Herdís Tómasdóttir herdis@mbl.is

Herdís Tómasdóttir

herdis@mbl.is

„Uppskeruhorfur eru nú eiginlega ekki eins góðar og við reiknuðum með. Við erum bara að læra í hverju skrefi eins og er. Veturinn var mjög slæmur og miklar rigningar svo við erum að horfa á svona 70 til 80% afföll,“ segir Haraldur Guðjónsson bóndi á Neðri-Bakka í Dalasýslu.

Síðustu tvö sumur hefur Haraldur ásamt konu sinni Þórunni Ólafsdóttur stundað hvítlauksrækt á bænum og reka fyrirtækið Dalahvítlaukur. Hvítlaukurinn er ræktaður á um það bil 0,5 hekturum og var áætlað uppskerumagn um þrjú til fjögur tonn en núna segjast þau bara sátt ef þau myndu ná einu tonni.

Margar ástæður að baki

„Ástæðurnar fyrir afföllunum er mikið frost í vetur og tvisvar sinnum komum við að beðinu þannig að hvítlaukurinn lá bara á jörðinni. Það hefur verið mikil frostlyfting og eitthvað um grjót í beðinu hjá okkur og mögulega höfum við ekki sett hann nægilega grunnt niður. Svo teljum við hluta af þessu vandamáli vera vegna þess að við höfðum ekki fengið nógu gott útsæði frá Englandi og erum við að horfa svolítið upp á þetta núna.“

Ekki nóg um það en þekjugróðurinn sem þau höfðu sáð til þess að koma í veg fyrir illgresi í beðinu spíraðist ekki sökum þurrks í fyrra.

„Ef þekjugróðurinn hefði náð að vaxa þá hefði hann getað hlíft jörðinni eins og hann hefur gert síðustu ár. Nú bara spíraði hann ekki og vorum við svo seint að sá þessu. Af því að hann náði sér ekki á strik í fyrra erum við bara að reita arfa hérna. Sem við viljum ekki gera,“ segir Þórunn.

Þau telja að seinkun á sáningu hafi líka eitthvað spilað inn í.

„Þess vegna vorum við líka svona lengi að sá útsæðinu og fengum við frostið í bakið og þurftum að nota borvél til að setja útsæðið í jörðina því það var allt frosið. Núna erum við að flytja inn tæki til að opna laukinn og sú vél ætti að klára það kannski á einum degi sem við vorum að gera í margar vikur í fyrra,“ segir Haraldur.

Íslenskur hvítlaukur sér á báti

Vonbrigðin með uppskeruna í sumar hafa ekki slegið niður metnað hjónanna en þau hafa verið að stækka svæðið um tvo hektara og segjast vongóð um að fá 10 til 12 tonn af hvítlauki á næsta ári, ef allt gengu upp.

„Þetta er auðvitað allt bara lærdómur af því að við erum ekki í þessari hefðbundnu ræktun og þarf maður þá að hugsa um öðruvísi hluti, en við erum að fylgja ræktunaraðferðinni „auðgandi landbúnaður“ sem er svolítið að ryðja sér til rúms í dag,“ segir Þórunn.

Í auðgandi landbúnaði er ekki verið að nota tilbúinn áburð eða skordýraeitur og er lagt áherslu á auka jarðvegsheilbrigði og kolefnisbindingu jarðvegsins.

„Með heilbrigðan jarðveg er engin hætta á að eyðileggja bragðið með eiturefnum. Erlendur hvítlaukur er kannski ónýtur eftir mánuð en íslenski geymist mikið lengur og bragðast mun betur,“ segir Haraldur.

Þau segja góða uppskeru á síðasta ári hafa lagt góðan grunn fyrir fyrirtækið og er fjöldi spennandi verkefna í vændum.

„Við gerðum samning við Banana síðasta sumar og fer heill hvítlaukur í valdar verslanir hjá þeim í Hagkaup. En svo vorum við að framleiða hvítlaukssalt í fyrsta skipti í vetur sem er 25% hvítlaukur frá okkur og síðan sjávarsalt frá Norðursalti í Reykhólum. Það rauk út og munum við framleiða það aftur í haust,“ segir Haraldur.