Innbrot Brutu glerhurð inn að skrifstofum borgarstjórnar.
Innbrot Brutu glerhurð inn að skrifstofum borgarstjórnar. — Morgunblaðið/Hákon
Tveir menn brutust inn í Ráðhús Reykjavíkur fyrr í vikunni í gegnum bílastæðakjallara hússins. Kjallarinn opnar sjálfkrafa klukkan 6.45 á morgnana og voru mennirnir mættir aðeins fimm mínútum seinna

Drífa Lýðsdóttir

drifa@mbl.is

Tveir menn brutust inn í Ráðhús Reykjavíkur fyrr í vikunni í gegnum bílastæðakjallara hússins. Kjallarinn opnar sjálfkrafa klukkan 6.45 á morgnana og voru mennirnir mættir aðeins fimm mínútum seinna.

Þetta staðfestir Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, samskiptastjóri Reykjavíkurborgar, í samtali við Morgunblaðið.

Þá staðfestir lögreglan í samtali við blaðið að búið sé að bera kennsl á mennina og að málið sé í rannsókn.

Virðist sem engu hafi verið stolið

Mennirnir brutu einnig glerhurð á norðurhlið Ráðhússins.

Í fyrstu komust þeir ekki inn í nein herbergi nema salerni og mötuneyti. Annar þeirra fór út tómhentur en hinn hélt áfram og virðist hafa komist upp á skrifstofuhæðir borgarstjórnarinnar með því að eiga við hreyfiskynjara.

„Það var smávegis tjón en svo virðist sem engu hafi verið stolið,“ segir Eva en bætir við að auðvitað eigi húsið og starfsmenn þess að vera örugg.

Einhverjar tafir virðast hafa verið á boðum til öryggismiðstöðvarinnar þar sem viðbragðsaðilar mættu á svæðið um 40 mínútum eftir innbrotið, en þá voru mennirnir hvergi sjáanlegir.

„Það er verið að endurskoða öryggið og fara yfir viðbrögðin,“ segir Eva og bætir við að einnig sé verið að skoða hurðir, læsingar og öryggi Ráðhússins almennt.

Höf.: Drífa Lýðsdóttir