Þríeyki Júlíus Stefánsson og systurnar Jónína og Anna Jóhannsdætur.
Þríeyki Júlíus Stefánsson og systurnar Jónína og Anna Jóhannsdætur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
1972 „Okkur finnst að það eigi að hafa kvenfólk til að leita á kvenfólki. Við viljum ekki að karlmenn séu að káfa svona á okkur.“ Kristín Guðjónsdóttir og Kristín Ámundadóttir.

Baksvið

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

„Það var ekki beysið veðrið á sumarhátiðinni að Húsafelli þegar Morgunblaðsmenn rúntuðu þar á sunnudaginn. Kuldi og gustur svo miskunnarlaus að maður átti í mestu erfiðleikum við að hemja spurningar og svör svo allt færi ekki út í veður og vind.“

Með þessum orðum hófst umfjöllun Morgunblaðsins um verslunarmannahelgina 1972 en blaðamaður, Á.Þ., og ljósmyndari, Br.H, voru gerðir út af örkinni til að taka stöðuna á skemmtanahaldinu í Húsafelli. Ekki í fyrsta sinn og ábyggilega ekki síðasta sem menn urðu að láta kulda og trekk yfir sig ganga enda þótt enn þá eigi víst að heita sumar á þessum árstíma.

Mótsgestirnir sem norpuðu í Húsafelli voru um fjögur þúsund og létu þó fátt á sig fá. Það mátti heyra söngl úr tjöldum og einstaka manni var nógu hlýtt á puttunum til að leika falskt á gítar, að sögn blaðsins. „Óneitanlega var svolítið ósamræmi að sjá allan þennan fjölda af barðastórum sólskinshöttum sunnan frá Mexikó (eða Hong Kong) skaga yfir kuldaúlpur og ullarteppi, en allt kom þetta að vissum notum. Og almennt voru þeir mótsgestir sem við tókum til bæna ekki óhressir yfir dvölinni.“

Uppteknar af eigin kæti

Fyrst hjóluðu Moggamenn á meyjar tvær á leiðinni upp í Hátíðarlund. Þær voru svo glaðhlakkalegar og uppteknar af eigin kæti að þær máttu varla vera að því að líta við þeim. „Af hverju eruð þið ekki kommúnistar?" spurðu þær þegar þær vissu hvaðan piltarnir komu. „Þær voru einna helzt á því að við værum flugumenn frá Þjóðviljanum dulbúnir sem Morgunblaðsmenn. Við gáfurn lítið út á það, en þó er það vitað, að Brynjólfur Ijósmyndari er konungsson í álögum, og því er ekki allt sem sýnist.“

Þessar líflegu stúlkur reyndust heita Kristín báðar tvær, önnur Ámundadóttir en hin Guðjónsdóttir, báðar úr Reykjavík, 15 ára og í „hinum gáfaða Kvennaskóla“ að vetri til. Þær áttu að fara í þriðja bekk um haustið, og „svo kannski í landspróf. En það fer eftir því hve lengi gáfurnar endast,“ sögðu Kristínarnar af lítillæti.

– Og hvað tekur svo við? Kall og krakkar?

„Nei, ekki strax! Fyrst þarf maður að læra eitthvað.“

Kristín Ámunda ætlaði kannski að fara út í meinatækni, af því að „mig langar til þass og það er ágætt starf," sagði hún eins og þaulæfður pólitíkus.

Kristín Guðjóns, kallaði sig rafvirkja af því að hún vann í raftækjabúð um sumarið, var hins vegar að velta fóstrunámi fyrir sér, „eða kannski leiklist“. Hið síðamefnda þótti Moggamönnum þjóðráð, því Kristín virtist fæddur leikari.

Stöllurnar voru ánægðar með hátíðina en kvörtuðu þó undan einu – áfengiseftirlitinu. „Okkur finnst að það eigi að hafa kvenfólk til að leita á kvenfólki. Við viljum ekki að karlmenn séu að káfa svona á okkur.“

Þá komu okkar menn auga á hressilega þrenningu, tvær stúlkur og einn strák. Spurt var til nafns og reyndist fólkið vera Júlíus Stefánsson úr Reykjavík og systurnar Jónína og Anna Jóhannsdætur úr Borgarnesi. Júlíus kvaðst vera á leið á sjóinn en Önnu langaði í myndlistarnám. Jónína, sem var 22 ára, var hins vegar kokkur á kútter frá Ólafsvík, „og hún sagði okkur rneira að segja að slíkt væri alls ekki svo sjaldgæft; hún vissi t.d. um aðra stelpu, sem hefði verið hálfa vertíðina í Ólafsvík og margar væru sjókonur á sumrin.“

– Og hvernig stóð á þessu?

„Pabbi var á bát og stakk þessu að mér. Mér fannst allt í lagi að prófa.“

Spurt var hvernig henni hefði líkað, og hvort karlarnir hefðu nokkuð verið erfiðir?

„Nei, nei, og þetta var ágætis tilbreyting.“

– Og kokkamennskan?

„Hún gekk bara stórslysalaust. Það drapst enginn eða veiktist.“

Fólkið tíndist upp í Hátíðarlund, margir dúðaðir teppum. Morgunblaðsmenn gengu til rólegs, ungs pars, sem leiddist hönd í hönd, „ósköp sætt“, og röbbuðu stuttlega við það. Þau sögðust ekki vera gift, heldur „bara saman“. Hann hét Garðar Jónsson og vann í pakkhúsi, en hún Hanna Þorgrímsdóttir og var húsmóðir. Og bæði úr Borgarnesi.

Þeim fannst heldur dauft yfir mótinu. „Við komum á föstudag og það var leiðinlegt þá um kvöldið, ekkert fólk og slöpp stemning.“ Þau kváðust hafa verið á Húsafellshátíðunum undanfarin tvö ár og einhverra hluta vegna væri þessi sú lélegasta, þó að skemmtiatriðin og aðbúnaðurinn væri síst verri. Það væri líklega veðrið.

Þægilegasta aðstaðan

Loks voru tekin tali, undir reffilegum blæstri Lúðrasveitar Stykkishólms, ung hjón úr Kópavogi, sem þarna dvöldust i fjölskyldubúðunum með syni sína tvo. Þau hétu Guðrún Þorgeirsdóttir og Pétur Sturluson, og synirnir voru Sturla 6 ára og Þorgeir 7 ára. Pétur var framreiðslumaður, en ekki enn kominn í verkfall.

„Hér er skemmtilegasta og þægilegasta aðstaðan á þessum mótum. Svo er þetta fyrst og fremst gaman fyrir strákana,“ sagði Guðrún.

– Ferðist þið þá mikið?“

„Ekki eins mikið og við gjarnan vildum, bæði vegna atvinnu eiginmannsins og þess, að við erum nú að byggja og þurfum að spara eftir föngum.“

– Er svolítið strangt fyrir ungt fólk að stofna bú og fá húsnæði?

Nú ráðfærði Guðrún sig við Pétur og sagði síðan: „Nei, ekki held ég það. Ekki miðað við víða annars staðar.“

Nú var dagskráin að komast í fullan gang og okkar menn vildu ekki trufla þau hjón frekar. Guðmundur Jónsson kynnir sagði: „Enginn hefur leyfi til að vera leiðinlegur í Hátíðarlundi hér í dag nema ég.“

Þá þótti Morgunblaðsmönnum tími til kominn að hypja sig í
burtu.

Höf.: Orri Páll Ormarsson