaverkefni.“

Þá segir Ásmundur að vinna þvert á kerfi sé lykill að árangri í þessum efnum en hann þykist nokkuð viss um að til að bregðast við stöðunni þurfi aðgerðir á öllum helstu sviðum samfélagsins.

„Til þess að ná að grípa inn í þetta er mjög mikilvægt að ólík kerfi, þá segi ég ríki, sveitarfélög, heilbrigðiskerfið, skólakerfið, félagsþjónustan, foreldrar, séu ekki að kasta boltanum á milli sín heldur setjist saman niður og vinni samhentar áætlanir um hvernig eigi að bregðast við.“

Ásmundur segir þessa þverfaglegu vinnu þegar hafna með aðgerðaáætlun stjórnvalda til að sporna gegn ofbeldishegðun barna sem kynnt var í lok júní og var unnin í breiðu samstarfi sem mun halda áfram.

„Það er verið að setja upp aðgerðahóp sem mun rýna tölfræðina til að sjá hvort aðgerðirnar séu að virka og þar sitja saman fulltrúar menntakerfis, heilbrigðiskerfis, félagskerfis, barnaverndar og lögreglu og brjóta niður múrana sín á milli.“

Þurfa meiri tölfræði

Í samtali við Morgunblaðið hafa bæði forstöðumaður Geðheilsumiðstöðvar barna og yfirlæknir á barna- og unglingageðdeild Landspítala talað um að fjölgun tilkynninga til barnaverndar sé vísir að aukinni vanlíðan barna. Ekki liggur þó fyrir hvað veldur henni og kalla þau eftir frekari rannsóknum á því.

Spurður hvort það sé vinna sem ráðuneytið þurfi að leggjast í segir Ásmundur svo vera og að ráðuneytið þurfi að nýta tölfræði meira í því samhengi.

„Við þurfum að reyna að rýna orsakasamhengið og skoða hvaða þættir eru að hafa áhrif og hverjir ekki en oft eru þetta fleiri en einn þáttur,“ segir Ásmundur og bætir við að það sé grundvallarhugmyndin að baki mælaborðinu með farsæld barna.

Skoða símanotkun í skólum

Í fyrrnefndu viðtali við Björn Hjálmarsson, yfirlækni á barna- og unglingageðdeild, kom fram að hann telur símanotkun vera stóran þátt í versnandi geðheilsu barna.

„Ég óttast að við séum ómeðvitað að ræna bernskunni frá börnunum okkar. Ómeðvitað eru þau farin að lifa eins og fullorðnir og það sem er kannski mest himinhrópandi er þessi stafræna bylting og þessi nánast takmarkalausi aðgangur barna að efni sem er þeim sannarlega skaðlegt,“ sagði Björn.

Spurður hvort ráðuneyti hans sé með þessi mál til skoðunar segir Ásmundur:

„Það er í gangi núna vinna um símanotkun í skólum og ég reikna með því að fá tillögur frá hópi sem er að vinna það nú á haustdögum varðandi það hvort og þá með hvaða hætti skuli brugðist við því.“

Þá segir hann ráðuneytið nú vinna að foreldrafærninámskeiði ásamt Háskóla íslands sem verður prufukeyrt í samstarfi við nokkra leik- og grunnskóla.

„Allt byrjar þetta nú heima hjá okkur sjálfum og ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við sjálf horfum í eigin barm [...] og veltum fyrir okkur með hvaða hætti við getum sett mörk með samfélagsmiðlanotkun,“ segir Ásmundur.

Höf.: Elínborg Una Einarsdóttir